14.12.1978
Efri deild: 27. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1543 í B-deild Alþingistíðinda. (1025)

7. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Frsm. meiri hl. (Karl Steinar Guðnason):

Í tilefni af þessum umr. vil ég segja það, að ég hygg að við höfum fengið þær upplýsingar er hafa lotið að þessu frv. Við fengum ekki áfangaskýrsluna, og hv. þm. Jón Helgason gerði grein fyrir því hvaða rök voru nefnd gegn því. Okkur var sagt hverjar væru till. nefndarinnar varðandi ráðstöfun gengismunarsjóðar, till. nefndarinnar varðandi húsin á Suðurnesjum, en aðrar till. um ráðstöfun hans liggja ekki fyrir.

Ég vil jafnframt segja það, að ég hygg að það hafi verið sérstaklega vel að staðið hjá sjútvrh. að skipa þessa úttektarnefnd til að gera könnun á stöðu frystihúsanna. Staða þeirra hefur verið slæm að undanförnu, ástæður fyrir því eru margvíslegar, og ég hygg að staðan sé verst á Suðurnesjum eða hafi verið það undanfarin ár.

Okkur var sagt frá því að í skýrslunni væri talað um 11 hús, sem væru talin lífvænlegar rekstrareiningar, og að þau hús væru með um 80% af freðfisksframleiðslunni á svæðinu á sínum snærum. Það kvað vera meiningin að styrkja þessi hús sérstaklega og koma málum þannig fyrir að hagræðing verði sem mest og best. Verður ekki annað sagt en að rétt sé að setja fram ákveðna stefnu í því, hvort öll frystihús eigi að lifa eða aðeins þau sem hagkvæm eru sem rekstrareining.

Ráðstöfun úr gengismunarsjóði verður sjálfsagt alltaf deilumál, en fróðlegt hefði mér þótt að fá vitneskju um það, hvaðan það fé kemur sem deilt er út, þ.e.a.s. hvað kæmi frá hverjum landshluta. Mér er kunnugt um að þeir, sem reka stöðvarnar á Suðurnesjum, telja að það muni litlu á því sem þeir láta og því sem þeir fá.

Þær upplýsingar, sem á skortir eða deilt hefur verið á að hafi ekki verið gefnar, eru í áfangaskýrslunni sjálfri. Væntanlega verður hún gefin út bráðlega. En ég hygg að það skipti litlu fyrir afgreiðslu þessa máls, hvort n. fengi að sjá hana nú eða ekki.