14.12.1978
Efri deild: 27. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1544 í B-deild Alþingistíðinda. (1026)

7. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. orð hans hér og þær yfirlýsingar, að fjh.- og viðskn. Nd. muni fá öll gögn í þessu máli sem hún kann að biðja um, sem að öllum líkindum verða þau sömu og beðið hefur verið um í hliðstæðri n. í þessari deild.

Mér finnst einstaka ræðumenn hér, eins og hv. síðasti ræðumaður, gera frekar lítið úr þessari áfangaskýrslu og telja að í henni felist atriði um viðskipti fyrirtækja við banka sem ekki megi bera á borð fyrir n. þingsins. Það kann vel að vera. Þó eru þetta allt saman opinberir bankar og hér er um ráðstöfun opinberra fjármuna að ræða. Það eru til ýmsar leiðir til að klæða skýrsluna þannig, að það ætti ekki að brjóta í bága við þá leynd sem einhverjir kynnu að telja að ætti að hvíla á slíku, enda stendur deilan ekki um það.

Fyrirspurnir okkar beindust að því að fá ítarlega og nákvæma lýsingu á því, á hvaða grundvelli matið sjálft væri framkvæmt, tillit til hvaða stærða og þátta væri tekið í mati á hinum einstöku frystihúsum og þó einkum og sér í lagi hvert væri hlutfallið í matinu, annars vegar á milli rekstrarlegrar stöðu frystihússins, skulda þess gagnvart bankakerfi og öðrum opinberum aðilum og annað fleira, sem við getum kallað bókhaldslega þáttinn, og hvaða atriði væru það síðan í tæknilegum búnaði og öðrum framkvæmdalegum búnaði frystihúsanna sjálfra sem færu inn í matið á því, hvort þau væru, eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, lífvænlegar rekstrareiningar. Þar sem hér er ekki aðeins um að ræða úttekt á Suðurnesjum, heldur beinlínis frystiiðnaðinum öllum í landinu, þá er mjög mikilvægt að það liggi alveg ljóst fyrir, hverjar eru hinar fjárhagslegu og hverjar eru hinar framkvæmdalegu forsendur slíkrar matsgerðar. Það er alveg ljóst, að niðurstöður starfshópsins, þótt eingöngu sé um fagmenn að ræða, það kom fram í störfum n., munu verða lagðar og hafa þegar verið lagðar til grundvallar úthlutunum eða vilyrðum um úthlutanir á þessum fjármunum.

Þegar þetta barst fyrst í tal, þá urðu um það ítarlegar umr. í n. og við margir nm., bæði úr aðildarflokkum þessarar ríkisstj. og eins stjórnarandstöðu, lýstum þeirri skoðun okkar, að það væri veruleg hætta á því, eins og oft hefði áður brunnið við, að hér væri eingöngu verið að nota svokallað hagræðingarfé til þess að bjarga stöðu frystihúsanna gagnvart bönkunum. Það mætti ekki fara svo í þetta sinn eins og hefði gerst oft áður, að í nafni hagræðingar væri eingöngu verið að bjarga skuldasúpu hinna verst settu frystihúsa gagnvart bankakerfinu. Það væri hins vegar mikilvægt verkefni í íslenskum frystiiðnaði að koma þar á hagræðingu, ekki aðeins hjá þeim sem verst eru settir, heldur líka þeim sem vel standa sig, svo þjóðin sem heild fengi meira út úr frystiiðnaði sínum en hún gerir nú. Það er fyllilega mögulegt, ef það er stefnan, að þjóðin sem heild fái meira út úr frystiiðnaði sínum en hún gerir nú. Það getur verið réttlætanlegt að verja hagræðingarfénu að verulegu leyti, jafnvel fyrst og fremst, til þeirra frystihúsa sem bókhaldslega séð standa mjög vel, frekar en eins og okkur býður í grun að verði gert nú, að því verði fyrst og fremst varið til þeirra sem bókhaldslega séð og gagnvart bankakerfinu standa mjög illa.

Það var tilraun n. að skoða hvort það væri ekki hægt að brjótast út úr vítahring, sem við margir hverjir töldum að hefði verið dragbítur á ráðstöfun á þessu fé. Það stóð að baki tilraunum okkar til þess að fá allar upplýsingar um hinar tæknilegu, efnahagslegu og rekstrarlegu forsendur þessarar mjög svo mikilvægu úttektar sem verið er að gera á frystiiðnaði landsmanna. Ég er alls ekkert að lasta hana á einn eða neinn hátt, vil taka það alveg skýrt fram, en ég tel hins vegar að hér sé um svo þýðingarmikið atriði að ræða að hún verði að liggja fyrir.

Það var í n. talað um tvær skýrslur, og mér fannst síðasti hv. ræðumaður rugla þeim saman. Annars vegar er um frumskýrsluna sjálfa að ræða, sem við fengum boð um að n. gæti ekki fengið að sjá, og svo hins vegar útdrátt úr þessari skýrslu sem n. fengi að sjá, þótt það stæði á því að sá útdráttur kæmi til n. Hér er þess vegna í raun og veru um tvær skýrslur að ræða: annars vegar heildarskýrsluna, sem niðurstaðan var að við fengjum ekki, og hins vegar útdrátt úr henni.

Ég vil undirstrika það hér enn og aftur, að ég tel að þegar farið er af stað með úttekt af þessu tagi, sem ég tel fyllilega virðingarvert og allra góðra gjalda vert, þá megi ekki fara með þá vinnu með jafnmikilli leynd og a.m.k. mér og ég veit ýmsum öðrum nm. í þessari n. fannst vera.