15.12.1978
Efri deild: 30. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1582 í B-deild Alþingistíðinda. (1095)

108. mál, aukin gæði fiskafla

Guðmundur Karlsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. 1. landsk þm., Ágúst Einarssyni, fyrir að flytja þessa till. hér á þingi. Það er vel þess virði að ræða hér um nauðsyn á að auka gæði fiskaflans nú þegar hann minnkar stöðugt ár frá ári.

Mér finnst ekki úr vegi að skýra nokkuð frá því, sem mönnum er kannske ekki kunnugt hér, sem áður hefur gerst í þessum efnum, t.d. á þeim tíma sem við í Vestmannaeyjum höfðum sæmilega rúm fjárráð og gátum, má segja, gert það sem við töldum nauðsyn á. Þá voru þar uppi allskemmtilegar hugmyndir um kassavæðingu einmitt fyrir bátaflotann. Þetta var á árunum 1971 og 1972. Við komumst í samband við ágætt danskt fyrirtæki, og það vann með okkur að tillögum og skipulagi að algjörri breytingu og nýjung við löndun á fiskinum og meðhöndlun hans í fiskvinnslufyrirtækjunum. Þetta mátti heita að vera komið á framkvæmdastig í lok ársins 1972. En því miður breyttust aðstæður okkar mikið í upphafi árs 1973, þegar eldgosið varð, svo að ekki varð meira af framkvæmdum. Því miður voru engir aðrir á Íslandi, sem höfðu frekari áhuga á þessu, en við. Þetta starf, sem þarna hafði farið fram og var komið í rauninni á framkvæmdastig, fór því yfir til Færeyja. Og það er það sem gerðist í Færeyjum, að þeir tóku við þessu sem búið var að vinna hér, framkvæmdu það. Það er það sem Íslendingar og aðrir hafa streymt til að skoða í Færeyjum, þ.e. þetta starf sem hér var búið að vinna, og þar er það í framkvæmd. Þetta er einnig komið til Grænlands og reyndar að nokkru til Kanada. En engir aðrir en við höfðum áhuga á þessu á sínum tíma á Íslandi. Það er kannske ekki ástæða til að skýra frá því, að út úr þessu kom 500 lítra gerviefniskassi sem fyrirtæki í Noregi framleiddi og fór reyndar á hausinn á að framleiða, svo þetta, sem við vorum byrjaðir á hafði ýmis áhrif sem menn gerðu sér ekki grein fyrir í upphafi.

Það er enginn vafi að kassavæðing hefur í sjálfu sér haft mjög mikil áhrif í togaraflotanum. En ég held að það verði ákaflega erfitt fyrir okkur að koma við kassavæðingu á bátaflotanum okkar, vertíðarflotanum. Þess vegna þurfum við að fara aðrar leiðir á meðan við notum hann, en ég sé nú ekki fram á annað en að það verði gert. Ég held að það megi alveg eins ná sama árangri með aukinni hillulagningu og auknum kröfum um meðferð aflans um borð í bátunum. Það er einnig margt sem hefur áhrif á gæði hráefnisins. Það er útivera skipanna sem er allt of löng orðið hjá okkur, það er togtími togskipanna, það er fjöldi veiðarfæra, fjöldi neta og reyndar hve lengi þau liggja í sjó hjá netaveiðibátunum og ýmislegt annað. Til þess að bæta þetta þarf náttúrlega að auka áróður og kannske setja strangari reglur en nú gilda. Ég tel t.d. ekki útilokað að við settum reglur um útivist veiðiskipa okkar, nákvæmlega eins og Færeyingar hafa gert. Þeir eru t.d. með hámarkstímann fjóra sólarhringa fyrir minni veiðiskip sín, eftir því sem mér er sagt.

Á þessum tíma sem við vorum að vinna að þessu í Vestmannaeyjum, þá höfðum við líka fullan hug á því að byggja sameiginlega fiskmóttöku, sameiginlega ísframleiðslu og annað sem að gagni mætti koma. Því miður hafa aðstæður okkar breyst svo mikið nú á síðustu árunum, að við höfum ekki haft fjármagn til eins eða neins og orðið að berjast fyrir lífinu, eins og aðrir Sunnlendingar sem í þessum atvinnuvegi starfa.

Ágúst benti á það, að toppar hefðu minnkað. Það er nú ekki alveg að topparnir séu gengnir yfir, því á hverri vertíð fáum við ansi erfiða toppa, a.m.k. hér sunnanlands.

Það er ekki allra álit að tankvæðing sé það sem koma skal. Héðinn kom hér fyrstur með hana. Síðan var settur tankur í Dagrúnu, skuttogara Bolvíkinga. Því miður tókst mjög illa til um notkun hans og þeir áttu í miklum erfiðleikum með að leysa þau vandamál. Hvort þeim hefur tekist það enn þá er mér ekki kunnugt um. (Gripið fram í.) Þeir eiga sem sagt ómögulegt með að ná fiskinum úr tönkunum. Ég veit að Kanadamenn hafa einnig unnið mikið að tilraunum í sambandi við tankvæðingu skipa sinna og fiskvinnslu og hafa átt í miklum erfiðleikum. Það er því ekki einhlítt að þetta sé rétta leiðin, en vafalaust er nauðsynlegt fyrir okkur að fylgjast með því sem þar gerist.

Ég held að við getum vafalaust haft mikil áhrif á aukin gæði fiskaflans með auknum upplýsingum til fólksins sem í þessum atvinnuvegi starfar, bæði sjómanna og fiskvinnslufólks, og með áróðri, bæði meðal þess og annarra. Við verðum að gera okkur grein fyrir því, að við búum í mjög breyttu samfélagi frá því sem áður var, þegar allir uxu upp við það að fara strax — a.m.k. þeir sem voru við sjávarsíðuna — að kynnast sjávarfanginu og meðhöndlun þess frá fyrstu tíð og frá blautu barnsbeini. Nú er hér allt annað samfélag. Unglingarnir vita ekki mun á haus og sporði þegar þeir koma til starfa, því miður. Það er sú breyting orðin á.

Ég held líka að stofnun eins og Fiskvinnsluskólinn gæti unnið þarna þarft starf, t.d. með endurmenntun fiskvinnslufólks, og Framleiðslueftirlit sjávarafurða gæti vafalaust orðið þarna að góðu liði með því að efla það og gera það virkara en það nú er.

Það er full þörf á því að hækka vinnslustig sjávarafurða okkar, en hvað sem í því verður gert útheimtir það fjármagn. Ég held að það sé það fyrsta sem þarf að hyggja að, hvar á að taka það fjármagn og á hvern hátt á að nota það.