16.12.1978
Sameinað þing: 36. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1661 í B-deild Alþingistíðinda. (1185)

54. mál, fjárlög 1979

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Það eru örstuttar aths. við hugmyndir sem komu fram hjá hv. 3. þm. Norðurl. e. áðan. Hv. þm. skýrði frá hugmyndum um sparnað, m.a. með niðurskurði á framlögum til landbúnaðarins.

Ég vil að fram komi að skorið er niður framlag til Stofnlánadeildar og jarðræktar um 10% frá því sem lög gera ráð fyrir, þannig að þarna er þegar um niðurskurð að ræða.

Í öðru lagi vil ég upplýsa að ég er með í undirbúningi frv. til l. um breyt. á ráðstöfun jarðræktarstyrkja sem geti orðið til þess að draga úr framleiðslu fremur en að auka hana og beina styrkjunum meira að aukinni hagkvæmni í heyverkun og þess háttar, sem eykur þá tekjur bænda sem ekki mun af veita við þann samdrátt sem fram undan er.

Þá minntist hv. þm. á þá hugmynd að leggja niður Bifreiðaeftirlit ríkisins. Þetta hefur verið fyrr rætt. Þetta út af fyrir sig mun ekki leiða til neins sparnaðar á fjárl., því að eins og fram kemur í grg. með frv. standa gjöld eins og skráningargjöld bifreiða, skoðanagjöld, prófgjöld og aðrar tekjur að öllu leyti undir rekstri Bifreiðaeftirlits ríkisins. Einnig vil ég vekja athygli á því, að þarna fer fram fleira en bara skoðun bifreiða. T.d. er skráning allra bifreiða mjög veigamikill þáttur sem ekki yrði lagður niður, og sömuleiðis eru bifreiðapróf tekin þarna. Ég held að leiðin í þessu sé sú að gera Bifreiðaeftirlitinu kleift, a.m.k. hér á höfuðborgarsvæðinu, að stunda slíkar skoðanir árið um kring og fá aðstöðu til þess inni. Það mun leiða til sparnaðar. Ég vil geta þess, að sérfræðingar, sem hafa fengið það verkefni að meta hvort yrði ódýrari fyrir bifreiðaeigandann slík skoðun eða skoðun á verkstæðum, hafa komist að þeirri niðurstöðu, að fyrir bifreiðaeigandann yrði skoðun á verkstæði milljónatugum dýrari en ársskoðun hjá Bifreiðaeftirliti hér í Reykjavík. Hins vegar kemur vel til greina að athuga slíkt á landsbyggðinni þar sem ekki er um skoðun að ræða árið um kring. Einnig get ég getið þess að erlendis hefur verið reynt að fara með skoðun inn á verkstæði, en frá því horfið.

Þessar aths. vildi ég láta koma fram.