18.12.1978
Efri deild: 34. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1681 í B-deild Alþingistíðinda. (1196)

95. mál, leiklistarlög

Frsm. minni hl. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég vil fyrst skýra það, að ég skuli skila séráliti. Þetta sérálit mitt þýðir ekki að ég sé andstæð frv., sem fyrir liggur, í sjálfu sér. Hins vegar eru þær brtt., sem ég flyt, svo gagngerar að efni til að rétt þótti að ég skilaði sérstöku nál. þeirra vegna.

Hv. frsm. meiri hl., hv. 3. þm. Austurl., eyddi talsverðum tíma og þó nokkrum rökum að sinni hyggju til þess að mæla gegn a-lið í fyrri brtt. minni. Þessi a-liður fjallar um að leiklistarráð skuli lagt niður. Ég mun fjalla nánar um það atriði er ég hef gert grein fyrir þeirri brtt. sem felst í b-lið, sem nýmæli í þessum lögum, að sérstaklega sé tekið fram í lögunum að stuðningur samkv. leiklistarlögum nái einnig til óperustarfsemi.

Stuðningur samkv. leiklistarlögum á að felast í því, að Alþ. veiti árlega fé til: 1) Leikfélags Reykjavíkur. 2) Leikfélags Akureyrar. 3) Bandalags ísl. leikfélaga. 4) Til almennrar leiklistarstarfsemi. 5) Til leiklistarráðs. Það er ljóst, að óperustarfsemin er vissulega listgrein sem sameinar hinn venjulega þátt leiklistar, sönglistina og danslistina. Viðurkenning á þessu sést m.a. í hinum nýju þjóðleikhúslögum. Þar er sérstaklega tekið fram, að ráðnir skuli leikarar, söngvarar og dansarar að Þjóðleikhúsinu. Þar er einnig tekið fram, að skylt skuli að flytja eina óperu a.m.k., árlega við Þjóðleikhúsið. Því síðastnefnda skilyrði er fullnægt, en enn hefur ekki verið fastráðinn söngvari að Þjóðleikhúsinu.

Nú vita það allir að nám þeirra listamanna okkar, sem stunda söng og hafa gert garðinn frægan víða um heim, er mjög langt og tímafrekt og krefst mikillar elju. Í sönglistinni er mjög ströng samkeppni víða um heim og hafa söngvarar okkar ekki reynst eftirbátar á því sviði. Þeim mun sérkennilegra er það og leiðinlegra að ekki skuli vera meira tillit til þeirra tekið þegar um það er fjallað að styrkja leiklist af almannafé. Nú er það svo, að í haust var stofnað nýtt félag íslenskra söngvara í þeim tilgangi að setja upp og flytja óperur. Þetta fólk hefur unnið af frábærum dugnaði í sjálfboðastarfi að undirbúningi þessa verks og hefur nú fullæfða óperu, eitt af snilldarverkum þeirrar listgreinar, „II Pagliacci“, sem mun tilbúin til flutnings nú innan skamms. Þessi hópur söngvara hefur orðið að taka Háskólabíó á leigu og hafa þar miðnætursýningu til að geta sýnt almenningi þessa list sína. Það mætti spyrja, þegar menn ræða um það af einskærum stuðningi við það sem framleitt er á Íslandi, því í fyrsta sæti skuli í öllum tilfellum vera íslensk leikverk. Það er ágætt að styðja við bakið á íslenskum leikritahöfundum, en ég er hins vegar ekki alveg viss um að það sé alltaf í þágu sjálfrar menningarinnar að taka þau leikrit, sem framleidd eru eða samin af íslenskum höfundum, fram yfir ýmis snilldarverk leikbókmenntanna fyrr og síðar, þ. á m. söngleikina.

Það var fyrir mörgum árum, að hópur íslenskra snilldargóðra söngvara flutti í konsertuppfærslu óperu á sviði Austurbæjarbíós, og þá komu upp þær hugmyndir, að sannarlega væri tilefni til þess að setja á laggirnar vísi að íslenskri óperu og þá ekki endilega í þeim stórkostlega mæli, sem ýmsir hefðu e.t.v. látið sér detta í hug þegar það nafn væri nefnt, ekki með því móti að byggja sérstakt óperuhús og hafa sérstaka óperuhljómsveit o.s.frv. heldur einfaldlega var farið fram á það hér á Alþ. að gefin yrði heimild til þess að fastráða við Þjóðleikhúsið nokkra einsöngvara. Þá hlaut sú till. ekki stuðning. Nú er þetta sem betur fer komið inn í lög, þótt ekki séu framkvæmd enn. Það er fyllilega tímabært að vekja athygli á þessu, vekja menn til skilnings á því, að þarna er hópur listamanna sem á mikið erindi til landsfólksins og við eigum að gera kleift ekki síður en öðrum listamönnum að flytja list sína til aukinnar menningar okkur öllum.

Ég heyri mér til ánægju að hv. 3. þm. Austurl., frsm. meiri hl. n., lýsir stuðningi sínum við þessa brtt. mína. Ég vona að aðrir hv. þdm. taki undir það sjónarmið hans. En hitt þótti mér lakara að heyra, að hv. þm. sagði í sama orðinu að hann óttaðist að þeir í fjvn. mundu ekki verða sérlega örlátir á fé til þessarar starfsemi. Mér fannst eins og gæta örlítillar lítilsvirðingar í þessum orðum hv. þm. En ég vona að það sé ekki rétt til getið hjá mér. Það kemur sem betur fer fyrir að maður misskilur orð hv. þm., og þá er gott ef það er skýrt á hinn betri og jákvæðari veg. Hv. þm. segir nú: Þetta er reynslan. — Það er rétt. Þetta er reynslan og einmitt þess vegna er þessi till. flutt. Ég vona nú að hann ásamt öðrum þm. ljái atfylgi sitt til þess, að þessi reynsla verði á annan veg hér eftir og hér eftir sýni menn skilning og veiti stuðning því stórmerka listastarfi sem einsöngvarar okkar vinna.

Að því er varðar hinn hluta till. minnar, a-liðinn, um að leiklistarráð verði ekki lögbundið, þá talaði hv. talsmaður meiri hl. að því er mér virtist af enn þá meiri sannfæringu en nokkurn tíma um þennan lið, sem á þó að gera menningu okkar fjölbreyttari. Hv. þm. vill sem sagt fyrir engan mun að stofnun, sem kölluð er leiklistarráð og hefur raunar aldrei tekið til starfa enn, sé lögð niður. Mér finnst aftur á móti að nema eigi úr lögum ákvæði um stofnun sem reynsla er komin á að geti ekki starfað og hefur reyndar ekkert sérstakt tilefni til að starfa. Lög okkar eru nógu margorð og löng þó að við séum ekki að binda í lög að stofna eigi einhver félög, sem svo ekki einu sinni sjá tilefni til að koma saman til funda. Til þess að stuðla að því, að þetta lögbundna félag starfi, er sérstaklega bundið í lög að Alþ. veiti til þess fé á fjárl. Hv. þm. sagði: Leiklistarráð á að vera ólaunað. — Þó það væri! En með nokkrum hætti á þó leiklistarráð að vera launað. Til einhvers á að nota það ríkisfé sem gert er ráð fyrir í þessum sömu lögum að það fái. Og ef við rifjum upp hvað stóð í grg. þess frv. til leiklistarlaga sem hv. núv. 2. þm. Austurl. lagði fyrir Alþ. í sinni menntmrh.-tíð, þá er þess m.a. getið, að leiklistarráð skyldi fá greiddan ferðakostnað úr ríkissjóði og ýmsan kostnað við að kynna sér leiklistina í landinu. En mér skilst helst að leiklistarráð eigi að hittast stöku sinnum og spjalla saman um leiklistarmál í landinu og fylgjast svo með framvindu leiklistarinnar víðs vegar um landið, þ.e.a.s. ferðast á milli staða og fara í leikhús. Og ég get ekki að því gert, að mér finnst afar skringilegt að binda það í lögum, að hópur manna, sem ráðinn er til þess að fara í leikhús hér og þar í landinu, eigi að fá kostnað við það greiddan úr ríkissjóði. Og hver er svo tilgangurinn með því? Hann er sá, að þessi hópur manna marki stefnu í leiklistarmálum þjóðarinnar. Mér finnst tilgangurinn sjálfur vera svo gersamlega andstæður öllu frelsi í menningarmálum, að sjálfsagt sé að fella þetta burt úr lögum. Ég hef óljósan grun um það, að ástæðan til þess, að þetta leiklistarráð er komið inn í lög, sé annars vegar sú, að svo margir aðilar hafa átt hlut að undirbúningi frv. á sinni tíð, enginn hafi verið almennilega ánægður og til þess að sýna þeim einhvern sóma hafi verið sett um það ákvæði, að þeir skyldu skipa fína stofnun sem héti leiklistarráð. Þetta er önnur ástæðan að ég held. Hin virðist sú, og jafnvel enn þá greinilegri, að án þessara ákvæða um leiklistarráð hefðu lögin orðið svo stutt og lítilfjörleg að mönnum hefði ekki fundist taka því að kalla þetta sérstakan lagabálk. En allt um það, þá sýnist mér þarna vera um algerlega óþarfa silkihúfu að ræða sem einungis getur haft í för með sér opinberan kostnað og þegar af þeirri ástæðu vera sjálfsagt að nema þetta burt úr lögum.

Hins vegar er aðalatriðið, sem ég raunar tek fram í varatill., að orðin „og stuðla að stefnumótun á því sviði á hverjum tíma“ falli niður úr greininni sem fjallar um hlutverk leiklistarráðs. Þessi orð eru mestur þyrnir í augum. Til þess að þetta sé enn betur ljóst vil ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa þær lagagreinar, sem fjalla um leiklistarráð: Þær hljóða svo, þ.e. fyrst 4. gr. laganna:

„Hlutverk leiklistarráðs er:

I. Að vera vettvangur skoðanaskipta og umræðna um leiklistarmál og stuðla að stefnumótun á því sviði á hverjum tíma.

II. Að vera ráðgefandi aðili fyrir ráðuneytið, sveitarfélög og leiklistarstofnanir þær sem taldar eru upp í 2. gr.

III. Að stuðla að ritun og útgáfu leikrita.

IV. Að sinna öðrum verkefnum í þágu leiklistar í samráði við menntmrn.

Svo kemur greinin um það, hverjir skipi leiklistarráð, þ.e. 5. gr., og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Menntmrn. skipar leiklistarráð, einn fulltrúa án tilnefningar, en aðra ráðsmenn og jafnmarga til vara tilnefna eftirtaldir aðilar:

Bandalag ísl. leikfélaga einn fulltrúa fyrir hvern tug félaga sem eru fullgildir aðilar að bandalaginu.

Félag ísl. leikara þrjá fulltrúa.

Eftirtaldir aðilar tilnefna einn hver: Ríkisútvarp, einn frá hljóðvarpi og annan frá sjónvarpi. Félag leikstjóra. Félag leikritahöfunda. Samtök félagsheimila. Leikfélag Akureyrar. Leikfélag Reykjavíkur. Tónskáldafélag Íslands. Samband ísl. sveitarfélaga. Þjóðleikhúsráð.

Ráðh. er heimilt að veita öðrum, er fjalla með nokkrum hætti um leiklistarmál, aðild að leiklistarráði, að fenginni umsögn ráðsins. Skipunartími ráðsmanna er 3 ár í senn. Ráðið kýs sér sjálft formann og varaformann.“

Þetta var, herra forseti, um það, hvaða aðilar skipa leiklistarráð. Ég held að það sé alveg ljóst, að þarna er um heilt félag að ræða sem ákveðið er í lögum hverjir séu í og engir nýir menn megi koma í nema ráðið sjálft heimili.

6. gr., sem fjallar um leiklistarráð og mig langar til að fá að lesa einnig, fjallar um hvenær það skuli koma saman til starfa. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Leiklistarráð kemur saman til fundar einu sinni á ári, nema sérstök ástæða sé til fleiri funda. Skylt er að boða fund, ef 5 ráðsmenn hið fæsta óska þess bréflega og tilgreina umræðuefni.

Framkvæmdastjórn þriggja manna fer með málefni leiklistarráðs milli funda. Leiklistarráð kýs 2 menn í framkvæmdastjórn, en formaður ráðsins er sjálfkjörinn.

Leiklistarráð er ólaunað, en greiða skal þóknun fyrir stjórnarstörf og ferða- og dvalarkostnað utanbæjarmanna vegna fundarsetu.“

Eins og hæstv. forseti sér, þá er það ekki í raun og veru rétt, sem stendur í sjálfri lagagr., að ráðið sé að öllu leyti ólaunað — eða seinni hluti greinarinnar öllu heldur tekur aftur það sem fyrir hlutinn segir. Hér stendur að ráðið sé ólaunað, en menn geta gert sér í hugarlund kostnaðinn þegar þetta félag manna ferðast á milli og fær ferðakostnaðinn og dvalarkostnaðinn greiddan á milli leiksýninganna, —„utanbæjarmanna“ stendur hér, þ.e.a.s. þeirra sem búa utan Reykjavíkur eða farið er í leikhús við skulum segja á Seyðisfirði eða Eskifirði, svo að nefndir séu staðir í kjördæmi hv. 3. þm. Austurl., þá á að greiða ferða- og dvalarkostnað alls hópsins þangað.

Ég ítreka það, að tilgangurinn með starfi þessa leiklistarráðs er þess eðlis, að það er í raun fráleitt að hafa slíkt bundið í lögum. Nú veit ég að þetta er viðkvæmt mál fyrir hv. 3. þm. Austurl., talsmann meiri hl. menntmn., því að ég hef það fyrir sagt, áð hann eigi sæti í þessu umrædda ráði. Það leiðréttist þá ef það er rangt hjá mér. (Gripið fram í.) Hv. þm. staðfestir, að hann hafi einmitt sjálfur upplýst að hann eigi sæti í þessu ráði, og vill greinilega fyrir hvern mun að það sé lögbundið að ráðið starfi og hann og aðrir ráðsmenn njóti þeirra hlunninda sem í lagaheimildinni felst.

Þó að greinarnar um leiklistarráð hafi ekki enn komið til framkvæmda er samt engin ástæða til að fullyrða að svo verði í framtíðinni og þess vegna verði þetta gersamlega kostnaðarlaust. Of ef það eru rök, að ákvæðin eigi að standa í lögum vegna þess að leiklistarráð hafi ekki starfað, þá eru sömu rök fyrir því að fella ákvæðin gersamlega burt. Það er sama hvar drepið er niður, það ber allt að sama brunni. Ákvæði um lögbundið leiklistarráð, sem séu sett á blað jafnfætis leikfélögunum sjálfum og almennri leiklistarstarfsemi um ríkisstuðning, eru auðvitað fráleit. Og ég ítreka það sem ég segi í grg. fyrir minnihluta nál., að þeim peningum, sem í þetta yrði varið, væri vitanlega miklum mun betur varið til þess að efla þá list sem lögunum er ætlað að styðja, leiklistina í landinu í víðri merkingu. Og þá undirstrika ég að hinn nýi liður, sem ég vona að hér verði samþykktur, um stuðning til óperustarfsemi, njóti a.m.k., jafnmikils örlætis — ef hægt er að tala um örlæti af hálfu fjvn. —og aðrir liðir samkv. þessum lögum.