18.12.1978
Neðri deild: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1702 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

39. mál, kjaramál

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Vegna ummæla síðasta ræðumanns um það, að í tilteknu máli greiði ekki allir þm. Alþfl. atkv. á sama veg, vil ég aðeins lýsa því, að brtt. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, sem hér var til umr., átti verulegan hljómgrunn í þingflokki Alþfl. svo sem eðlilegt er og vera ber. Við eigum aðild að stjórnarsamstarfi og þar þarf að ná samkomulagi. Við höfðum reynt að þrýsta á svo sem mögulegt er og hnika málum til réttrar áttar, og nú milli 2. og 3. umr. hefur komið til sérstakur og ágætur samstarfsvilji hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar, þar sem hann hefur sýnt þessu máli mikinn skilning og því ber auðvitað að fagna. En fjarri fer að það sé eitthvað sérstakt þó að þm. Alþfl., að því er tekur til brtt. af þessu tagi, greiði ekki allir atkv. á sama veg. Auðvitað er hér ekki um neitt sérstakt að ræða. Ég minni á það, að fyrir þessari d. liggur einnig frv. um verðjöfnunargjald, þar sem þingflokkur Sjálfstfl. er ekki einasta klofinn, eins og um fleiri mál, heldur fara fram beiskar deilur og frammíköll héðan úr pontu á milli hv. þm. Pálma Jónssonar og hv. þm. Alberts Guðmundssonar. En við í Alþfl. berum þó ekki sorgir okkar á torg með þessum hætti. Ég minni einnig á það, að því er tekur til afstöðu til vaxtafrv. sem fyrir þessari d. liggur, að þingflokkur Sjálfstfl. er svo rótklofinn að — (Gripið fram í: Vill þm. lýsa því nánar?) Ég hef lýst því hér áður. Það er tiltekið frv. sem við þm. Alþfl. höfum flutt, og kom í ljós að það voru alfarið tvær skoðanir uppi í þingflokki Sjálfstfl. Og í þriðja stað, að því er tekur til hv. þm. Alberts Guðmundssonar virðist þingflokkur Sjálfstfl. vera rótklofinn, 19 á móti honum og 1 með honum, svo að þetta sem Gunnar Thoroddsen er að reyna að gera að einhverju sérmáli Alþfl. er bæði rangt og ósanngjarnt. Hér er um að ræða brtt., sem ekki fjallar um miklar upphæðir, við þetta stóra frv. Það er rétt, að við greiddum ekki öll atkv. eins, en það er hins vegar smámál hjá því sem hjá öðrum flokkum gerist hér í þessu húsi.