18.12.1978
Efri deild: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1758 í B-deild Alþingistíðinda. (1301)

39. mál, kjaramál

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég kemst ekki hjá því að lýsa furðu minni yfir þeim umr. sem hér hafa farið fram í dag. Hvernig er hægt að ræða í þessari hv. d. um mál sem þm. hafa ekki fengið í hendur á hv. Alþ.? Ég skil ekki svona vinnubrögð. Við sitjum í dag í þessari d. til að koma til afgreiðslu þýðingarmiklum málum sem búið er að ákveða og lofa í sambandi við ráðstafanir sem gerðar voru 1. des. s.l. Ég kann ekki að meta svona vinnubrögð. Ég tel mig sitja á Alþ. til að vinna að afgreiðslu mála, og eins og ástatt er nú í þjóðmálum hef ég þá skoðun, að þýðingarmeira sé fyrir okkur þm. að snúa okkur í alvöru að afgreiðslu mála í stað þess að karpa um mál sem ekki eru hér á borðum.

Ég tel svo sjálfsagt mál að ekki þurfi raunar að ræða það hér, að samstarfsflokkar þessarar ríkisstj. móti þá framtíðarstefnu sem þeir hafa tekið að sér að gera og staðfest hefur verið í stjórnarsamningi og í ráðstöfunum 1. des. Ég get ekki komið auga á neina röksemd gegn því, að slík vinna sé hafin og verði mótuð áður en þing kemur saman 1979. Við framsóknarmenn erum þegar með þessi mál í skoðun og við erum tilbúnir í þessa stefnumótun. En ég endurtek, að ég tel að við hv. þm. þurfum að vinna öðruvísi að þessum málum sem við erum með hér á borðunum. Tíminn líður hratt, en öll þessi mál eru á því stigi að þau þurfa afgreiðslu við.

Ég gat ekki stillt mig um að láta þessa aths. koma fram. Karl Steinar Guðnason: Herra forseti. Ég vil taka undir það sem hv. þm. Alexander Stefánsson sagði, að menn ættu að snúa sér í alvöru að því að afgreiða málin. Það er þess vegna sem við Alþfl.-menn höfum lagt fram till. okkar. Við viljum í alvöru taka á efnahagsmálum. Frv. okkar eða drög að frv. eru þáttur í því. Ég og félagar mínir teljum að frestur til þess að taka afstöðu til þessara till., sem ráðh. hafa nú þegar fengið í hendur og allir geta átt aðgang að sem vilja, sá frestur, sem menn hafa fengið, sé nægur. Reyndar eru till. aðeins útfærsla á þeirri grg. er fylgdi því er samþ. var í sambandi við aðgerðirnar 1. des.

Það, að menntmrh. skuli standa upp og setja nokkurs konar úrslitakosti um það, að fjárlög verði afgreidd hvað sem hver segir, skoða ég sem hótun og það verður að meta sem slíkt.