19.12.1978
Efri deild: 38. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1783 í B-deild Alþingistíðinda. (1347)

148. mál, orlof

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Frv. þetta er eitt af nokkuð mörgum frv. sem flutt verða í samræmi við þau fyrirheit sem ríkisstj. gaf launþegasamtökunum um umbætur í félags- og réttindamálum samfara setningu laga um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu, nr. 103 30. nóv. 1978.

Það hefur viljað brenna við, að þegar launþegi ætlar að fara í sumarfrí, þá fær hann ekki útborgað orlofsfé sitt vegna þess að vinnuveitandi hans hefur ekki gert skil á því til Póstgíróstofunnar. Þetta er sem betur fer ekki algengt, en ákaflega hvimleitt og óþægilegt fyrir þá sem í slíku lenda. Með breytingu, sem gerð er á reglugerð um orlof, er algerlega sett undir þennan leka. Nú verður skylt að greiða launþeganum út orlofsfé hans þegar hann hyggst taka sér frí, jafnvel þótt launagreiðandi hafi ekki skilað því til Póstgíróstofunnar.

Auk þessarar reglugerðarbreytingar er svo gerð breyting á lögum um orlof sem nauðsynlegt er að ráðast í samhliða. Þar er Póstgíróstofunni eða öðrum innheimtuaðila orlofsfjár veitt heimild til að krefjast aðgangs að bókhaldsgögnum launagreiðanda, ef slíkt er nauðsynlegt til að staðreyna upplýsingar um greitt eða vangreitt orlofsfé.

Loks eru svo að því er orlofsmálin varðar hafnar viðræður við Póstgíróstofuna annars vegar og Seðlabankann hins vegar um hækkun þeirra vaxta sem greiðast af orlofsfé. Þeir hafa fram að þessu verið aðeins 5%, sem dugir skammt í þeirri verðbólgu sem við höfum búið við. Í þessum viðræðum hefur þegar komið fram, að nettóvextir, þegar búið er að draga frá rekstrarkostnað Póstgíróstofunnar, munu rúmlega tvöfaldast a.m.k. og hugsanlegt að hægt sé að ná þar einhverju meira fram.

Herra forseti. Ég legg til að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og félmn. þessarar hv. deildar.