20.12.1978
Sameinað þing: 39. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1818 í B-deild Alþingistíðinda. (1436)

18. mál, gjald á veiðileyfi útlendinga sem veiða í íslenskum ám

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki vænst þess, að þetta mál kæmi til umr. hér í dag, 20. des. Segir það sína sögu um það ástand sem ríkir í herbúðum stjórnarflokkanna, að mál af þessu tagi skuli gert að aðalumræðuefni dagsins í dag. Ég tel að það væri fremur ástæða til að hraða meir störfum í sambandi við afgreiðslu fjárl. og afgreiðslu þeirra mála, sem hæstv. ríkisstj. hefur í hyggju að koma fram á hinu háa Alþingi áður en það verður sent heim í jólaleyfi, heldur en ræða það mál sem er nú á dagskrá.

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þá ræðu sem hv. 1. flm. þessa máls flutti áðan. Hann komst svo að orði, að hann ætlaði ekki að deila við mig um þetta mál. Ég held að hann hafi sagt að ég hafi flutt óvenjulega skörulega ræðu fyrr í umr. Það sýnir e.t.v., að þær röksemdir, sem ég bar fram í þeirri ræðu, hafi verið með þeim hætti, að hv. 1. flm. á ekki við að fetta mikið fingur út í hana. Nokkur atriði vil ég samt árétta við þessa umr.

Í fyrsta lagi vil ég segja það út af orðum hæstv. landbrh., þar sem hann lýsti því, að hann teldi að gjaldtaka væri eðlileg af veiðileyfum og þá bæði af veiðileyfum til Íslendinga og útlendinga, að um það er ég ekki sammála. Ég tel að ef við viljum auka framlög frá veiðimálunum í heild til opinberra aðgerða í fiskrækt sé eðlilegt að hækka framlög til Fiskræktarsjóðs sem nú eru 2% af skírum tekjum veiðifélaga. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. hafi ekki með þessum orðum verið að gera of lítið úr þeim miklu framlögum sem veiðiréttareigendur sjálfir hafa lagt til þessara mála með félagslegum aðgerðum. Þau framlög eru mikil, eins og ég rakti að nokkru í ræðu minni fyrir nokkrum vikum og skal ekki endurtaka. Afleiðingar af því starfi og enn fremur af aðgerðum opinberra aðila í fiskræktarmálum hafa orðið þær, að laxveiði í landinu hefur margfaldast á liðnum áratugum, eða nær fjórfaldast frá árunum 1946–1950 til áranna kringum 1975. Þetta segir sína sögu um það, að verulega hefur áunnist í þessum þýðingarmiklu málum. Ég skal síst gera of lítið úr því, að þar megi betur gera. Er þá eðlilegt, ef lögð verði meiri gjöld á veiðiréttareigendur og veiðifélögin til þessara mála, að jafnframt komi aukinn opinber stuðningur á móti. Þetta vildi ég láta koma hér fram og vænti þess, að með þessum orðum hafi hæstv. ráðh. ekki verið að gera lítið úr því mikla framlagi sem bændurnir sjálfir, veiðiréttareigendur sjálfir, hafa lagt til þessara mála, sem sannast einnig að hefur tekist allsæmilega vegna þess árangurs sem orðið hefur í veiðimálunum í landinu í heild á nokkrum tíma. Sá árangur hefur skilað arði sem þjóðin í heild nýtur góðs af.

Hv. 1. flm. þessa máls gerði nokkuð að umtalsefni í framsöguræðu sinni og minntist á það aftur hér áðan, að skipting á veiðiarði milli veiðiréttareigenda væri með nokkrum ólíkindum og ákaflega misjöfn, og í framhaldi af því komst hann að þeirri niðurstöðu, að veiðitekjur skiptu í raun engu umtalsverðu máli fyrir bændurna í landinu eða afkomu þeirra. Þetta er auðvitað hinn mesti misskilningur eins og ýmislegt fleira í máli þessa hv. þm. Sá arður, sem af þessu sprettur, hefur að mínu mati veigamikil áhrif á afkomu þeirra manna sem búa við það að eiga hlut í þessum hlunnindum.

Hitt er svo annað mál, að þessum arði er vissulega misskipt, og svo hlýtur alltaf að verða ef menn vilja viðurkenna þau lögmál eignarréttarins, að einn geti átt meira en annar, að mismunandi mikil hlunnindi fylgi t.d. jörð. Þeir, sem ekki vilja viðurkenna að slíkt sjónarmið eigi rétt á sér, tala auðvitað um að það þurfi að má út eignarréttinn eða dreifa honum jafnt til allra þegna þjóðfélagsins. Þarna rekast auðvitað á sjónarmið okkar hv. þm. Árna Gunnarssonar. Ég vil þó segja það, að ég tel að það mætti e.t.v. breyta þeim matsreglum, sem farið hefur verið eftir við arðsskrármat, og leggja landlengd hvers veiðiréttareiganda meðfram laxveiðiá að meira leyti til grundvallar en gert hefur verið. Þetta er þó allt saman matsatriði og hvernig sem með væri farið hlyti alltaf að verða nokkur munur á hlunnindaeign hvers eiganda.

Hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson sagði ýmislegt athyglisvert í ræðu sinni einhvern tíma fyrr í þessum umr. Hann jafnaði eignarrétti á veiði í ám við eignarrétt þeirra jarða, sem liggja að sjó, til sjávarins. Hann sagði að hann ætti ekki við þá eign sjávarjarðar, sem er áskilin í lögum, að hverri jörð, sem liggur að sjó, fylgi belti sem nemur 115 metrum frá stórstraumsfjöruborði. Og hann spurði, hvernig hefði orðið ef bændur, sem ættu land að sjó, hefðu átt svo sem 50–100 mílur á haf út, það væri nokkuð sambærilegt við það að jarðir, sem liggja að veiðiá báðum megin, ættu ána. Þetta vildi hv. þm. nota sem röksemdir fyrir því að afnema þessa eign. Þessi málflutningur er auðvitað mjög svo athyglisverður og að mér sýnist eiginlega hlálegur misskilningur og vanþekking sem í þessu birtist, að jafna því, að menn eigi bakka á einu vatnsfalli einni veiðiá, og eigi ána út til miðs hvor um sig, við það, að landeigandi, sem á land að sjó, ætti 50–100 mílur á haf út eða hálfa leið til Grænlands eða eitthvað þess háttar frá Vestfjörðum. Þetta er auðvitað alveg út í loftið.

Ég sé nú ekki ástæðu til að ég sé að bæta miklu við það sem ég hef sagt um þetta mál fyrr. Ég kom hingað í ræðustólinn aðallega til þess að vekja á því athygli, að mál af þessu tagi skuli vera tekið hér til umr., — mál þar sem vitað er að margir eru á mælendaskrá, — og gert að eins konar aðalmáli dagsins 20. des. Það sýnist mér forkostuleg stjórn á Alþingi af hálfu hæstv. ríkisstj., eins og nú er komið. Það hlýtur að vera eitthvað meira en lítið bogið við það að reyna að komast fram hjá fyrirvörum hv. þm. Alþfl. af hálfu hinna stjórnarflokkanna, ef þarf að grípa til þeirra ráða að eyða tíma Alþingis í að ræða mál eins og þetta, sem allir vita að verður sjálfsagt ekki afgreitt á þessu þingi, að grípa þá þennan dag til að eyða tímanum í að ræða svona mál. Þess vegna vil ég, af því að mér er annt um að komast heim í jólaleyfi, beina því til hæstv. forseta og hæstv. ríkisstj., að þeir reyndu nú að taka þau mál á dagskrá sem máli skipta í sambandi við afgreiðslu fjárlaga og það, hvenær unnt verður að veita jólaleyfi á Alþ., í stað þess að taka fyrir mál af þessu tagi.