24.10.1978
Sameinað þing: 8. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

2. mál, samningar við Norðmenn um réttindi landanna á Íslandshafi

Flm. (Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að þakka bæði hæstv. utanrrh. og eins hv. 9. þm. Reykv., fyrrv. utanrrh., fyrir undirtektir þeirra undir þessi mál. Þær voru, eins og við var að búast, jákvæðar í einu og öllu. Þeir bentu á nokkur atriði sem ég hefði e.t.v. getað komið að í frumræðu, en taldi þó ekki ástæðu til vegna þess að mér fannst, eins og ég sagði, ekki ástæða til að teygja lopann, heldur reyna að koma málinu til utanrmn. þar sem það verður auðvitað mjög ítarlega rætt.

Það er alveg rétt hjá hæstv. utanrrh., að heildarlöggjöf um landhelgina er nauðsynjamál. Hins vegar hefur sú stefna þegar sigrað á alþjóðavettvangi, sem betur fer, að 12 mílur séu landhelgi, að 200 mílur séu efnahagslögsaga. Við þurfum auðvitað að festa þetta í lögum okkar, þó að það sé ekki eins mikilvægt mál og þessi þrjú sem hér er verið að ræða um nú. En ég styð það heits hugar að sett verði slík allsherjarlöggjöf.

Það er rétt hjá hæstv. utanrrh., að við tillögumenn fjölluðum vísvitandi með mismunandi hætti um Jan Mayen og Rockall, vegna þess að þessi mál eru mjög ólíkt vaxin. Ég tel það ekki styrkja okkur neitt, að við lýsum því opinberlega í einstökum atriðum hvers vegna um þessi mál er fjallað sitt með hvorum hætti, vegna þess að það gæti jafnvel orðið til þess að skaða að einhverju leyti málstað okkar. Ég skal þess vegna ekki fara út í að skýra það hér, þótt auðvitað hljóti þær skýringar að koma fram í utanrmn. og við þá sem með þessi mál munu fara.

Hæstv, utanrrh. skýrði réttilega 121. gr. draganna að hafréttarsáttmála og eins 74. gr., eða allan VI, kaflann um landgrunnið, og allt sem hann sagði var ekki eingöngu fróðlegt fyrir marga, heldur rétt með farið og byggt á traustum og góðum upplýsingum. Og þó að ég segði í frumræðu minni, að ég óskaði þess, að menn færu ekki langt út í efnisatriði, þá var sá ótti óþarfur, vegna þess að allir þeir, sem hér hafa talað á eftir mér, hv. 1. þm. Vestf. m.a., sem er flm. og þess vegna óþarfi að ég sé að hæla honum sérstaklega, við flytjum þetta mál saman, hafa flutt ræður með þeim hætti, að þeir hafa varast að segja nokkuð það sem gæti skaðað okkur.

Það er rétt, sem hv. þm. Einar Ágústsson sagði, að umfram allt ber að varast að stofna til deilna. Í þessu máli hljótum við að standa saman. Það er líka rétt, sem hann sagði, að hér er einungis um að ræða beint framhald af því sem allir fulltrúar á hafréttarráðstefnunni hafa verið sammála um. Þar hefur aldrei neitt skyggt á, enda er ekki um annað að ræða en að reyna að hraða þessum málum, fá um þau umræður og koma því til leiðar að nú verði ekki beðið.

Það var mjög ánægjulegt að heyra hæstv. utanrrh. segja, að nú væri unnið af festu, en þó gætni, eins og hann orðaði það, að þessum málum, bæði í utanríkisþjónustu okkar og eins á hafréttarráðstefnu og meðal þeirra fulltrúa sem þar hefur mest mætt á. En þó að gætnin sé góð og sjálfsögð og festan ekki síður, þá verður líka að vera hraði á núna, einkum að því er varðar samninga við Norðmenn. Það tel ég að sé báðum þjóðunum fyrir mjög miklu, Norðmenn ekki síður en okkur, að enginn dráttur verði á því að taka upp samningaviðræður, óformlegar gjarnan fyrst, eins og kannske eru að einhverju leyti komnar í gang, en formlega síðar. Það ættu allir að geta orðið sammála um.

Það er líka rétt, sem hv. þm. Einar Ágústsson sagði, að fyrrv. ríkisstjórnir hafa engum rétti afsalað í landhelgismálinu. Það eru sannarlega orð að sönnu. Það hafa allar ríkisstjórnir varast að afsala réttindum. Við skulum ekki fara að bera neitt slíkt hver á annan. Við skulum standa sameinuð í þessum málum.

Ég vona sem sagt, að þar sem þessi þrjú mál, sem hér eru á dagskrá, hafa verið fléttuð saman — ég hef ekkert við það að athuga — leyfist mér að tala fyrir hinum tveimur hér á eftir örstutt mál, því að það er nánast eingöngu formsatriði: Það getur þá eitthvert annað mál komist að á eftir.