21.12.1978
Neðri deild: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1861 í B-deild Alþingistíðinda. (1497)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta það að hafa tekið þannig á þessum málum, að þessar umr. fari fram með eðlilegum hætti, og stofna ekki til óþarfaleiðinda í þd. Ég skal jafnframt verða við þeim tilmælum hæstv. forseta að stytta mál mitt, því að ég skil vel, að nú er mjög knappur tími til afgreiðslu mála. En ég endurtek það sem ég sagði áðan, að mér fannst alger óþarfi hjá utanrrh. að fara af stað með slíka tilkynningu sem þessa til þess að efna hér til umr. Og það er ekki óeðlilegt að stjórnarandstaðan, sem hefur sýnt einstaka þolinmæði og samstarfsvilja við ríkisstj. um að standa ekki í vegi fyrir afgreiðslu mála, sé orðin þreytt á því verklagi sem verið hefur hér undanfarnar vikur.

Hæstv. forsrh. sagði að alþm. hefðu farið úr jafnvægi við þessa tilkynningu utanrrh. Það er hreinn misskilningur hjá hæstv. forsrh., að nokkur þm. hafi farið úr jafnvægi þó að Benedikt Gröndal hafi lesið hér upp tilkynningu frá flokksstjórnarfundi Alþfl. Hins vegar er þolinmæði þm., stjórnarandstæðinga sem stjórnarsinna, á þrotum út af þeim vinnubrögðum sem hér hafa átt sér stað.

Ég held að þetta sé 17. þingið sem ég sit, og mér hefur alltaf fallið vel að sitja á Alþ. og liðið vel. En mér hafa fundist þessir haustdagar leiðinlegir í alla staði og þetta alleiðinlegasta þing sem ég hef setið, það sem af er, það á kannske eftir að batna eitthvað. Ríkisstj. er nú við völd, sem er ósamstæð — eða réttara sagt stjórnarflokkarnir — eins og raun ber vitni. Þegar flokkar semja um samstarf í ríkisstj. leggja þeir yfirleitt til hliðar önnur ágreiningsefni og vinna saman á meðan á því samstarfi stendur. Þetta er farið að fara í skapið á flestum þm. og í skapið á þjóðinni í heild.

Mér finnst furðulegt að koma hér fram með samþykkt um að einn stjórnarflokkurinn geti kröfu til niðurskurðar á útgjöldum og framkvæmdum umfram aðra flokka og hann vilji láta líta svo á, að hann sé svona fullur ábyrgðar og sá eini sem vill ganga til þess að skera niður útgjöldin. Þetta væri allt gott og blessað ef sá flokkur, sem þetta segir, eða talsmenn hans væru sjálfum sér samkvæmir. En ef við lítum yfir þskj. og sjáum málin sem þm. þessa flokks hafa lagt fram upp á ný milljarðaútgjöld, þá er ekki hægt að segja að sé um niðurskurðarmenn að ræða eða aðhaldsmenn eða aðhaldsflokk. Það hefur gengið svo langt, að ráðh. í ríkisstj. hafa staðið upp við umr. um stærstu útgjaldatillögur og lýst yfir fullum stuðningi við aukin útgjöld úr ríkissjóði. Ætlast þessi flokkur til þess, að nokkur Íslendingur trúi honum? Það er ekki hægt að flytja annan daginn frv. sem menn halda að séu vinsæl, kitli ákveðinn hóp manna, en standa svo upp hinn daginn og berja sér á brjóst og segja: Nú verðum við að spara, nú verðum við að skera niður. — Þetta er orðið að skrípi, þessi vinnubrögð.

Á sama tíma standa þessir flokkar að því að leggja svo óhæfilega skatta á atvinnurekstur og einstaklinga í þjóðfélaginu að aldrei hefur setið við völd á Íslandi önnur eins skattpíningarstjórn og ríkisstj., sem nú situr. Ég er ekki einn eða við sjálfstæðismenn um þá skoðun. Fólk í öllum flokkum, sem styðja núv. ríkisstj., viðurkennir að þetta sé sannkölluð skattpíningarstjórn.

Arkitekt kosningasigurs Alþfl., sem hér á sæti á Alþ., hefur miklast af sigri sínum. En ég held að þessi arkitektúr hafi aðeins verið í áróðursskyni fyrir þennan flokk hans, en þegar kemur til kasta að fara að stjórna og bera ábyrgð, þá eru öll loforð, sem þjóðinni voru gefin fyrir kosningar, svikin. Er hægt að hugsa sér aumlegri frammistöðu sigurvegara eða eins stjórnmálaflokks en að segja fólkinu í landinu: Við berjumst gegn beinum sköttum, við berjumst fyrir því að afnema tekjuskatt á allar almennar launatekjur, — en standa svo að því að íþyngja fólki, stórhækka tekjuskattinn á almennar launatekjur samkv. því frv. sem liggur fyrir? Þeir byrjuðu um leið og þeir voru orðnir aðilar að stjórnarsamstarfi á afturvirkni skatta, sem er siðlaus skattaaðferð. Svo ætla þessir menn að halda því fram, að þeir séu menn sem fólk eigi og geti trúað. Þetta eru menn sem ættu ekkert annað skilið en að fá svo eftirminnilega rassskellingu hjá þjóðinni, að það ætti enginn þeirra möguleika á því að eiga sæti á Alþ. eftir svona sviksemi gagnvart kjósendum sínum. Og Alþb., drottinn minn dýri, það er nú varla eiginlega hægt að nefna þann flokk. Hér kemur 1. þm. Austurl., hann hefur löngum talað tungum tveim. Hann vill tryggja fulla atvinnu í landinu á sama tíma og hann vinnur orðið mestallan sólarhringinn að því að koma hér í gegn skattafrv. sem eiga að lama atvinnurekstur í landinu og drepa velflest fyrirtæki. Það verður helst tryggð atvinna með þeim hætti!

Þessi ríkisstj. ætlaði að hafa samvinnu og samstarf við aðila vinnumarkaðarins. Hvernig hefur það tekist? Það hefur aldrei verið talað við annan aðilann, en talað við einstaka menn sem hafa verið með flokksskírteini í Alþb., eins og Gvend jaka, sem er búinn að fara nokkrar kollsteypur síðan þessi ríkisstj. var mynduð og er þó margur betri í laginu til þess að fara kollsteypur en hann.

Alþb. ætlar að tryggja kaupmátt launa. Hann verður sennilega best tryggður með því, að atvinnufyrirtækin og þjónustufyrirtækin í þessu landi segi fólki upp störfum, vegna þess að þau eru lömuð af skattpíningarstefnu ríkisstj. Þá verður fyrst hægt að tryggja atvinnu í landinu og kaupmátt launa. Nei, þessir herrar töluðu töluvert öðruvísi fyrir kosningar.

Hvað með niðurgreiðslur á vöruverði? Það kemur engin skýring á því. Á að draga úr þeim aftur? Það voru auknar niðurgreiðslur fyrir 1. des. Það átti samkv. fjárlagafrv. að draga úr þeim aftur í byrjun næsta árs. Hvað verður nú? Hvað kemur nú upp hjá stjórnarliðinu? Það er eitt í dag og annað á morgun.

Ég lofaði hæstv. forseta því að vera stuttorður og ég skal því ljúka máli mínu. En út af því, sem hv. 1. þm. Austurl. sagði, að það væri hrollur í stjórnarandstöðunni, ætla ég að segja honum að það er hrollur í íslensku þjóðinni. Það er hrollur í henni og það mikill hrollur að hafa jafnauma og vesæla ríkisstj. við völd í landinu og nú situr, — stjórn sem enginn getur treyst, hvar sem hann er í flokki.