21.12.1978
Efri deild: 47. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1917 í B-deild Alþingistíðinda. (1602)

138. mál, skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði

Frsm. meiri hl. (Jón Helgason):

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. 5. þm. Norðurl. v. sagði áðan, að við höfum skamman tíma til umráða og því ekki hægt að fara út í miklar rökræður um þessi mál nú. Ég vil þó aðeins, vegna þess að hér er á ferðinni annað frv. til tekjuöflunar, leyfa mér að leiðrétta það hjá honum, að það þurfi endilega að vera, þegar verið er að reyna að berjast gegn verðbólgunni, að hver taki frá öðrum. Ég held að þetta sýni miklu frekar það, hvernig allir geta grætt á því að reyna að halda verðbólgunni niðri. Hygg ég að þar séum við hv. 5. þm. Norðurl. v. algerlega sammála, að það, sem allir eða flestir muni græða á, sé að reyna að draga úr verðbólgunni.

Hins vegar er það óneitanlegt, að sumir hafa grætt á verðbólgunni í þjóðfélagi okkar og þegar hún verður varanleg, þá læra ýmsir að græða á henni. Sérstaklega eru það þó þeir sem fá lán til þess að leggja í miklar framkvæmdir sem verðbólgan greiðir síðan niður fyrir þá. Það er m.a. af þeim ástæðum að farið hefur verið inn á þá leið að flytja frv, til l. um sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði sem hér er til umr. og fjh.- og viðskn. hefur fjallað um.

Meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþ. óbreytt. Vegna þess, sem stendur í 1. gr. frv., vil ég sérstaklega taka það fram, að til mun vera í lögum að bankar séu undanþegnir skattskyldu, en ætlast er til að þessi lög taki slíka skattskyldu af.

Meiri hl. n. leggur sem sagt til að frv. sé samþ. óbreytt, en minni hl. skilar séráliti.