21.12.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1946 í B-deild Alþingistíðinda. (1631)

54. mál, fjárlög 1979

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þær umr. sem hér hafa átt sér stað um að fjármagna námsstyrki, en ég tel sjálfsagt að hæstv. menntmrh. standi nú við öll þau stóru orð sem hann lét falla um þessi mál áður en kann kom í ríkisstj.

Ég vil einnig í upphafi máls míns taka undir með hv. 11. þm. Reykv. um nauðsyn á mannvirkjagerð við Gullfoss. Svo mikil ræfilsþjóð getum við ekki verið, að við höfum ekki efni á að byggja smáhýsi fyrir ferðamenn við þá perlu sem við erum hvað stoltastir af í okkar landslagi og auglýsum með glansmyndum um heim allan til að draga hingað ferðafólk. En það á kannske eftir að koma í ljós.

En ástæðan til þess, að ég stend hér upp nú, er brtt. á þskj. 279 við frv. til fjárl. fyrir árið 1979, flutt af 9 þm. Alþfl. Þegar ég sá þessa brtt. kom mér í hug: Hvað er nú þetta? Hvað er að ske? Hæstv. utanrrh., formaður Alþfl., gaf þá yfirlýsingu snemma dags í dag, að tekist hefði samkomulag milli stjórnmálaflokka þeirra, sem standa að hæstv. ríkisstj., um vinnubrögð við afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1979 og það eftir strangan næturfund þingflokks Alþfl. og flokksstjórnar Alþfl. Hæstv. utanrrh. flutti hv. Alþ. þessi gleðitíðindi af miklu stolti og satt að segja rétt eins og hann hefði unnið sigur í heimsstyrjöld. Við þm. stjórnarandstöðunnar fögnuðum með formanni Alþfl., en töldum þó að þessi gleðitíðindi hans ættu tæplega erindi inn á hv. Alþ. nema til þess að tefja fyrir afgreiðslu þeirra dagskrármála sem voru til umr. En tíðindi voru það samt, að hæstv. ríkisstj. hefði loksins tryggt sér stuðning allra þeirra þm. sem mynduðu núv. hæstv. ríkisstj. Reyndar tilkynnti hæstv. utanrrh. að samstarfssamningur Alþfl. við hina stjórnarflokkana næði aðeins yfir stutt tímabil, eða til 1. febr. 1979, ég held að það séu um það bil 39 dagar. En nú eru lagðar fram brtt. frá þm. Alþfl. Ég spyr — sjálfan mig kannske upphátt frekar en hv. þm.: Hvers konar ölæði er þetta í Alþfl., og hvers konar þrekvirki er hann að vinna? Hann fer í 39 daga bindindi og tekur það út á minna en 24 tímum. Alveg furðulegur flokkur!

Ég ætla ekki að fara hér yfir þá liði sem koma fram á brtt. á þskj. 279. Þeir ganga upp, þar er ýmist dregið úr eða bætt við. En það er eitt sem vekur athygli, og það er að þeir hafa þó haft þann fyrirvara á, að ef svo færi að þessi till. þvingaði ekki fram einhvers konar yfirlýsingu frá hæstv. forsrh., þá tryggja þeir þó fylgi með fjárl. með því að skilja 5 þm, af 14 eftir, þ.e.a.s. 3 ráðh., og einnig vantar hér nöfn hv. þm. Braga Sigurjónssonar og hv. formanns þingflokks Alþfl., Sighvats Björgvinssonar. Það eru sem sagt 5 af 14 þm. sem flytja ekki þessa brtt., og það nægir til þess að hafa 31 þm. eða nauman meiri hl. með fjárl. á hv. Alþingi. (Gripið fram í: Þetta er sniðugt.) Þetta er sniðugt, en hvers konar leikaraskapur á sér stað? Ég verð að segja alveg eins og er, að ég lít svo á að með því að tryggja framgang fjárl. með naumum meiri hl. séu þeir að reyna að gefa 9 af 14 þm. svigrúm til að dansa innan þeirrar stefnu sem þeir hafa kynnt opinberlega, þó ekki lagt fram á Alþ., sem þeir kalla efnahagsstefnu Alþfl.

Ég hafði satt að segja búist við því, að Alþfl. mundi standa við yfirlýsingar formanns síns frá því snemma dags í dag, en svo virðist ekki ætla að verða. Og ég harma það, því að ég er þó það mikill sportmaður í mér, að mér finnst það satt að segja ódrengilegt eftir þá yfirlýsingu og eftir þær fréttir sem bárust hingað inn í sali Alþ. eftir næturfund Alþfl. s.l. nótt, þá finnst mér það ódrengilegt af þessum 9 flm. þessarar brtt. að hlaupa svona út undan sér og skilja formann sinn eftir óábyrgan í tali. Það getur verið ástæðan fyrir því, að hæstv, utanrrh. er ekki hér staddur í kvöld við 3. umr. fjárl.

Ég vil samt sem áður leyfa mér að beina þeirri ósk til flm. þessar brtt., að þeir dragi till. sína til baka, því að af mörgu einkennilegu, sem komið hefur fram í vinnubrögðum alþm. Alþfl. á þessu þingi, þá held ég að þessi tillöguflutningur þeirra geri menn almennt orðlausa. Svo furðuleg sýndarmennska skin í gegnum þennan tillöguflutning, og á ég þá við það sem ég er búinn að geta um, að skilja eftir 5 menn til þess að tryggja að fjárlagafrv. fari nú í gegn, 9 frjálsir. (Gripið fram í: Jólasveinar einn og átta.) Jólasveinar einn og átta, sagði einhver, ekki ætla ég að mótmæla því, en það eru ekki mín orð.

Ég lít svo á að þessi tillöguflutningur hafi borið árangur. Hann hefur borið þann árangur, að hæstv. forsrh., sem eins og ég held allir aðrir þm. hefur tekið þingflokk Alþfl. og formann Alþfl., hæstv. utanrrh., alvarlega í morgun þegar hann gaf út yfirlýsingu fyrir hönd flokksins, — hæstv. forsrh. hefur áreiðanlega brugðið þegar hann sá þessa till. sem hlýtur að hafa verið eins og rýtingsstunga í bak hans. Hann flýtir sér upp í ræðustól, — auðsjáanlega þreyttur, því að hann kom líklega hingað eingöngu til þess að koma augnablik upp í ræðustól og fara síðan heim og hvíla sig, því að hann hefur ekki sést hér síðan, — til þess að lýsa yfir að hann muni láta kanna rækilega í janúarmánuði till. Alþfl.-manna og till. annarra, þá á hann líklega við till. sem kynnu að koma fram frá okkar stjórnarandstæðingum. Ég held að þessi orð hæstv. forsrh. hafi verið töluð til þess að benda flm. á að hann óskaði eftir því, að þessar brtt. yrðu dregnar til baka.

Hæstv. forsrh. sagði líka, að eftir áramótin yrðu gerðar till. til að finna varanlega lausn á verðbólguvandanum og það fyrir 1. febr. Það er nýja úrslitadagsetningin sem Alþfl. hefur sett, 1. febr. Hæstv. forsrh. finnur sig knúinn til þess strax eftir hátíðar að vita hvort hægt sé að halda þessari ríkisstj. saman næstu tvö árin, því að það er, eins og hann sagði, til þess að reyna að finna út einhverja stefnu sem gæti dugað þessari hæstv. ríkisstj. í tvö ár. Enginn efast um heilindi hæstv. forsrh. þegar hann talar þessi orð. Vilji hans er eflaust góður vilji. En það er alveg augljóst, að hann er þvingaður til þess að segja meira en hann kannske vildi segja á þessu augnabliki vegna vinnubragða þm. Alþfl. nú með þessari till. og eins og þeir hafa verið hingað til.

Ég veit ekki hvaða orð ég mundi láta út úr mér fara yfir þessi vinnubrögð ef ég væri ekki staddur á hv. Alþ. á þessu augnabliki. Ég ætla að leyfa hv. alþm. að giska á það. En mikið ósköp hlýtur það að vera erfitt fyrir hæstv. forsrh. að leiða þessa ríkisstj. (Gripið fram í.) Já, það er alveg rétt. En ég held mig innan þess ramma sem ég setti mér sjálfur.

Ég hefði gaman af því að vita, og ég bið hv. þm. um að taka eftir því, hvort þessi yfirlýsing, sem hæstv. forsrh. hefur nú orðið að gefa, verður til þess að flm. þessarar till. finni sig hafa náð þeim árangri sem þeir ætluðu sér með tillöguflutningnum, og dragi nú till. til baka. Eða getur verið að ég með þessum orðum mínum komi í veg fyrir það og þeir komist þá í vanda, viti ekkert hvað þeir eigi að gera við krógann? En þeir eru búnir að tryggja sér það, að 5 Alþfl.-þm. eru eftir réttu megin.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. En mér finnst ég skilja mjög vel hvers vegna hæstv. utanrrh. kemur hingað í sali Alþingis eins sjaldan og hann kemst af með. Það er eingöngu vegna þess að hann er formaður Alþfl.