30.01.1979
Sameinað þing: 45. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2200 í B-deild Alþingistíðinda. (1789)

Umræður utan dagskrár

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Hv. 7. þm. Reykv., Vilmundur Gylfason, kvað svo á, að Alþ. væri ekki hafið yfir grun eða alþm. ekki hafnir fyrir þann grun að misfara með framtal skatts. Það kann að vera, en ég vil á móti spyrja, hvernig á því kunni að standa, og rifja það þá upp, að hér um árið, þegar rannsóknarblaðamenn gengu í skrokk á alþm. um launakjör þeirra og önnur kjör og framtöl til skatts, — það fór ekki fram hjá mér, — beindist sú rannsóknarblaðamennska einnig að því að læða þeim grun inn hjá þjóðinni að ekki væri allt með felldu.

Ég vísa því alveg á bug, að það hafi þurft einhverjar tengur til að draga svör frá mér í sambandi við launakjör og önnur hlunnindi eða greiðslur til þm. þá um árið. Að sjálfsögðu þurfti þfkn. að fjalla um slíkar beiðnir, og ég varð að fara að venjulegum leikreglum og fundareglum um það efni. Einnig vildi ég forvitnast um, hvernig málum væri háttað hjá öðrum stéttum. M.a. fékk ég upplýsingar um launakjör hjá Ríkisútvarpi, hljóðvarpi og sjónvarpi, og Tryggingastofnun ríkisins, þar sem þeir þekkja sig nú um bekki heldur betur hv. Alþfl.-menn, og hafði hjá mér þá launalista alla, án þess að mér dytti í hug að nota þá neitt. En rannsóknarblaðamennirnir sáu hvaða upplýsingar ég sat uppi með þannig að þeir voru öllu varfærnari í ágengni sinni eftir en áður, en ekki kom til greina að fara að upplýsa neitt af því, þótt þeir krefðust þess, og ættu auðvitað rétt á því, að allt kæmi til skila, sem varðaði alþm., og þeir kæmu til dyranna eins og þeir væru klæddir.

Ég hef engan úrskurð eða dóm kveðið upp í þessu máli. Guðmundur Skaftason, formaður ríkisskattanefndar, og skattanefndin sjálf hafa kveðið upp úrskurði og hann staðfesti þetta, formaðurinn, á fundi með forsetum Alþingis í morgun og hafði með sér úrskurði sem ríkisskattanefnd hafði kveðið upp. Hann vitnaði í skattalögin, og ég veit ekki hvaða úrskurði má treysta, ef ekki úrskurði í þessu efni frá ríkisskattanefndinni, því að hún er æðsti dómstóll að þessu leyti.

Ég vil þess vegna leggja áherslu á það, að álit mitt í þessum efnum skiptir sáralitlu máli, en hans og ríkisskattanefndar öllu. Nú vænti ég þess, að þm. geti sætt sig við þessa málsmeðferð, sem forsetar hafa nú ákveðið, að láta skila til ríkisskattstjóra upplýsingum og skýrslu um greiðslur til þm., bæði launagreiðslur og síðan endurgreiðslur sem þeir fá vegna starfa sinna. Ef ekki, þá skulu þeir, sem á því hafa áhuga, beita sér fyrir því, að skattalögunum verði breytt að því leyti sem þessi mál varðar og að við reynum að ná einhverju skynsamlegu samkomulagi um það, með hvaða hætti sú breyting á sér stað — auðvitað öll í þeim tilgangi, að við vinnum bug á þeim illa grun sem menn álíta að læðist um í þjóðfélaginu, að þm. gæti ekki fyllsta heiðarleika í framtali til skatts. Það hlýtur að liggja hið mesta við, að Alþ. vinni bug á slíkum grunsemdum og eyði þeim.