30.01.1979
Sameinað þing: 45. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2222 í B-deild Alþingistíðinda. (1811)

31. mál, Suðurnesjaáætlun

Flm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Þáltill. sú um alhliða atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum, sem hér er tekin til umr., fjallar að dómi okkar flm. um mikilvægt mál, afkomumöguleika fólks og framtíð byggðar á fjölmennu landssvæði þar sem býr fleira fólk en í sumum heilum kjördæmum landsins. Þessi þáltill. er nú tekin til umr. á fámennum fundi að kvöldi dags. Ég hefði vissulega kosið að fleiri hefðu getað hlýtt á mál mitt og þó alveg sérstaklega að hæstv. sjútvrh. hefði getað verið viðstaddur umr. um þetta mikilvæga mál. Ég tel, enda þótt svo sé ekki, að ekki sé ástæða til að geyma það öllu lengur að mæla fyrir þessari till. og mun því gera það hér í ekki ýkjalöngu máli. Enda þótt þetta mál hafi margar hliðar og um það megi vissulega fjölyrða, þá sé ég ekki ástæðu til að gera það nú. Till. samhljóða þessari var flutt á síðasta Alþ. og þá fylgdi ég henni úr hlaði með ítarlegri ræðu sem ég mun ekki endurtaka hér í kvöld. Þessari þáltill. fylgir einnig nokkuð rækileg grg. og vísa ég til hennar um ýmis þau atriði sem hér verður annað tveggja sleppt eða aðeins vikið að í stuttu máli.

Það er alkunnugt, að á allra síðustu árum hefur aðalatvinnuvegur Suðurnesjamanna, sjávarútvegur og fiskiðnaður, átt við margvíslega erfiðleika að stríða og í meiri vök að verjast en hliðstæður atvinnurekstur víðast hvar annars staðar á landinu. Ástæðurnar fyrir þessu eru ýmsar, eins og nokkuð er vikið að í grg. till., en þó er ein langmikilvægust og alvarlegust. Það er stórminnkuð fiskgengd og þar af leiðandi stórminnkaður afli á fiskislóðum Suðurnesjamanna sem löngum hafa treyst mjög á vélbátaflota sinn til hráefnisöflunar, þ. á m. hafa þeir treyst á allmikinn fjölda tiltölulega lítilla landróðrabáta.

Það þarf ekki að fara um það mörgum orðum, hversu lamandi áhrif langvinnir rekstrarörðugleikar fiskvinnslufyrirtækja í útgerðarbæjum hafa á allt umhverfið, á bæjarfélagið og bæjarlífið í heild sinni, enda er nú svo komið að margur atvinnurekstur tengdur sjávarútvegi þar syðra hefur verið og er ekki síður illa settur en fiskiðnaðurinn og útgerðin, og má segja að hluti af þeim atvinnurekstri sé nálega á heljarþröm. Þá er og ljóst að afkomu sveitarfélaga er stefnt í bráðan voða, þar sem slíkt kreppuástand varir til langframa eins og verið hefur og er því miður enn á Suðurnesjum.

Enda þótt við tillögugerð þessa sé höfð hliðsjón af tímabundnum erfiðleikum útgerðar og fiskvinnslu á Suðurnesjum, þá er þó megintilgangur hennar að benda á nauðsyn samræmdra og markvissra aðgerða og skipulagningar með fjölþætta uppbyggingu atvinnulífs á þessu svæði í huga. Við flm. viljum leggja á það mjög ríka áherslu, að sérhver bráðabirgðalausn þeirra rekstrarvandamála, sem þarna er um að ræða, mun reynast næsta haldlítil ef hún er ekki miðuð við að verða fyrsti áfangi heildaráætlunar með framtíðina í huga. Hér er vissulega þörf á skjótum aðgerðum, eins og ég veit að hæstv, núv. ríkisstj. hefur verið og er ljóst. En því aðeins koma jafnvel skyndiaðgerðir að einhverju teljandi gagni og einhverju varanlegu gagni, að þær stuðli að bættu skipulegi og aukinni hagræðingu, auk þess sem meiri og jafnari hráefnisöflun en nú á sér stað verður hér að koma til.

Vissulega ber að fagna fyrstu skrefum sem ég hygg að þegar hafi verið stigin í þá átt að undirbúa aðgerðir til að rétta við útgerð og fiskvinnslu á umræddu svæði. Sérstakur starfshópur hefur unnið að því að gera úttekt á ástandi sjávarútvegs og fiskvinnslufyrirtækja á Suðurnesjum, kanna fjárhagslega stöðu þeirra, aðstöðu til hráefnisöflunar, tæknilegan búnað og möguleika á framtíðarrekstri. Þetta er að sjálfsögðu nauðsynlegt. Mér er ekki fullkunnugt um hversu langt þessu starfi er komið, en á það legg ég áherslu, að þetta starf og hugsanlegur árangur af því dregur á engan hátt að mínum dómi úr þörfinni á samþykkt þeirrar till. sem ég er hér að mæla fyrir. Í því máli, sem við, ég og hv. þm. Geir Gunnarsson, hreyfum hér, er á allt annan og langtum umfangsmeiri hátt og víðtækari ákveðið að taka á þessu máli þar sem það snertir ekki aðeins uppbyggingu sjávarútvegs og fiskiðnaðar, heldur leggjum við einnig áherslu á nauðsyn þess, að fram fari könnun á miklu fjölþættari atvinnuuppbyggingu þarna suður frá, svo sem iðnaðar af ýmsu tagi.

Margt þarf til að koma ef treysta á afkomu fólks á Suðurnesjum til langrar frambúðar. Þess vegna bendum við flm. í grg. okkar með þessari þáltill. á ýmsar leiðir til að ná settu marki. Þó eru það aðeins ábendingar og margt fleira getur vissulega komið til álita þegar farið yrði að kanna þetta mál í heild sinni. En markmiðið hlýtur að vera að á þessu svæði geti dafnað fjölbreytt og þróttmikið atvinnulíf, þar sem, eins og ég sagði áðan, býr mikill fjöldi fólks sem nú stríðir við óvenjumikið öryggisleysi í atvinnumálum.

Við áætlunargerð af því tagi, sem hér er lagt til að framkvæmd verði, verður að taka mið af þeim sérstöku aðstæðum sem eru þarna syðra og vonandi reynast tímabundnar, en ekki varanlegt ástand. Þar á ég við dvöl erlends hers og margvíslega beina og óbeina vinnu íslenskra manna í tengslum við herinn. Fáir munu þeir sem telja sig vilja hafa hér erlendan her um aldur og ævi og raunar ekki margir sem telja að hann eigi að vera hér til langframa. Flestir láta í veðri vaka a.m.k., að þeir telji að hérinn eigi að fara þegar slíkt sé óhætt að þeirra dómi. Þess vegna ætti að geta orðið samstaða um það, hvaða skoðanir sem menn hafa á nauðsyn þessarar hersetu nú um sinn, að gera þurfi ráð fyrir öðrum atvinnurekstri í stað hervinnunnar sem í framtíðinni gæti tryggt öllu verkfæru fólki á Suðurnesjum örugga atvinnu.

Ég efast um að allir hafi enn gert sér fulla grein fyrir því, hve mjög þeim Suðurnesjamönnum hefur fjölgað á allra síðustu árum, sem hafa atvinnu ýmist á Keflavíkurflugvelli eða í tengslum við dvöl hersins á vellinum. En það er hvort tveggja, eins og raunar hefur verið alloft skýrt frá, að hinu íslenska starfsliði hefur á síðustu fjórum árum fjölgað í heild, en einnig hefur Suðurnesjamönnum fjölgað hlutfallslega. Nú mun svo, að um eða yfir 2 þús. Íslendingar hafa atvinnu hjá hernum eða vegna dvalar hersins í landinu. Um 70% þessara Íslendinga, sem vinna ýmist beint eða óbeint á vegum hersins eða stofnana sem eru í tengslum við dvöl hans að einhverju eða öllu leyti, eru búsettir á Suðurnesjum. Hinir munu flestir eða allir vera héðan af Reykjavíkursvæðinu.

Við flm. þessarar till. teljum einsætt að þegar gera skal áætlun um atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum, sem á að vera til einhverrar frambúðar og alhliða, þá verði að reikna með því, að hinu annarlega ástandi, sem erlend herstöð í landinu óneitanlega er, ljúki og fjölþættur innlendur atvinnurekstur komi í stað vinnunnar hjá hernum og í kringum herinn.

Herra forseti. Ég sagði í upphafi að ég mundi ekki að þessu sinni hafa mörg orð um þessa þáltill., enda þótt ég telji hana ekkert smámál, heldur fjalla um mikilvægt málefni. Ég vil leggja áherslu á þetta: Enda þótt ástand sjávarútvegs og fiskvinnslu á Suðurnesjum sé mjög alvarlegt um þessar mundir, svo alvarlegt að grípa verður til bráðabirgðaúrræða ef koma á í veg fyrir hrun og atvinnuleysi þarna syðra, þá þurfa jafnvel hinar fyrstu stuðningsaðgerðir að vera byrjunarspor, ef svo má segja, í átt að framtíðarlausn þess atvinnumálavanda sem þarna er um að ræða og brýn nauðsyn er að leysa. Alhliða atvinnuuppbygging fjölþætts atvinnurekstrar á Suðurnesjum gerist að sjálfsögðu ekki á mjög skömmum tíma, en mikilvægt er að hafist sé handa um þennan undirbúning og byrjunarframkvæmdir og það gert með þeim hætti, að það verði fyrsti áfangi að því marki að tryggja öllum íbúum á Suðurnesjum örugga atvinnu við heilbrigðan, íslenskan atvinnurekstur.

Ég legg svo til, herra forseti, að þessari umr. verði frestað og till. vísað til atvmn.