31.01.1979
Neðri deild: 47. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2232 í B-deild Alþingistíðinda. (1820)

159. mál, réttur verkafólks til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Vegna ummæla 5. landsk. þm. vil ég taka fram, að það voru 8% sem voru felld niður með þessu móti, 3% var talið að mætt væri með hinum svokallaða „félagsmálapakka“ og 5% á annan hátt. Af atvinnurekendum var létt 8% af þeim launum sem þeir áttu samkv. þeirra eigin samningum að greiða, við megum ekki gleyma því. Þetta er ekki fyrst og fremst gert vegna þess að það sé álitið að atvinnureksturinn hafi ekki getað borið þessi 14%, heldur er þetta fyrst og fremst og svo til eingöngu liður í baráttunni við verðbólguna.

Um samráð er það að segja, að það hafa verið haldnir svokallaðir formlegir samráðsfundir, milli 20 og 30, eftir því sem fjmrh. sagði í gær á einum slíkum. Ég hef ekki átt sæti nema upp á síðkastið á þessum samráðsfundum — ég hef verið varamaður hæstv. sjútvrh. — þannig að ég hef ekki fylgst með þessu alveg frá degi til dags. Hitt er rétt, að samráð hafa aðallega verið höfð við fulltrúa Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, en minna við atvinnurekendur, það verður að viðurkenna. Þó átti ég fund með atvinnurekendum um,þetta mál sérstaklega og þau mál önnur sem í hinum svokallaða „félagamálapakka“ voru, þannig að við þá hafa verið höfð samráð.

Um það, hvort forsrh. hafi svarað þessu bréfi, veit ég ekki. Það hefur ekki verið rætt í ríkisstj. Ljósrit af bréfinu var afhent ráðh., en það hefur ekki verið tekið til afgreiðslu þar.

Um samráð að öðru leyti við fulltrúa vinnuveitenda vil ég upplýsa það, að þeir sögðu sig formlega úr öllum samráðsnefndum, þannig að dálítið erfitt hefur verið að hafa við þá samráð. En auðvitað er ríkisstj. tilbúin að hafa slík samráð við þá áfram eða taka þau upp ef þeim sýnist svo. Einmitt nú þessa dagana hafa þessi samráð verið mjög til umræðu og ákveðið hefur verið að auka þau mjög verulega, þó þannig að ráðh. séu ekki endilega bundnir á öllum fundum, því að þeir hafa bókstaflega ekki tíma til þess, heldur vinni fulltrúar þeirra jafnhliða í tæknilegum málum ýmiss konar, þó að ráðh. séu alltaf tilbúnir að koma til þegar á þarf að halda.