06.02.1979
Sameinað þing: 47. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2335 í B-deild Alþingistíðinda. (1881)

333. mál, störf nefndar til að kanna framleiðslu- og þjónustustarfssemi hins opinbera

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Svar mitt gaf varla tilefni til þess að ræða ítarlega efnisatriði þessara skýrslna sem ekki hafa verið birtar nema sumar hverjar, og ég hafði ekki hugsað mér að ræða þær í einstökum atriðum nema að mjög takmörkuðu leyti. Það kemur fram í skipunarbréfi n. sem samdi skýrslurnar, að í því felst í raun og veru ákveðin stefnumörkun, heldur ákveðnar spurningar sem n. er beðin að svara, þ.e.a.s. hvort ýmissi framleiðslu- og þjónustustarfsemi, sem hið opinbera hefur með höndum, sé betur fyrir komið hjá einstaklingum eða samtökum þeirra og jafnframt hvort aðild ríkisins að atvinnustarfsemi í landinu í samkeppni við einstaklinga sé æskileg.

Það hefur ekki verið fjallað sérstaklega um skýrslurnar af núv. ríkisstj. Ég vil ekki fullyrða hvort fjallað var um þær skýrslur í fyrrv. ríkisstj., ég hygg þó ekki, sem lagðar voru fyrir hana eða — sendar henni. En það hefur ekki verið fjallað um þessar skýrslur enn þá í núv. ríkisstj. Réttur gangur er að mínu mati sá, að svo verði gert og að sjálfsögðu í einstökum rn. sem hafa með höndum stjórn þeirra fyrirtækja sem um ræðir. Sérstök ástæða er og til þess, að fjallað verði um þessi málefni í fjárlaga- og hagsýslustofnuninni.

Ég vil ekki tjá mig um skoðanir mínar á þessu máli að svo komnu. Það eru skiptar skoðanir t.d. í núv. hæstv. ríkisstj. um þessi málefni, hvað rétt sé að gera í þessum efnum. Ég held að það sé álitamál hvað rétt sé að gera. Eins og komið hefur þegar fram voru nm. sammála um niðurstöður nema varðandi Slippstöðina á Akureyri. Um það fyrirtæki var n. klofin. Varðandi það fyrirtæki sérstaklega álít ég alls ekki skynsamlegt að breyta þeirri skipan sem þar er á. Ég álit það alls ekki skynsamlegt. Ég skal ekki spá um hvort það verður skynsamlegt einhvern tíma síðar meir, en alls ekki eins og sakir standa. Þá skoðun vil ég láta í ljós. En síðan er allt annað mál með ýmis önnur fyrirtæki.

Hv. fyrirspyrjandi minntist t.d. á Skipaútgerð ríkisins. Skipaútgerð ríkisins er þjónustufyrirtæki sem er ekkert einsdæmi hér á Íslandi. Það eru skipaútgerðir ríkisins í mörgum löndum eins og við þekkjum, t.d. í Noregi, svo ég nefni dæmi, og mörgum fleiri. Hér er um að ræða nauðsynlega þjónustustarfsemi við íbúana í landinu sem er þess eðlis, að það er ákaflega erfitt og sjálfsagt ómögulegt að reka slíka starfsemi þannig að hún beri sig fjárhagslega miðað við þær kröfur sem óhjákvæmilega verður að gera til slíkrar þjónustu. Ég tel að slík fyrirtæki séu í sérflokki. Það kæmi miklu meira til álita og er miklu meira álitaefni, hvað af öðrum fyrirtækjum skuli reka í opinberum rekstri eða ekki.

Ég er ekki mikill þjóðnýtingarmaður og hef aldrei verið og hef þess vegna ekki neinn sérstakan áhuga á að auka þjóðnýtingu í landinu, tel hana vera talsverða þegar og ekki ástæðu til að auka hana. Og ég vil gjarnan að lokum endurtaka það sem ég sagði áðan, að það væri frekar ástæða til þess að draga úr umsvifum báknsins heldur en að auka á það.