06.02.1979
Sameinað þing: 48. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2355 í B-deild Alþingistíðinda. (1888)

165. mál, fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga

Utanrrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Norðurl. v. endaði ræðu sína á því að varpa fram þeirri spurningu, að e.t.v. sé hugmyndin að eiga ekkert við þetta. Það er ekki að ástæðulausu að hann spyr. Fjárveiting til utanrrn. til þátttöku í erlendum ráðstefnum var skorin niður um nákvæmlega þá upphæð sem fjmrn. vissi að þátttakan í Hafréttarráðstefnunni mundi kosta. Ekki var dregin nein dul á að þetta væri eins konar hefndarráðstöfun fyrir það, að yfirmanni einnar deildar þótti sendinefndin vera „heilt fótboltalið“ í fyrra. Þetta verður auðvitað ekki látið hindra að héðan fari sú sendinefnd sem þörf er á, en það verður að gerast með því að draga úr einhverju öðru sem óþarfara er í rn.

Önnur spurning af sama tagi er varðandi rannsóknirnar. Við erum öll sammála um að samþykkja till. sjálfstæðismanna um að auka rannsóknir á landgrunninu. Það var gerð tilraun til þess af hálfu ríkisstj. í vinnuflóðinu fyrir jólin að fá 20 millj. kr. samþykktar í fjárlög í þessu skyni, en það tókst ekki. Það var fyrirætlun ríkisstj. að nota þetta fé til að setja upp deild hjá Orkustofnun sem fjallaði um þessi mál. Þeir sérfræðingar, sem þar þekkja best til, höfðu, að því er mér er tjáð, augastað á ungum sérfræðingi sem er langt kominn með nám og mundi falla vel inn í þetta sérhæfða starf.

Ég skal ekki eltast við stóryrði hv. þm. varðandi það, hvað gerist í ríkisstj. og hvað ekki. (EKJ: Hver var með stóryrði?) Ég skal skýra honum frá því, að ég sendi ríkisstj. ítarlega skýrslu samda af sérfræðingum um Jan Mayen-málið 7. nóv. í fyrrahaust. Eins og hann veit fóru fram miklar umr. um það mál í utanrmn.

Í sambandi við þetta mál og kannske Færeyjasamningana er það að renna upp fyrir mér, að það er sennilega reginmisskilningur að nokkuð sé hægt að byggja á þn., jafnvel þó að um þær séu svo sérstök ákvæði sem eru um utanrmn. Það stendur um hana í þingsköpum, sem er ekki um neina aðra n., að hún skuli vera til ráðuneytis ríkisstj. í utanríkismálum og starfa sem slík allt árið. Þar eð landhelgisnefndin er ekki lengur til, — ég skal ekki segja nema það ætti að athuga hvort rétt væri að vekja hana upp aftur, — þá er ekki hægt að ræða við þingið á betri eða réttari hátt en við utanrmn. og í utanrmn. Það hef ég reynt að gera í báðum þessum málum. Þetta hefur verið rætt þar á mörgum fundum, og ég tel að sá andi og þær skoðanir, sem ég hef mætt þar, þó að málið sé ekki afgreitt með beinum atkvgr., sé í beinu sambandi við það sem ég hef gert í þessum málum. Staðfesti hv. formaður utanrmn. það áðan hvað annað málið snertir.

Varðandi afstöðu til Jan Mayen krafðist hv. þm. afdráttarlausra yfirlýsinga um hver afstaðan væri hjá núv. ríkisstj. Ég gaf að vísu um þetta yfirlýsingu í Ed. í gær. Morgunblaðið prentar hana orðrétt og gerir því mjög góð skil. (Gripið fram í.) Ríkisstj. hefur vitað um þetta mál og fékk um það skýrslu í nóvembermánuði s.l. (Gripið fram í. — Forseti: Ekki samtal á fundinum.) Ég verð sýnilega að biðja hv. þm. afsökunar á því, að ég skuli ekki leggja fundargerðarbækur ríkisstj. hér fram, því að hann virðist telja það vera sitt mál, eins og hann gerði í ræðunni í gær, að ákveða hver dagskrá ríkisstjórnarfunda skuli vera hverju sinni. Hann getur þá talað við forsrh. um það. (Gripið fram í: Starfar ráðh. þá í tengslum við ríkisstj. núna?) Já, ég geri það.

Ég var að nefna það, þegar gripið var fram í, að ég lýsti yfir í gær að fulltrúar Íslands hefðu aldrei látið í ljós neins konar viðurkenningu á rétti Jan Mayen eða Norðmanna varðandi Jan Mayen til fiskveiðilögsögu. Við höfum kannske teflt á tæpasta vað þegar við ákváðum 1975 að taka upp miðlínu og framfylgja ekki landhelginni þar fyrir utan. Hv. 1. þm. Austurl. mótmælti því, ef ég man rétt, og taldi að það jaðraði við viðurkenningu á rétti Jan Mayen til að fá eigin efnahagslögsögu. Ég vona að ég muni þetta rétt. En skrefið, sem þáv. ríkisstj. var að stiga með reglugerðinni, var svo stórt að menn létu þetta niður falla, enda er þetta lítið atriði í samanburði við hitt sem við vorum að gera. Þar að auki sagði þáv. sjútvrh., hv. þm. Matthías Bjarnason, að með þessari undanþágu, „gráa svæðinu“, afsöluðum við okkur engum rétti. Það má segja að hann hafi sett fyrir þann leka, en engu að síður er þetta staðreynd. Þess vegna segi ég að ég veit ekki til þess, að nokkur fulltrúi Íslands eða íslenskra stjórnvalda, og þá alls ekki núv. ríkisstj., hafi veitt neina viðurkenningu á norskum rétti við Jan Mayen. Við áskiljum okkar allan rétt varðandi þetta svæði.

Fyrir 4–5 árum má segja að á Hafréttarráðstefnunni hafi ríkt gamla hugmyndin um að þar sem eru minna en 400 mílur á milli landa skyldi yfirleitt gilda miðlína. Okkur þótti alveg sjálfsagt að miðlína gilti á milli Færeyja og Íslands og Grænlands og Íslands. Ég dreg ekki í efa að það sé farsælasta lausnin þar. En það hefur orðið á þessu mikil breyting. Í þeim textum, sem nú er unnið með á Hafréttarráðstefnunni, eru sanngirnissjónarmið komin fram fyrir, þau eru talin fyrst og þar á eftir nefnd miðlína ef við á. Ég gerði þetta að umtalsefni greinilega í margumræddu viðtali við norska sjónvarpið, sem fór ekki fram úti í Noregi, heldur hér í Reykjavik, og ég lagði þar áherslu á að þegar reynt væri að líta á sanngirnissjónarmið varðandi Ísland og Jan Mayen yrðu menn að gera sér grein fyrir því, að hér á Íslandi býr heil þjóð sem lifir á fiskveiðum, en á Jan Mayen býr enginn maður sem lifir á auðlindum lands og sjávar. Þetta er auðvitað okkar höfuðtromp þegar að viðræðum um þetta kemur. Ég get sem sagt ítrekað það að ósk hv. þm. og með mikilli ánægju, að það er stefna ríkisstj., eins og ég tel að hafi verið stefna fyrrv. ríkisstj., að við áskiljum okkur allan rétt. Við viðurkennum ekki neinn rétt annarra fyrir hönd Jan Mayen og við munum eftir bestu getu halda á hagsmunum Íslands, byggja þar á sanngirniskröfu og áskilja okkur til framtíðar allan rétt á þessu svæði. Þetta er afdráttarlaust.

Vegna þess að svo illa fór við afgreiðslu fjárl., að af einhverjum ástæðum fengust ekki þessar 20 millj. til aukinna rannsókna á landgrunninu eða sérstaklega á brúnum landgrunnsins, sem skipta máli í sambandi við umfjöllun Hafréttarráðstefnunnar, höfum við rætt um í ríkisstj. hvort við gætum útvegað utan fjárl. fé til að bæta úr þessu. Því máli er ekki alveg lokið, en ég ætla að vona að það gangi fram. Eins og ég sagði fyrr í máli mínu er hugmyndin sú, að það verði deild í Orkustofnun sem fær formlega með þetta að gera til framtíðar, þó að starfið nú í fyrstu hljóti að lúta að þeim upplýsingum sem við þurfum að fá í sambandi við afstöðu á Hafréttarráðstefnu til tillagna um takmörk landgrunnsins og skiptingu þess milli strandríkja.

Hv. þm. sagðist hafa aflað sér nýrra upplýsinga. Það er, að því er ég best veit, hárrétt. En ég hef grun um að hann hafi einmitt fengið þessar upplýsingar hjá íslenskum yfirvöldum, hjá Orkustofnun, hjá sérfræðingi þeim sem hann nafngreindi og er manna best að sér í þessum málum þó að hann hafi mikið að gera við ýmislegt annað líka. Það er því helst til djúpt í árinni tekið þegar sagt er að ríkisstj. hafi ekkert í þessum málum gert.

Þetta var um eina till. sjálfstæðismanna frá upphafi þings, þá sem greiðlegast og með minnstum umr. var samþykkt af öllum og lagt til að Alþ. samþykkti. En þingið sjálft fylgdi því miður ekki eftir anda hennar með afgreiðslu fjárl. Ég verð að benda á að hinar tvær till., um Jan Mayen og Rockallsvæðið, voru ekki samþykktar af Alþ. Utanrmn. lagði til að þeim yrði vísað til ríkisstj. Það er reginmunur á þessu tvennu. Alþ. vísar till. annaðhvort til ríkisstj., vísar henni frá, ef það vill ekki taka ákvörðun sjálft. Þegar till. er vísað til ríkisstj. er það ekki fyrirskipun um að ríkisstj. beri að gera nákvæmlega það sem í till. stendur. (Gripið fram í.) Þetta eru þingsköp sem ég hélt satt að segja að menn gerðu sér ljós. Hitt er allt annað mál, eins og mér fannst vera tónninn hjá hv. formanni utanrmn., að auðvitað er tekið tillit til slíkra till: og þær hafa verið til athugunar. Það eina, sem á milli ber varðandi till. og framkvæmd varðandi Jan Mayen, er að ekki hefur verið komið á formlegum viðræðum milli landanna, enda er það mat mitt að norsk yfirvöld mundu ekki fást til slíkra formlegra viðræðna.

Þegar núv. ríkisstj. tók við í fyrrahaust var allmikill áróður í gangi í Vestur- og Norður-Noregi fyrir því, að þá þegar yrði fært út við Jan Mayen, og loðnuveiðin setti þetta að sjálfsögðu af stað. Ég taldi því að hagsmunum okkar væri best þjónað með því að fá sem allra fyrst að vita hvort þetta væri svo, hvort það væri ætlun norsku stjórnarinnar að færa út á næstunni við Jan Mayen eða ekki. Með þessu er ekki verið að tala um hvort þeir hafi réttinn eða ekki. Ef þeir trúa að þeir hafi réttinn getur vel verið að þeir færi út, hvernig sem svo eftirleikurinn yrði. Ég er sammála hv. þm. að brugðið gæti til beggja vona. Í öðru lagi: ef þeir hefðu einhver slík áform fannst mér að við þyrftum að tryggja að þeir gerðu ekkert án þess að hafa ítarleg samráð við okkur Íslendinga. Það, sem ég komst að raun um mjög fljótlega, var að norska stjórnin hefði engar fyrirætlanir um að færa út í náinni framtíð. Þetta fékk ég að vita hjá þeim s.l. haust. Nú hefur Norsk fiskarlag gert nýja atlögu að norsku stjórninni. S.l. fimmtudag fór fram fundur þar sem forsrh., utanrrh. og fiskimálaráðh. hittu fulltrúa frá Norsk fiskarlag, fulltrúar sjómanna og útvegsmanna ítrekuðu kröfur sínar um að fært yrði út í 200 mílur kringum Jan Mayen sem allra fyrst. Ég hef haft þær fréttir eftir þennan fund, að norsku ráðh. hafi hlustað á þessar kröfur, en engu lofað. Og opinber ummæli norska utanrrh. eftir þennan fund eru á þá lund, að útfærslan við Jan Mayen verði að bíða.

Ég skal ekki fara lengra út í hvað þessari afstöðu veldur. Þetta er norskt innanríkismál sem við reynum auðvitað að fylgjast með og höfum áhuga á. En um hitt fékk ég tvímælalaus loforð, að hvenær sem að því kæmi mundu Norðmenn, eða a.m.k. núverandi valdhafar, — ég veit ekki hvort þeir geta talað fyrir fleiri en sjálfa sig, — ekki gera neitt án þess að hafa ítarleg samráð við okkur. Betur tel ég ekki, eins og aðstaðan hefur verið í vetur, hægt að treysta hagsmuni Íslands í þessum efnum. Það er þá aðeins eftir að meta hvað eru viðræður. Þetta hafa óhjákvæmilega verið óformlegar viðræður, en árangurinn er sá sami og ég tel að við þurfum að fá fram á þessu stigi málsins. Þó að boðað hefði verið til formlegrar ráðstefnu um þetta á milli Norðmanna og Íslendinga og sest að samningaborði með auglýsingum, myndatökum, fréttum og öðru slíku, þá er ég sannfærður um að ekki hefði annað og meira komið út úr því á þessu stigi.

Ég sé því ekki að ástæða sé til að halda uppi hörðum deilum. Ef menn líta á þetta mál með nokkru raunsæi og með jafnaðargeði, þá sjá þeir að það, sem hlýtur að hafa vakað fyrir tillögumönnum, að varðveita og vernda hagsmuni Íslands sem allra best, hefur raunverulega verið gert á þann hátt sem best var mögulegt við þær aðstæður sem ríkt hafa. Um þetta er ég sannfærður.

Við þetta bætist það, sem hæstv. sjútvrh. nefndi í ræðu sinni og ég hafði raunar minnst lauslega á áður, að búið er að ákveða samráð fiskifræðinga sérstaklega um loðnustofninn og Íslendingar, fulltrúar sjútvrn., höfðu frumkvæði um það. Hinn fyrsti af þessum fundum verður í Reykjavík 26. og 27. mars. Ég vil því gera mér vonir um að það sé gersamlega óþarft að þykjast ekki skilja hver afstaðan sé í þessu máli og að ekki sé nokkur grundvöllur fyrir því að halda uppi efasemdum hvað það snertir. (Gripið fram í: Er samkomulag í ríkisstj. um þessi vinnubrögð?) Það hefur ekki komið fram nein gagnrýni á þau þar. Ríkisstj. er sammála um þetta.

Hér hefur annað mál, Jan Mayen-málið og landgrunnsmálið, blandast inn í það sem er til umr., sem er fiskveiðisamningar við Færeyinga. Ég hef ekki ástæðu til þess að segja ýkjamargt í tilefni af þeim umr. sem farið hafa fram í dag um fiskveiðisamningana. Ég verð þó að mótmæla mjög harðlega þeirri árás sem hv. þm. Garðar Sigurðsson gerði á sjútvrh. og hvernig hann talaði um störf hans. Ég held að það sé afar hæpinn mælikvarði að meta ráðh. eftir því, hvað hrúgan af frv., sem þeir leggja fram, er mikil. Sjávarútvegsmál, sem eru stærstu mál þjóðarinnar að mörgu leyti og varða afkomu hennar, eru lagalega í föstum farvegi, þó að ýmsar breytingar verði þar á og geti orðið. Miklu meira skiptir hvernig framkvæmdin er frá degi til dags. Ég get fullvissað hv. þm. um það, að sjávarútvegsmálin hafa verið með þeim tveim, þrem málaflokkum sem mestan tíma hafa tekið við umr. í ríkisstj. og margvíslegar afgreiðslur þar. Ég tel árás hans á sjútvrh. vera algerlega ástæðulausa.

Ég veit ekki hvort ég á að nefna gagnrýni manna út af meðferð þessa samningamáls frekar, það er búið að segja nokkuð mikið um það. Enn kemur fram í dag, að það hefði fyrst átt að bera málið undir Alþ. og síðan átt að semja. Ég tel að það sé nákvæmlega það sem gert var. Ef maður ætlar að hefja samninga, þá er ekki hægt að halda um þá opinberar umr. svo að hinn aðilinn geti vitað allt fyrir fram. Þess vegna eru n. eins og utanrmn. til, og þess vegna eru t.d. ákvæði í þingsköpum um trúnaðarskyldu, til þess að hægt sé að ræða fyrir fram hvernig við eigum að haga málum okkar í þessum eða hinum samningum. Það er stjórnarskráratriði að framkvæmdavaldið geri samninga, og vissa tegund af samningum verður að leggja fyrir Alþ. á eftir, eins og gert er núna. Ég tel að þetta sé nákvæmlega eftir bókstaf stjórnarskrár og þingskapa. (GSig: Er þetta eingöngu utanríkismál?) Eins og ég hef margsagt er sérstakt ákvæði um utanrmn. og henni er ætlað töluvert annað hlutverk en venjulegum þn. Hv. þm. hristir höfuðið, en ég vona að hann fletti þessu upp í þingsköpum og athugi það þar.

Annars vil ég þakka þeim sem hafa lýst stuðningi við þessa samninga, ekki síst hv. þm. Einari Ágústssyni fyrir þá afstöðu sem hann lét í ljós og ég er, eins og við má búast, fullkomlega sammála.