07.02.1979
Efri deild: 54. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2424 í B-deild Alþingistíðinda. (1908)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa andstöðu minni við þetta frv. Mér hefur aldrei geðjast að þessu gjaldi og tel að nú,. þegar er mikil verðbólga og skattþján með eindæmum, sé ekki á bætandi og þess vegna óskynsamlegt að fara þessa leið. Engu að síður geri ég ráð fyrir að þetta frv. kunni að verða samþ. Þess vegna hreyfi ég hér máli, sem ég bið hv. n., sem málið fær til umfjöllunar, að athuga, en það er erindi Siglufjarðarkaupstaðar. Ég leyfi mér að lesa upp bréf frá rafveitustjóra Rafveitu Siglufjarðar til iðnrh. Það er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Í bæjarstjórn Siglufjarðar var gerð eftirfarandi samþykkt hinn 11. jan. s.l.:

Bæjarstjórn Siglufjarðar samþykkir að krefjast þess, að sanngjarn og réttmætur hluti verðjöfnunargjalds verði greiddur Rafveitu Siglufjarðar. Kröfur sínar byggir bæjarstjórn á því, að Rafveita Siglufjarðar hefur nýlokið við viðbótarvirkjun Neðri-Skeiðsfoss og því þungar greiðslubyrðar vegna afborgana og vaxta, gengistryggðra lána og vísitölubundins láns fyrstu árin. Verði ekki fallist á þessa kröfu bæjarstjórnar sér bæjarstjórn Siglufjarðar engar frambærilegar forsendur til að krefja Rafveitu Siglufjarðar um verðjöfnunargjald með tilliti til fjárhagsstöðu Rafveitunnar.

Samþykkt var að fela rafveitustjóra og rafveitunefnd að vinna að framgangi þessarar samþykktar við stjórnvöld.

Um leið og ég kem þessari samþykkt bæjarstjórnar á framfæri við yður leyfi ég mér að benda á að nú er tækifærið að breyta lögunum um verðjöfnunargjald, sem liggja óafgreidd fyrir Ed. Alþingis. Hugmynd okkar er að opna heimild fyrir Orkusjóð til að veita öðrum en RARIK og Orkubúi Vestfjarða styrk af verðjöfnunargjaldi. Til þess að svo mætti verða þarf síðari málsgr. 1. gr. laganna t.d. að orðast svo:

Verðjöfnunargjaldinu skal varið til að bæta fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins, Orkubús Vestfjarða og annarra rafveitna, sem við sambærilegan fjárhags- og orkuöflunarvanda eiga að etja, samkv. ákvörðun ráðh. orkumála hverju sinni. Sá hluti verðjöfnunargjaldsins, sem sameiginlega kemur í hlut RARIK og Orkubúsins, skiptist milli þeirra þannig að RARIK fái 80%, en Orkubúið 20%.

Til rökstuðnings þessu máli bendum við á allar fyrri samþykktir bæjarstjórnar og grg. rafveitunefndar og rafveitustjóra, sem yður hafa verið sendar.

Virðingarfyllst.

Rafveita Siglufjarðar.

Sverrir Sveinsson.“

Eins og orðalag það, sem hér er stungið upp á að verði á greininni, ber með sér, yrði varla um aðra að ræða en Siglufjarðarkaupstað, auk RARIK og Orkubús Vestfjarða, sem slíkan styrk fengju, því að það er talað um sambærilegan fjárhags- og orkuöflunarvanda, en svo háttar til á Siglufirði að Rafveita Siglufjarðar á bæði virkjanir og flutningslínur og selur m.a. rafmagn inn á kerfi Rafmagnsveitna ríkisins. Það er því fullkomið sanngirnismál, að Rafveita Siglufjarðar sitji við sama borð og Orkubú Vestfjarða.

Þarna er ekki farið fram á neinar stórar fjárhæðir, þetta er og aðeins heimild til handa orkumálaráðh., og mundu væntanlega örfáar prósentur gjaldsins renna til Siglufjarðar áður en skipting færi fram á milli RARIK og Orkubús Vestfjarða. Ég held að hér sé um fullkomið sanngirnismál að ræða sem ekki verði fram hjá gengið nema óréttur eigi að ríkja, því að þarna er um alveg sérstakar aðstæður að ræða, enda lagt til að orðalagið verði eins og ég áður gat, að það sé um sambærilegan vanda að ræða við þann sem t.d. Orkubú Vestfjarða á við að etja.

Ég vona að hv. n. taki þetta mál til vinsamlegrar athugunar, en mun annars flytja um það sérstaka brtt. við 2. umr. ef til þess þarf að koma, sem ég vona að ekki verði því að n. muni sýna sanngirni í þessu efni.