26.10.1978
Sameinað þing: 9. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í B-deild Alþingistíðinda. (193)

12. mál, efling þjónustu- og úrvinnsluiðnaðar í sveitum

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 12 hef ég ásamt 4 öðrum þm. Alþb. leyft mér að flytja svo hljóðandi till.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir sérstökum stuðningi opinberra aðila við stofnun þjónustu- og úrvinnsluiðnaðar í sveitum.

Byggðadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins skal falið að rannsaka möguleika smáiðnaðar í sveitahreppum, safna hugmyndum um hugsanlegar framleiðslugreinar, kanna viðhorf og áhuga heimamanna víðsvegar um land og gera áætlun um framkvæmdir. Við undirbúning þessa máls ber einnig að taka mið af þeirri allsherjarathugun og tillögugerð varðandi atvinnumöguleika aldraðra, sem samþykkt hefur verið á Alþingi.

Jafnframt skal lánadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins falið að veita heimaaðilum aðstoð við stofnun fyrirtækja, sem komið er á fót samkv. þessari áætlun, og skipuleggja fjármagnsöflun til framkvæmda. Sérstaklega ber að kanna möguleika á stofnun framleiðslusamvinnufélaga í sveitum og skal því rekstrarformi veittur sérstakur stuðningur. Stuðla ber að því, að veitt verði óafturkræf framlög úr Byggðasjóði eða ríkissjóði til stuðnings smáiðnaði í sveitum allt að 15% stofnkostnaðar.

Þegar ár er liðið frá samþykkt þessarar till. skal ríkisstj. gefa Alþ. skýrslu um framkvæmd hennar.“

Í ræðu í fyrra, en till. þessi er endurflutt, rakti ég ítarlega ástæður til flutnings þessarar till. Ég fór nokkrum orðum um vandamál sveitanna yfirleitt, um vanda ungs fólks þar, um vanda aldraðra þar einnig, og ég ræddi um þessa till. í beinu samhengi við það, að einnig í sveitum ætti að koma til aukin fjölbreytni þannig að þar væri ekki einvörðungu stuðst við hina hefðbundnu búskaparhætti.

Ég ræddi þar um ýmis þau mál sem hæst bar hjá sveitafólki þá, —vandamál sem á baki þess brunnu og ég skal ekki fara nánar út í nú. Ég sagði þá að vissulega væri hér ekki um eitt af þeim málum að ræða sem heitast brynnu á bændum, en engu að síður væri till. til komin vegna bréfaskrifta ýmissa þeirra til mín einhvers konar tillögu af þessu lagi.

Meginefni þess, sem ég sagði í fyrra, kemur fram í grg. Ég vil aðeins tæpa þar á helstu atriðum, en vísa annars til framsöguræðu í fyrra um tillöguna.

Ég held að till. beri þess merki, að flm. gera sér ljóst að hér skal að engu rasað um ráð fram, hér á að fara fram vandleg athugun, könnun og samráð við heimaaðila og fyrst og fremst farið eftir óskum heimamanna, en ekki eingöngu óskum þeirra, heldur einnig góðum rökstuðningi þeirra fyrir þörf og möguleikum þeirra á að standa að málinu eins og hagstæðast og best er.

Hér er annars vegar talað um þjónustuiðnað og hins vegar úrvinnsluiðnað. Á það er bent í grg., að úrvinnsluiðnaður í sveit á Íslandi mun aðeins vera á tveim stöðum, að ég hygg, þ.e.a.s. í Víðidal norður og á Barðaströnd. Þar munu vera saumastofur. Ég veit ekki um annan úrvinnsluiðnað í sveitum, nema þann sem snertir grasköggla- og heymjölsframleiðslu og verksmiðjur þar til heyrandi. Hitt kann að vera, að hér sé um fleiri staði að ræða, og væri betur að svo væri. En hér er einnig um mikilvægan þjónustuþátt að ræða, og á það er bent í grg., að hin mikla vélanotkun í sveitum almennt kalli á nærtæka og trygga þjónustu á annatímum. Það er að vísu rétt, hana er víða að finna, þó að hún hafi í engu verið styrkt svo sem skyldi og enn mjög ófullkomin og hvergi nærri slík sem hún þyrfti að vera.

Varðandi úrvinnsluna aftur, þá bendum við flm. á að íslenska ullin og gærurnar eru að verða sífellt stærri og verðmeiri þáttur í þjóðarframleiðslu og atvinnuþróun okkar yfirleitt, og það er vel. En eins og kemur fram í þessari grg., þykir mörgu sveitafólki, sem um þessi mál hugsar og um vanda sveitanna og vanda landbúnaðarins almennt, sem sveitafólið sjálft taki mjög lítinn og óvirkan þátt í úrvinnslu þessarar dýrmætu vöru. Og að því beinist þessi till. að finna leiðir að því, að sveitafólkið sjálft gæti þar í auknum mæli komið inn í vinnsluna með einhverjum hætti, jafnvel svo — það er ekki sett að skilyrði vitanlega — að þeir, sem þar byggju, gætu jafnvel haft það að aðalatvinnu, en áfram auðvitað búsetu í sinni sveit.

Ég veit ekki annað en þær tvær saumastofur, sem ég minntist á áðan og reknar eru í sveit, hafi í engu gefið verri raun en þær sem reknar eru á þéttbýlisstöðum. Hitt er svo annað mál, að þessar stofur yfirleitt búa við þröngan kost og ýmsa erfiðleika. En það er ekki sérkenni fyrir þessar tvær, það er mjög atmennt að þessar stofur séu reknar sumar með beinu tapi og aðrar berjist mjög í bökkum.

Við gerum till. um það, að reynt sé að stuðla að því, að óafturkræf framlög verði veitt allt að 15% stofnkostnaðar, hvort sem um er að ræða framlög úr Byggðasjóði eða ríkissjóði. Hér er í raun miðað við það, að Framkvæmdastofnun ríkisins sé hinn rétti frumkvæðisaðili í málinu og veiti virka aðstoð við allar aðgerðir, enda má segja að samkv. lögum stofnunarinnar eigi hún að gegna þessu hlutverki beinlínis. Það er hins vegar ekki skilyrði frá okkar hálfu, síður en svo, varðandi þessa till., að hér verði skilyrðislaust um óafturkræf framlög að ræða. Það er nú svo einmitt varðandi það, sem snertir okkar landbúnað eða okkar sveitir, að mönnum þykir víst mörgum hverjum nóg af óafturkræfum framlögum til þeirra hluta. En hjálp með einhverjum hætti, þó að ekki væri um óafturkræf framlög að ræða, kæmi vissulega einnig til greina.

Við minnumst á framleiðslusamvinnufélögin, sem nú hafa hlotið lagastoð, sem æskilega aðila til að standa fyrir framkvæmdum af því lagi sem þessi till. lýtur að og þættu heppilegastar til atvinnuauka í hinum einstöku sveitum. Ég geri mér fulla grein fyrir og við flm. allir, að eflaust verður ekki um mörg sveitarfélög eða margar sveitir að ræða sem kæmu inn í þessa mynd til að byrja með. En ég þykist þess fullviss þó, að um einhverjar sé að ræða sem vildu nýta sér þá aðstoð, gera um þetta skipulega áætlun, leggja hana fyrir byggðadeild Framkvæmdastofnunar og fá þar úr því skorið, hversu réttmætt og mögulegt væri að ráðast í það sem þar væri lagt til. Ekki erum við með þessum framleiðslusamvinnufélögum, svo að ég komi aftur að þeim, að útiloka einkaaðila í þessu efni, þó að okkur þyki þeir heldur hvimleiðir í atvinnurekstri yfirleitt. En við vitum að í sveitum er um mikla samhjálparkennd að ræða almennt, og þetta ákvæði er einnig sett inn sem frekari hvati að því, að menn taki höndum saman í heilbrigðri og virkri samvinnu, svo sem bændur og aðrir sveitamenn á Íslandi eru hvað kunnastir að.

Ég ætla ekki að fara að vitna nánar í þau bréf sem grg. segir frá. Hins vegar get ég ekki stillt mig um að segja frá því, að oddviti eins sveitarfélags á Fljótsdalshéraði, sem skrifaði mér um þetta mál, lagði gífurlega áherslu á það, að bændur fengju þjónustuna, sérstaklega vélaþjónustuna og reyndar ýmsa aðra þjónustu, meir til sín og nær sér heldur en nú væri. Nú á þessi oddviti ekki mjög langt í kaupstað, ef svo má segja, það er ekki mjög langt í Egilsstaði þaðan sem hann býr, en engu að síður segir hann að þúsundþjalasmiður, sem þar er búsettur í sveitinni, hafi bjargað mönnum þar ótrúlega mikið og forðað bændum þar frá því að fara langan veg til þess að sækja þjónustu sem þessi maður. hefur veitt fyrir lítið gjald og vitanlega við ófullkomnar aðstæður og enn síður nokkra lánastarfsemi samfélagsins.

Það er vikið að öldruðu fólki sérstaklega sem vart hefur vinnuþrek til að stunda svo erfiða vinnu sem búskapur er, en skortir verkefni við hæfi. Hér er auðvitað ekki um sérvandamál sveitanna að ræða. Það er hið algilda vandamál aldraðs fólks að finna vinnu við sitt hæfi og þar eigum við sannarlega mikið verkefni óleyst. Og af því að hæstv. félmrh. heyrir mál mitt, þá vil ég segja það, að ég treysti honum til góðra aðgerða í því máli og einmitt til þess, sem vitnað er til í grg. okkar um samþykkt Alþ. frá 1975, sem við þm. Alþb. fengum þá samþykkta, að framkvæmd hennar verði sem fyrst eitthvað í áttina við það sem hún segir til um, en þar segir:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að undirbúa í samráði við launþegasamtök landsins frv. til l. um atvinnumál aldraðra og verði að því stefnt, að allir 67 ára og eldri, sem til þess hafa þrek og vilja, geti átt kost á atvinnu við sitt hæfi.“

Þetta var útúrdúr að vísu, en snertir þetta mál einnig, eins ag vikið er að í till. sjálfri.

Það má segja að hér sé um verkefni Byggðasjóðs að ræða. Það má segja að það sé óþarft að flytja till. um þetta, því að Byggðasjóður eigi nú þegar samkv. lögum að grípa hér inn í. Hér er hins vegar verið að óska eftir skipulegum aðgerðum — ekki tilviljanakenndum, heldur skipulegum aðgerðum sem byggðadeild Framkvæmdastofnunar beiti sér fyrir, þannig að þar verði ekki um að ræða tilviljanakenndar lánveitingar hingað og þangað, í meira og minna vafasöm fyrirtæki e.t.v., heldur verði að þessu unnið eins skipulega og mögulegt er. Byggðasjóður hefur hér komið inn í, sumpart til góðs. Hann hefur vissulega styrkt aðila í þessu efni, t.d. vélaverkstæði og eins þær tvær saumastofur sem reknar eru. Þar hefur Byggðasjóður komið til með eðlilega fyrirgreiðslu. En hér þarf vissulega að gera skipulegt aukaátak.

Við leggjum áherslu á það, við flm., að vil ætlum okkur engan sérstakan hraða á þessu. Niðurlag till. um, að ríkisstj. skuli gefa Alþ. skýrslu um framkvæmd hennar, er ekki til komið vegna þess að við reiknum með því, þótt við treystum náttúrlega hæstv. ríkisstj, ákaflega vel í þessum efnum, að hún eða Framkvæmdastofnunin verði búin að framkvæma eitthvað af þessu að ári liðnu, heldur vegna þess að ég held að sé rétt að Alþ. sé gefin skýrsla um hvernig með svona till. sé farið. Það tefur tíma þingsins ekki mjög mikið, vegna þess að að öðrum kosti rignir fsp. yfir um framkvæmd hinna ýmsu þál. sem gerðar eru. Og ég tel heppilegra að ríkisstj. hefði að því frumkvæði, en léti ekki sífellt toga út úr sér svör varðandi þál. sem samþykktar eru, því miður oft þau svör, að í málinu hafi hreinlega ekkert verið gert. Upplýsingaskylda af þessu tagi, hvernig með till. hafi verið farið, mundi kannske reka á eftir því, að eitthvað væri gert með þessar till., og því er þessi klausa komin inn í þessa till. okkar.

Hér er vissulega um byggðamál að ræða. Það má deila um hversu mikilvægt það er, hversu mikill möguleiki sé á að koma því í framkvæmd. Við gerum okkur fullkomlega ljósa erfiðleikana á því. Við gerum okkur einnig ljóst, að þetta mál markar engin þáttaskil varðandi vandamál íslenskra sveita eða íslensks landbúnaðar. Það er langt frá því. En hér er hliðarþáttur sem gæti valdið styrkingu á búsetu í sveitum almennt. Þar kæmi til aukin fjölbreytni og gæti e.t.v. leyst viss vandamál sem þar er nú við að glíma.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að óska eftir því, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. atvmn.