26.10.1978
Sameinað þing: 9. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í B-deild Alþingistíðinda. (195)

12. mál, efling þjónustu- og úrvinnsluiðnaðar í sveitum

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki verða ýkja-langorður um þessa till., en að svo miklu leyti sem till. vekur til umhugsunar um atvinnumál sveitanna, þá tel ég að hún sé mjög gagnleg. Að sjálfsögðu ætla ég ekki að taka endanlega afstöðu til þeirra atriða sem um er rætt í till. eða í grg. eða í ræðu hv. flm. Ég held þó að í öllum höfuðatriðum hafi hv. flm. hitt á það rétta. Sannleikurinn er sá, að það er of lítið gert að því að ræða vandamál landsbyggðarinnar eða dreifbýlisins og sveitanna í heild. Við ræðum gjarnan um vandamál landbúnaðarins út af fyrir sig, bændastéttarinnar út af fyrir sig, en ég held að okkur vanti að ræða þetta í meiri heild.

Sannleikurinn er sá, að sveitirnar líða ekki síst fyrir það, að atvinnulífið í sveitunum er fábreytt. Við þekkjum það hvar sem er, að þar sem atvinnulíf er fábreytt vill gjarnan fara svo, að heildarafkoman verði lakari og óvissa sé um framtíð slíkra byggða, jafnvel heilla landa sem byggja sig þannig upp atvinnulega. Og að þessu leyti til held ég að þessi till. gefi mjög gott tilefni til að ræða þessi mál í heild.

Mér virðist — og hef athugað þetta nokkuð að sjálfsögðu eins og fleiri hv. þm. — að ekki sé nóg að hafa mjög einhliða aðgerðir í sambandi við byggðamálin. Á undanförnum 6–7 árum hafa orðið gífurlegar framfarir í landinu, úti um alla landsbyggðina, og landsbyggðarstefnan hefur fengið að njóta sín. En við verðum jafnframt að viðurkenna það, að þær aðgerðir, sem gerðar hafa verið á grundvelli landsbyggðarstefnunnar, hafa miklu fremur náð til sjávarbyggðanna heldur en til sveitanna. Uppbyggingin til sjávarins um allt land er mjög áberandi og hefur að sjálfsögðu orðið til þess, að þar hafa orðið miklar framfarir. En þessar miklu framfarir eða þessi mikla uppbygging til sjávarins nær ekki nema að litlu leyti til sveitanna. Þess vegna held ég að það sé hin mesta nauðsyn, þegar við ræðum um landsbyggðarmálin, um byggðastefnuna, að þetta sé athugað meira í heild en við höfum gert til þessa. Og ég held að það brýnasta fyrir sveitirnar sé að við getum aukið þar fjölbreytni atvinnulífsins líkt og í öðrum byggðum. Ég held að menn hafi veitt því athygli, hver í sínu kjördæmi og hvar sem er í landinu, að þar sem atvinnulífið er fjölbreytt í sveitunum er síður en svo að nokkur fólksflótti sé þaðan. Slíkar byggðir eru yfirleitt sterkar og það er ekki hætta á því, að það bresti á neinn flótti frá slíkum byggðum. Ég gæti talið upp t.d. í mínu kjördæmi fjöldann allan af slíkum sveitabyggðum sem standa mjög traustum fótum, eingöngu vegna þess hvað atvinnulífið er fjölbreytt. En ég gæti líka talið upp þar á móti aðrar byggðir sem standa mjög höllum fæti vegna þess að þar er atvinnulífið fábreytt, byggist nær eingöngu á landbúnaði. Það hefur sýnt sig í nútímaþjóðfélagi, að það er ekki nægilega mikill styrkur að landbúnaðinum einum fyrir byggðirnar til þess að þær geti vaxið og séu öruggar um að dragast ekki saman að fólksfjölda og á annan hátt.

Að þessu leyti til vil ég taka undir þessa þáltill. og tel eðlilegt að hún verði athuguð í n., eins og till. er gerð um. Ef þessi till. verður til þess að vekja upp skynsamlegar umr. um vandamál sveitanna, þá tel ég að hún hafi gert sitt gagn og vil gjarnan stuðla að því að hún nái fram að ganga.