12.02.1979
Neðri deild: 50. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2508 í B-deild Alþingistíðinda. (1963)

37. mál, meðferð opinberra mála

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég bið afsökunar. Þegar ég heyrði að hv. þm. Páll Pétursson ætlaði að hefja umr. um þetta mál, þá skrapp ég fram og óskaði eftir því við þá heiðursmenn, sem þar eru, að þeir útveguðu mér ljósrit af grein sem ég mundi að var frá 30. jan. 1976, en það tekur auðvitað alltaf sinn tíma að leita að blöðunum og öðru slíku og ég sé að til þess gefst ekki tími nú.

Ég er auðvitað ekki undir það búinn að ræða um þessa hluti í smáatriðum. En ég vil, vegna þess að þessi mál eru gerð að umræðuefni, einasta vekja rækilega athygli hv, d. á því með hvaða hætti hér er farið að, hér eru taldar upp fyrirsagnir og vísað í blaðagreinar úr samhengi. Auðvitað gefur það enga mynd af því sem hér var til staðar og gerðist. En kjarni málsins er sá, að í þeirri blaðagrein, sem hv. þm. Páll Pétursson vísar til og birt var föstudaginn 30. jan. 1976 og hét því nafni: „Er hægt að þegja öllu lengur?“ var rakin saga, sem margoft hafði verið rakin áður, og hún fjallar um efnahagsleg afbrot veitingahúss í Reykjavík, afskipti dómsmrh. af því og skoðanir tiltekinna embættismanna í dómskerfinu, þ. á m. embættis saksóknara ríkisins, á þeim afskiptum. Þessi saga var rakin. Jafnframt var sagt, að nú hefði nýr vinkill komið á þetta mál með nýjum og óhugnanlegri afbrotum, en það var rækilega undirstrikað að hér var alfarið um tvö mál að ræða. Með leyfi hæstv. forseta ber ég hér niður í — að vísu sundurtætt –ljósritið sem hv. þm. lánaði mér áðan. Það segir hér á einu brotinu, með leyfi forseta:

„Nú ber vitaskuld að endurtaka og leggja á það þunga áherslu, að það að sitja í gæsluvarðhaldi vegna mannhvarfs er allt annað en það að vera sakaður um mannshvarf, og allir eru saklausir þangað til annað er sannað. En“ — er bætt við — „þessi mál eru orðin svo umfangsmikil og armar þeirra virðast ná svo víða, að öllu lengur verður ekki þagað.“ — Og það er þetta sem er kjarni málsins.

Annars staðar í þessari grein man ég eftir að í löngu máli er undirstrikað mjög rækilega að hér er um tvö mál að ræða.

Eftirleikur þessa máls var síðan með allt öðrum hætti. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson bar fram spurningar úr þessum stól, og hæstv. dómsmrh. þáv., Ólafur Jóhannesson, svaraði með þeim hætti að það vakti fleiri spurningar en það svaraði. Einhver hluti núv. þm. var einnig á þingi þá og var að þessu áhorfandi og þekkja um hvað þessi mál fjölluðu.

En allt um það er söm gerðin hv. þm. Páls Péturssonar, það, sem hann var að segja í fyrra skiptið sem hann kom í pontu og það sem blað hans hefur sagt æ ofan í æ í forustugreinum og annars staðar, að hér hafi verið um raunverulega eitt og sama málið að ræða. Það er gerð tilraun til þess að blanda þessu öllu saman í einn pott. Þetta er rangt. Það var rækilega sagt í fyrstu greininni, sem um þetta mál fjallaði, það var rækilega á það bent síðar. Og þetta mál hafði eftirleik. Eitt af því var einmitt ræða hæstv. dómsmrh. á þessum tíma, og ég hygg að öllum þorra þjóðarinnar, nema menn séu þeim mun flokksmerktari, sé ljóst að sú ræða vakti fleiri spurningar en hún svaraði. Og jafnljóst er hitt, að eftir allt þetta málavafstur var fjölmörgum atriðum um þetta svokallaða Klúbbmál ósvarað, upplýsingar voru ónógar. Deilan stóð m.a. um það, að veitingahús hafði verið opnað að fyrirskipan rn. gegn mótmælum lögreglu og annarra. Það var um þetta sem deilt var á þeim tíma, og þetta gæti verið jafnmikið deilumál nú og það var þá.