13.02.1979
Sameinað þing: 51. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2526 í B-deild Alþingistíðinda. (1980)

337. mál, hefting landbrots

Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Á þskj. 144 hef ég leyft mér að leggja fyrir hæstv. landbrh. eftirfarandi fsp.:

„Hvernig hefur verið háttað framkvæmd laga um heftingu landbrots og varnir gegn ágangi vatns frá 14. maí 1975, og hvaða ráðstafanir eru fyrirhugaðar til þess að lög þessi nái tilgangi sínum?“

Árið 1969 eða fyrir réttum 10 árum flutti ég frv. um þetta efni. Voru þá skiptar skoðanir um sum ákvæði þess frv., og olli það því að það hlaut ekki afgreiðslu. Næstu ár endurflutti ég frv. án þess að það næði fram að ganga.

Á þessum árum kom fram vaxandi áhugi á þessu máli víða á landsbyggðinni, sem varð til þess að við Ágúst Þorvaldsson, fyrrv. alþm., endurfluttum frv. árið 1973, eftir að gerðar höfðu verið nokkrar breytingar á því í samráði við Jón Birgi Jónsson verkfræðing. Var þessu máli vísað til þjóðhátíðarnefndar, þar sem þetta málefni var talið hliðstætt við það verkefni hennar að koma fram með tillögur um uppgræðslu á örfoka landi og koma í veg fyrir eyðileggingu gróðurlendis.

Árið 1932 voru samþykkt lög um fyrirhleðslu á vatnasvæði Þverár og Markarfljóts. Þessi löggjöf mun hafa átt að þjóna tvennum tilgangi, bæta samgöngur og verja nytjalönd fyrir skemmdum af ágangi vatns á þessu svæði. Árið 1945 voru samþ. lög um fyrirhleðslu Héraðsvatna norður á Vindheimabrekkum. 1. gr. þeirra laga hefst þannig, með leyfi forseta:

„Til þess að varna yfirvofandi stórfelldum skemmdum af ágangi vatns úr Héraðsvötnum vestan Vatna skulu gerðar fyrirhleðslur“ o.s.frv.

Á þeim árum, sem liðin eru síðan þessi löggjöf var sett, hefur orðið mikil breyting í ræktun og tækni hér á landi. Ræktunin hefur margfaldast og færst meira en áður niður á láglendið, eftir því að hinar stórvirku skurðgröfur hófu þurrkun þess um allt land. Víða eru sléttir bakkar meðfram fallvötnum. Hafa þeir orðið mikils virði sem slægjulönd, fyrst sem áveitusvæði og síðari árin hefur verið borinn tilbúinn áburður á þá með góðum árangri, svo að uppskerumagnið hefur orðið lítið eða ekkert minna af þeim svæðum en það sem brotið hefur verið og sáð í. Í örum leysingum verða oft miklar skemmdir á þessum löndum sem hægt væri að koma í veg fyrir í flestum tilfellum með þeirri tækni sem við höfum nú yfir að ráða. Víða hafa átt sér stað stórkostleg landbrot á liðnum áratugum sem kunnáttumenn á þessu sviði telja að auðvelt hefði verið að koma í veg fyrir ef framkvæmdir hefðu verið gerðar í tæka tíð, t.d. með því að laga árfarvegi. Þó að engin löggjöf væri til þar til á árinu 1975 nema við þær takmörkuðu aðgerðir sem að framan greinir, þá var veitt fé á fjárl. til varnaraðgerða að þessu leyti á öðrum stöðum í landinu um árabil. Stuðningur ríkisins við þær framkvæmdir var miðaður við ákvæði áðurgreindra laga. En það, sem hindraði skynsamlega framkvæmd og samræmdar aðgerðir í þessu efni, voru ákvæði í vatnalögum, en sú löggjöf var frá árinu 1923 og var því að mörgu leyti úrelt miðað við nútímaaðstæður. Voru þar t.d. ákvæði sem ollu því, að einn landeigandi gat hindrað sjálfsagðar og eðlilegar framkvæmdir í langan tíma þó að það hefði mikla eyðileggingu í för með sér á nytjalöndum annarra.

Það var því kominn tími til að setja löggjöf um þetta efni sem sniðin var eftir þörf og kröfu okkar tíma og hvetur til virkrar varðstöðu um verndun gróðurlendis í byggð ekki síður en á afréttarlöndum. Við viðurkennum það í verki hin síðari ár, að þjóðinni beri að koma í veg fyrir uppblástur gróðurlendis, en nú er mikil hreyfing í landinu til að vinna að því, ekki síst meðal ungmennafélaga, og þeirri hreyfingu ber vissulega að fagna. Þess vegna hef ég borið fram þessa fsp., þar sem mér hefur fundist að framkvæmd laganna hafi ekki verið á þann veg sem vonast var til.