26.10.1978
Neðri deild: 8. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í B-deild Alþingistíðinda. (202)

39. mál, kjaramál

Viðskrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir til staðfestingar á brbl. ríkisstj. frá því snemma í sept., er vissulega fyrst og fremst flutt af tillitssemi við fólkið í landinu og þann úrskurð þess sem felldur var í kosningunum 25. júní s.l. Hv. þm. stjórnarandstöðuflokkanna verða enn um sinn að una þessum úrskurði, þangað til næst verður kosið og næst verður tekist á um það, hvaða stefnu verður fylgt í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Þetta frv. er í raun og veru staðfesting á kosningaúrslitum, og 1. gr. þess er ákaflega ljós vottur um hvað gerðist. 1. gr. frv. kveður á um að tvenn önnur lög, sem sett voru fyrr á árinu, þ.e.a.s. í febr. og í maí, verði felld niður. Það er harla óvenjulegt, að þannig sé á málum tekið í lögum. Venjulega er tekið fram í lok laganna, hvaða lagagr. það eru sem jafnframt falli niður. En í þetta skipti er niðurfelling efnahagsmálalaganna frá í febr. og brbl. frá í maí nefnd fyrst af öllu sem frumatriði í raun og veru, vegna þess að í þessari grein er verið að gera það sem kallað er að setja kjarasamningana í gildi af tillitssemi við fólkið í landinu og þann úrskurð sem það felldi í kosningunum í sumar.

Í þessum umr. hefur hv. 4. þm. Reykv. fjallað nokkuð um þessi mál og m.a. látið að því liggja, að við, sem að þessu frv. stöndum og styðjum það, séum í rauninni að svíkja loforð, við séum að vega að launafólki í landinu. Ég hefði gjarnan viljað heyra ábendingar frá öðrum mönnum en einmitt þessum hv. þm. um það, hvernig rétt væri að breyta framkomu núv. ríkisstj. í garð launafólksins. Ég hygg að verkalýðshreyfingin í landinu og launamenn í þessu landi séu ekki búnir að gleyma því a.m.k. enn þá, hvernig hæstv. fráfarandi ríkisstj. undir forustu 4. þm. Reykv. kom fram gagnvart launafólki. Ég vil minna á það, að þessi kjaramálalög hafa það í för með sér að kaupmáttur launa er nú í sept. og okt. hliðstæður því sem hann hefur áður bestur orðið á undanförnum áratugum eða á fyrri hluta ársins 1974. Þetta segir okkur ákaflega athyglisverða hluti sem vert er að hafa í huga, og vegna þessara staðreynda hefur verkalýðshreyfingin í landinu tekið þessari stefnu, sem þarna er mörkuð, ákaflega vel og um hefur verið að ræða gott og vonandi batnandi samráð um þessa hluti við hana.

Ég vil aðeins víkja að þeim kafla lagafrv. sem fjallar um niðurfærslu vöruverðs og verðlagseftirlit. Í ræðu hv. 4. þm. Reykv. og einnig í ræðu hv. 1. þm. Reykv. var fjallað um þessa grein. 4. þm. Reykv. lagði á það áherslu, að hér væri verið að framlengja gömul og úrelt verðlagsákvæði, og hann gagnrýndi það sérstaklega, að núv. ríkisstj. beitti sér fyrir því að fresta eða breyta 8. gr. verðlagslaganna frá því í fyrra. Það var misskilningur hjá hv. þm., að það frv., sem mælt var fyrir hér í gær, fæli út af fyrir sig í sér breytingu á 8. gr. laganna sérstaklega. Það frv. um verðlagsmál, sem ég mætti fyrir í gær, gerir ráð fyrir að gildistökufrestur þeirra laga, sem samþ. voru s.l. vor og staðfest 16. maí s.l., verði tengdur nokkuð, m.a. og kannske fyrst og fremst af tæknilegum ástæðum. Það er hins vegar alveg rétt, sem hv. 4. þm. Reykv. benti hér á, og það hefði honum mátt koma í hug fyrr og samflokksmönnum hans sem lengi hafa verið allvaldamiklir á þessari virðulegu samkomu, að auðvitað eru núverandi verðlagslög, að frátalinni þessari grein sem er sett við sérstakar kringumstæður, í rauninni meira og minna úrelt. Auðvitað er það rétt, að lögin frá 1960 eru 18 ára gömul og síðan þau voru sett hefur margt breyst. Auðvitað er það rétt, að við kjarna þeirrar verðstöðvunarstefnu, sem hefur verið endurtekin æ ofan í æ frá 1970, er margt að athuga. En ég minni hv. þm., sem kannske eru búnir að gleyma því, á að það er Sjálfstfl. sem hefur í raun og veru haft forustu um setningu þeirra laga sem hafa verið grunnlög verðlagskerfisins í landinu undanfarna tvo áratugi.

Í ræðu hv. 1. þm. Reykv. benti hann á, að það væri rétt að fella niður 2. mgr. 7. gr. frv., þ.e. greinina um 30% regluna. Hann studdi það þeim rökum, að þessari 30% reglu var beitt í febrúarmánuði s.l. og í millitíðinni hefði ekki komið svokölluð leiðrétting á álagningu, hefði reglunni verið beitt tvívegis á mjög skömmum tíma væri sjaldgæft að slíkt hefði gerst. Ég hygg að þetta sé út af fyrir sig alveg rétt hjá hv. þm. Spurningin er hins vegar kannske ekki alveg um það, heldur hitt, hversu mikla fjármuni við treystum okkur til að nota í verslunarkostnað í þessu landi. Ég geri ráð fyrir að við séum öll sammála um það, að í því dýrtíðar- og verðþensluþjóðfélagi sem við búum í sé nauðsynlegt að halda slíkum tilkostnaði í lágmarki. Á þessu ári, 1978, er gert ráð fyrir að verslunarálagning í landinu alls nemi um 45.2 milljörðum kr. á septemberskilyrðum, eftir að 30% reglunni hefur verið beitt í annað sinn. Ef 30% reglunni hefði ekki verið beitt og álagningin hefði komið að fullu við gengislækkunina, þá hefði verslunarálagningin numið allmiklu hærri upphæð, líklega um 49 milljörðum kr. Þessi álagning — álagning án olíuverslunar ef við tökum hana út úr mundi nema sem svarar 18–19% af þjóðarframleiðslunni á þessu ári. Og þegar við erum að taka ákvörðun um það, hvernig við stýrum okkar efnahagsmálum, þá eigum við auðvitað m.a. að velta því fyrir okkur, hvernig fjármununum er best varið einnig á þessu sviði. (Gripið fram í.) Hún fer m.a. til launagreiðslna og margra fleiri þátta í verslun, eins og hv. þm. veit. (HBl: Veit ráðh. það?) Ráðh. er kunnugt um það, já. Og vegna þess að við stöndum í hörðum slag við verðþenslu og verðbólgu, þá er alveg óhjákvæmilegt að við höfum auga á því að reyna að halda þessum hlutum niðri, þannig að þeir kosti sem minnst fyrir heildina. Spurningin er sú, hvernig þessum peningum er skipt á milli hinna einstöku greina í versluninni í landinu, og eins og hv. 6. þm. Norðurl. e. veit eru greinar verslunarinnar í landinu fleiri en ein og fleiri en tvær.

Hins vegar vil ég benda hv. 1. þm. Reykv. á að auðvitað hefur ríkisstj. möguleika á því að breyta verslunarálagningunni samkv. þessari sömu 7. gr. ef hún telur vera efnislegar ástæður til þess. Sú breyting gæti fallið undir t.d. 1. mgr. 7. gr., þar sem talað er um að leyfi ríkisstj. þurfi til staðfestingar á hækkunum. Ég lít svo á að þessir hlutir hljóti auðvitað að verða til meðferðar í ríkisstj. áfram, og spurningin er fyrst og fremst þessi fyrir mér: Hvað treystum við okkur til að verja miklum fjármunum í þennan þátt atvinnulífsins í landinu?

Í þessum umr. hafa talsmenn stjórnarandstöðunnar einkum rætt um IV. kafla laganna sem fjallar um beina skatta. Í þeim kafla er gert ráð fyrir að leggja á einstaklinga og félög talsverðar upphæðir, en þessar upphæðir eru aftur á móti notaðar til að greiða niður verð á brýnustu lífsnauðsynjum almennings. Ef við veltum því aðeins fyrir okkur, hvernig ætla má að reikningurinn standi fyrir hinn almenna launamann í þessum efnum, þá getum við skoðað þær tölur sem birtar eru í grg. frv. Þar kemur m.a. fram það sem kalla má heildarálagningu á einstaklinga í þessu frv. Hún nemur alls milli 1200 og 1300 millj. kr. á almenna launamenn sem ekki stunda atvinnurekstur. Til samanburðar við þá tölu eiga menn að skoða tölur um auknar niðurgreiðslur í september, niðurfellingu söluskatts af matvælum og auknar niðurgreiðslur í desember. Ef menn bera þessar tölur saman af sanngirni, þá fullyrði ég að þeir átti sig á því, að hlutur launafólks í landinu hefur við þessar aðgerðir og jafnvel líka þessa skattlagningu, vegna þess að vöruverðið er lækkað, styrkst stórlega frá því sem áður var. Það þekkir það fólk sem daglega þarf að ganga í verslanir til þess að kaupa sér brýnustu lífsnauðsynjar. Ég minni á að eitt dagblaðanna birti á dögunum frétt um könnun, sem það hafði gert á verðlagi í verslunum hér í Reykjavík, og taldi að verð á tilteknum matvörum, sambærilegum í bæði skiptin, hefði við þessar aðgerðir lækkað um ca. 10%.

Ég vil segja það alveg fullum fetum, að sem stuðningsmaður þessarar stjórnar get ég fyllilega staðið að þeirri skattlagningu sem hér er um að ræða, vegna þess að hún kemur launafólki í landinu til góða í stórfelldum niðurgreiðslum á vörum og í því að fella niður söluskatt á matvælum. Fráfarandi ríkisstj. og ríkisstjórnir og kannske fremst viðreisnarstjórnin á sínum tíma tóku upp þá stefnu að taka upp söluskatta sem í raun og veru meginskattastefnu. Söluskattur er að mínu viti ranglátur skattur, sérstaklega eins og hann var framkvæmdur hér fyrr á árum og fyrir nokkrum missirum, vegna þess að þá lagðist hann ekki bara á þá sem höfðu tekjur, ekki bara á þá sem höfðu sæmileg efni eða voru með sæmilegar eignir, söluskatturinn lagðist á nauðþurftir aldraðra og jafnvel ungbarna fullum fetum og alveg jafnt, gersamlega án tillits til allra aðstæðna. Þess vegna segi ég það sem mína pólitísku skoðun á skattamálum, að ég tel að draga eigi úr þessum óbeinu sköttum og sköttum af þessu tagi. Ég tel að það sé mikilvægt réttlætisspor að fella niður söluskatt af matvælum og það sýni í rauninni gerbreytta skattastefnu sem þessi ríkisstj. fylgir.

Hitt er aftur annað mál, sem öllum hlýtur að vera ljóst og hæstv. fjmrh. hefur m.a. rakið, að við setningu laga eins og þessara, sem snerta mörg þúsund einstaklinga, geta vitaskuld komið fyrir tilvik þar sem skatturinn skapar tiltekin vandamál. En þau stafa þá af einhverjum alveg sérstökum aðstæðum hjá viðkomandi einstaklingum sem verður auðvitað að taka á. En heildarstefnan í þessu er að mínu mati rétt.

En ég vil fyrst og fremst undirstrika það, að ég tel að með þeim brbl., sem sett voru snemma í september, fólst verulegur pólitískur áfangasigur fyrir íslensku verkalýðshreyfinguna. Það er vissulega rétt, að við höfum ekki leyst öll vandamál, enda þætti mér fróðlegt að vita hvenær einhver ein ríkisstj. hér í þessu landi hefur hugsað sér að leysa með einum lögum öll vandamál, eins og hv. 4. þm. Reykv. orðaði það í gær. En meginatriðið er, að ég tel að það andrúmsloft og þær forsendur, sem skapast í kringum þessi lög, skapi góðan grundvöll fyrir því, að hægt sé að byggja hér upp nýja efnahagsmálastefnu sem tekur mið af hagsmunum alþýðunnar á sama hátt og þessi lög gera, en hafnar þeirri stefnu sem áður var fylgt, að ráðast alltaf og ævinlega á kjör launafólks í landinu þegar efnahagsvandamál af ýmsum toga hafa komið upp.