14.02.1979
Neðri deild: 51. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2582 í B-deild Alþingistíðinda. (2023)

168. mál, útvarpslög

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður og ekki misnota afhugasemdatímann. Ég hef nú þegar talað mig dauðan í þessu máli, en ég kemst ekki hjá því að gera aths. við það sem kom fram hjá hv. þm. Eiði Guðnasyni um litsjónvarpið og hvernig á því hefur staðið.

Það þarf lítið að segja mér um það mál, því það vill svo til að ég var flm. þeirrar till. í útvarpsráði sem samþ. var þar og farið eftir varðandi þetta mál, og það ætti núverandi útvarpsráðsmaður að vita. Á þeim tíma var hægt að fá tæki sem sendu út án litar. Það er að vísu alveg rétt sem hér kom fram, að það var miklu óhagstæðara. Baráttan stóð við þau öfl sem vildu ekki að hér yrðu sett á litsjónvarpstæki sem kæmu til góða peningamönnum, sem gætu keypt þessi tæki, eða Reykjavíkuraðlinum, sem býr hér á suðvesturhorni landsins, fyrr en hægt væri að litvæða allt landið. Slagurinn stóð um þetta. Þetta á hv. þm. að vita.

Dreifbýlishugsunarhátt skýrði ég hér áðan. Mér þykir leitt ef hv. þm. Eiður Guðnason hefur tekið það til sín, það er honum að kenna, en ekki mér. Það eru þeir menn sem ekki vilja neinar framfarir í þessu landi nema allir geti notið þeirra í einu. Í áðurnefndu máli kom það okkur til hjálpar, — þeim mönnum sem vildu að einhverjar framfarir yrðu í þessu máli, og ég veit að hv. þm. Eiður Guðnason var einn þeirra, — að það sást að með því að byrja að selja hér litsjónvarpstæki fengjust tekjur til þess að standa undir breytingarkostnaði hjá sjónvarpinu. Þetta vitum við báðir ég og hv. þm. Eiður Guðnason.

Ég komst ekki hjá því, herra forseti, að fá tækifæri til að gera þessar stuttu aths.