14.02.1979
Neðri deild: 51. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2586 í B-deild Alþingistíðinda. (2026)

168. mál, útvarpslög

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Hv. þm. Friðrik Sophusson þakkaði mér fyrir lánið á orðinu „kerfiskarlar“. Fyrir þetta lán er auðvitað ekkert að þakka og sjálfsagt að það orð sé notað. En það á hinn boginn lýsir ástandi mála ásamt með öðru, að þegar fulltrúum þessa flokks, — sem hv. þm. lýsti svo ágætlega og nærfærnislega í blaðagrein nú fyrir helgina þegar hann sagði að Sjálfstfl. væri flokkur sem væri of hræddur til þess að berjast og of feitur til þess að flýja, — þetta er ásamt öðru sýnilegra af því, að þegar yngismönnum þessa hv, flokks dettur eitthvað smellið í hug, þá er líklegra en ekki að það sé fengið að láni hjá okkur í Alþfl.

En um það mál, sem hér er til umr., gildir það, eins og um fleiri stór mál, að auðvitað eru þung rök með og á móti.

Auðvitað er ljóst að sú hætta er allveruleg, ef við gerum svo róttækar breytingar á þessu kerfi sem hér er lagt til, að þetta verði ekki frelsi til handa öðrum en forréttindahópum. Slíkt frelsi er oft verra en ekki og til þess erum við m.a. að setja lög og reglur í landinu að koma í veg fyrir slíkt. Um það er enginn grundvallarágreiningur. Eins eru það þung rök, sem fram komu í máli hv. þm. Árna Gunnarssonar, að Ríkisútvarpið þjónar einum tilgangi til viðbótar við hinn almenna menningar- og uppfræðslutilgang. Ríkisútvarpið er almannavarnakerfi í landinu.

En samt er það svo, að ég vil ekki taka undir þær röksemdir, sem mér þóttu koma fram í máli ágætra hv. flokksbræðra minna, þeirra Árna Gunnarssonar og Eiðs Guðnasonar, í þá veru að ríkisfjölmiðlarnir væru nánast hafnir yfir alla gagnrýni. Auðvitað er það svo, að þegar um langvarandi einokun hefur verið að ræða er sú hætta mjög veruleg að þessar stofnanir verði freðnar, þær hætti að taka breytingum, þær hætti að þróast fram á veginn. Eins og málum þarna er skipað tekur pólitískt útvarpsráð raunar þær ákvarðanir sem máli skipta. Það gerist alltaf í öllum samfélögum að upp koma viðkvæm deilumál af einu eða öðru tagi, og það er hætt við að slíkt vald, sem í upphafi sínu er af hinu félagslega tagi, hafi innbyggða tilhneigingu til þess að staðna, til þess að vera ekki framsækið, heldur beinlínis stefna í aðra átt. Og á þessu má í sjálfu sér hugsa sér margar breytingar. Það hafa verið nefndar breytingar eins og þær að hafa annan hátt á við kosningu í útvarpsráð, að þar komi fleiri til en þeir sem beint eru skipaðir af Alþ., að stór félagsleg samtök, t.a.m. samtök listamanna, fái að hafa þar hönd í bagga eftir reglum sem Alþ. mundi frekar færa út.

Ég vil segja það, hafandi velt upp rökum bæði með og móti, að ég er fyrir mína parta hlynntur meginhugmyndinni sem fram kemur í frv. sem Guðmundur H. Garðarsson hefur flutt ásamt með öðrum. Ég skil það svo, að meginhugmyndin í þessu frv. sé að fleiri sé hleypt að útvarpsrekstri en hinu heina ríkisvaldi. Ég hygg að um þetta geti menn og konur hér verið nokkuð sammála. Það er hins vegar útfærsluatriði, með hverjum hætti þetta er gert.

Þessir fjölmiðlar hafa iðulega verið bornir saman við blöð, en sá samanburður stenst ekki alfarið vegna þess að loftið er takmarkað. Það er ekki ótakmarkað hægt að hleypa útvarpssendingum út í loftið. Það þýðir það, að fyrr en varir erum við komnir með leyfisveitingar — og hverjir veita leyfin? Það er hið sama ríkisvald sem það gerir. Nú veit ég að Sjálfstfl. — vegna þess að þeir ágætu ungu hv. vinir mínir hafa verið að blanda stjórnmálaflokkum inn í málið, sem ég tel að eigi ekki alveg við — er auðvitað ekki lengur sá hreinræktaði íhaldsflokkur sem hann var áður fyrr og sjálfstæðismenn eru ekki að tala fyrir þess háttar frelsi, heldur fyrir annars konar frelsi, því frelsi sem hv. fyrrv. þm. Magnús Kjartansson lýsti einu sinni ágætlega og kallaði pilsfaldakapítalisma, frelsi sem er undir pilsfaldi ríkisvaldsins. Ég er hræddur um að útsendingar frjáls útvarps færu fljótlega í þennan farveg, að það yrði háð þeim sem byggju til þessi leyfi, þar værum við komin með sams konar vandræði og þau vandræði sem vissulega eru til staðar í ríkisfjölmiðlum, sem um margt eru staðnaðri en þeir þyrftu að vera.

Það er auðvitað á fleira að líta í þessum efnum. T.a.m., þegar þetta er horið saman við blöð er stofnkostnaður við útvarpsstöðvar miklu minni en við blöð. Ef þau rök eiga við, að þetta yrði frelsi til handa peningamönnum einum, má auðvitað segja að þau rök eiga jafnvel í frekari og ríkari mæli við um blaðaútgáfu en um útvarpsrekstur.

Að öllu þessu athuguðu ítreka ég það meginsjónarmið mitt, að ég er hlynntur meginhugmyndinni sem þarna kemur fram, sem ég skil vera þá að rétt væri að hleypa fleiri að og úr öðrum áttum en beint frá ríkisvaldinu. En ég er hins vegar ekki tilbúinn að taka þátt í því að búa til frelsi sem yrði einasta frelsi handa auðhringum á borð við Samband ísl. samvinnufélaga eða Flugleiðir. Frelsi til handa þeim einum er ekki frelsi, og um það erum við hv. þm. Friðrik Sophusson væntanlega sammála.

Það má hugsa sér hvort annars konar útfærsluleið væri til, að Ríkisútvarpið tæki að sér að skapa fleiri rásir, sem það getur gert sér að kostnaðarlitlu, og þessar rásir væru leigðar eða lánaðar með sams konar hætti og frv. þeirra gerir ráð fyrir. Því fylgir sá kostur, sem vissulega er kostur og hv. þm. Eiður Guðnason lagði mikla áherslu á, að slíkt útvarp mundi ná til landsins alls. Mér sýnist að ókostirnir, þ.e.a.s. hættan á leyfisveitingum, séu hliðstæðir við þessa aðferð, og eins mundi vera þó að þetta væri gefið það sem kallað hefur verið frjálst.

Herra forseti. Klukkan er orðin hálffjögur og mér er kunnugt um að það standa til aðrir dagskrárliðir, svo ég lýk máli mínu að sinni.