28.02.1979
Efri deild: 60. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2835 í B-deild Alþingistíðinda. (2245)

194. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Hvergi skulu grið gefin, bara drepa og drepa. Ég verð að segja það, að mér finnst það vera mjög vafasamt fyrirtæki að opna Faxaflóa fyrir dragnót. Faxaflóinn gegnir í raun og veru sögulegu hlutverki, einnig í okkar landhelgismálum. Fyrir utan að vera það gósenhafsvæði sem við vitum að hann er, þá mun það hafa verið í upphafi okkar landhelgisbaráttu sem samþykkt fékkst fyrir því að friða flóann vegna mikilla möguleika hans á að ala upp ungfisk og vegna þess mikla gróðurs sem í honum er. Þetta hefur verið virt bæði af útlendingum og okkur sjálfum, enda hefur hann sýnt sig að vera uppeldisstöð fyrir okkar nytjafiska í ríkari mæli en margir vilja vera láta.

Hér hafa oft á Alþ. staðið harðar deilur um það, hvort ætti að opna Faxaflóa fyrir dragnót. Dragnótarveiði hefur verið stunduð í Faxaflóa langtímum saman með nokkrum árangri, því er ekki að neita, og á undanförnum árum hefur verið nokkuð veitt í dragnót í Faxaflóa í tilraunaskyni. Að sjálfsögðu, þar sem einn bátur hefur verið að veiðum og veitt á ákveðnum, takmörkuðum svæðum, hefur hann aflað vel og þetta verið mikil búbót fyrir þann aðila sem hefur verið að verki. En það segir ekki að sagan frá því í gamla daga endurtaki sig ekki ef flóinn yrði opnaður til dragnótaveiða almennt. Og ég fyrir mitt leyti get ekki fellt mig við það, að við á þessum alvarlegustu tímum núna, þegar við sjáum fram á vafasama framtíð okkar helstu nytjastofna, förum þá að opna þennan flóa, sem hefur fengið að vera lokaður um alllangt skeið, fyrir þessu háskalega veiðarfæri. En ég vona að menn hugsi þetta mál vel áður en þeir greiða atkv. með slíkri samþykkt sem þessari. Við erum hér að bjóða hættunni heim. Ég held að það verði ákaflega erfitt fyrir okkur að snúa til baka, ef þetta verður samþykkt.

Það, sem allt snýst um, er að lagt er til, skilst mér, að veiða 1500 lestir af flatfiski í Faxaflóa. Það er vitað mál, að það er hægt að veiða þessar 1500 lestir fyrir utan flóann þegar kolinn gengur út. Það þarf ekki að veiða það á þeim tíma sem kolinn er erfiður til vinnslu, heldur má alltaf fá kola utan við flóann. Og ég hef ekki trúa á því, að kolastofninn sé svo sterkur sem fiskifræðingar segja, ef það er rétt að óskaplega erfitt sé að fiska þessi 10 þúsund tonn, sem þeir ráðleggja, umhverfis landið og eiginlega alls ekki hægt nema með því að opna Faxaflóa. Ég er í þeirri n., sem fær þetta mál til athugunar, og mun greiða því atkv., að það fari til n., en vil engu lofa um framtíðina. Ég vona að við fáum allar þær frekustu upplýsingar sem hægt er að fá um þetta mál, og ég vil taka það skýrt fram, að um þessi mál og önnur er svo lítið vísindalega vitað að við megum ekki á öllum sviðum, sem við eigum kost á, tefla á tæpasta vað.