01.03.1979
Efri deild: 63. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2892 í B-deild Alþingistíðinda. (2285)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég tek fyrst og fremst til máls vegna þess, að mér fannst hæstv. iðnrh. fara heldur ómjúkum höndum um þá sem gerðust svo djarfir að andmæla till. hans. Ég vil taka það skýrt fram, að ég býst við að flestir þeir, sem ekki treysta sér til þess að fylgja þessu frv. hans, líti ekki svo á að peninganna sé ekki þörf, heldur sé hér eins og oft áður spurning um aðferðir.

Víð 1. umr. þessa máls sagði ég nokkur orð og benti þar á aðrar leiðir til þess að ná, að mér fannst vera, eðlilegri og skemmtilegri árangri. Ég benti á þá leið, að stóriðja í landinu, sem nú fer vaxandi, greiddi gjöld til ríkisins. Mér fyndist eðlilegt að þessi gjöld rynnu til þess að auðvelda rafmagnsdreifingu um landið. Ég benti á að í því fyrirtæki, sem um er að ræða, hefur þótt full þörf á að hagræðing færi fram og hægt væri að spara á þann hátt. Hefur verið talað um að það væri full nauðsyn að breyta slæmum lánum í betri lán. Allt þetta mundi koma í staðinn fyrir fjárframlög og mundi spara fjármagn.

Ég benti einnig á að það væru fleiri aðilar einkum þó Byggðasjóður sem mér fyndist eðlilegt að hlypi eitthvað undir bagga þarna. Hér er um bráðabirgðaástand að ræða. Við skulum segja að farin yrði sú leið að stóriðja í landinu létti þarna undir. Strax eftir eitt til tvö ár mundi þar verða um verulegar fjárhæðir að ræða, en í millitíðinni gæti Byggðasjóður hlaupið undir bagga. Ég held að það væri ekki óeðlilegra að Byggðasjóður treysti byggð í landinu með þessu móti en t. d. með að létta undir með atvinnuvegum á stöðum þar sem yfirdrifin atvinna er.

Allt er þetta umdeilanlegt, ég viðurkenni það, en mér finnst vera alveg ástæðulaust að jafnvel þótt hæstv. ráðh. hafi borið þetta frv. fram geti engar aðrar leiðir komið til greina.

Ég viðurkenni fyllilega, að það er ákaflega erfitt að skýra að eina leiðin til þess að lækka rafmagnið hjá þeim sem borga mest sé að hækka taxtann hjá þeim hlutfallslega.