01.03.1979
Neðri deild: 55. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2893 í B-deild Alþingistíðinda. (2287)

202. mál, tímabundið olíugjald til fiskiskipa

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Eins og öllum er kunnugt hefur verð á olíu á heimsmarkaði snarhækkað að undanförnu og leggst þar saman harður vetur í Evrópu og stöðvun olíuútflutnings frá Íran. Af þessum sökum hefur gætt skorts á gasolíu og hefur það leitt til gífurlegrar umframeftirspurnar eftir olíu og þar með til verðhækkunar.

Frv. það, sem hér er til 1. umr., gerir ráð fyrir 2.5% álagi á fiskverð til útgerðar eingöngu og er þannig þáttur í ráðstöfunum til að snúast við þeim vanda sem þessi stórfellda hækkun olíuverðs veldur íslenskum sjávarútvegi. Frá því í desembermánuði s. l. fram til 21. febr. kostaði hver lítri af gasolíu til fiskiskipa hér á landi 57.50 kr., en svartolíutonnið 39 þús. kr. Hinn 21. febr. s. l. var ákveðið nýtt verð á bensíni og olíu hér á landi og var það verð ákveðið á grundvelli innkaupsverðs þeirrar olíu, sem til var í birgðum í landinu. Samkv. því kostar hver lítri af gasolíu nú 68.90 kr. og svartolíutonnið 40500 kr. Þetta viðmiðunarverð er mun lægra en skráð markaðsverð í Rotterdam þessa dagana og þegar næsta verðlagning fer fram, væntanlega í apríl, verður því að taka mið af verði á síðustu förmum. Það verð gæti orðið hátt, eða um 100 kr. á hvern lítra af gasolíu og um 48 þús. kr. á hvert svartolíutonn, og er þá reyndar reiknað með að verðið lækki frá toppinum um miðjan febrúar.

Hækkun gasolíuverðs úr 58.50 kr. í 68.90 kr. á lítra veldur kostnaðarauka hjá fiskiskipaútgerð um 2000 millj. kr. á heilu ári. Auk þess munu aðrir kostnaðarliðir, t. d. veiðarfæri, væntanlega hækka í kjölfar olíuverðshækkunarinnar. Jafnvel þótt nú sjáist þess nokkur merki að olíuverðið sé á niðurleið er engu að síður ljóst að sú hækkun olíuverðs úr 57.50 kr. í 68.90 kr. á hvern lítra, sem þegar er komin fram, er ofviða stórum hluta fiskiskipaflotans. Óvissan í olíuviðskiptum gerir að verkum að ekki verður metið með vissu hvort verðhækkun sú, sem orðið hefur, er tímabundin eða varanleg. Skynsamlegast virðist að snúast við áhrifum hennar í fyrstu þannig, að hún raski sem minnst verðlagi í landinu, en þó þannig að fullt mið sé tekið af þeirri nauðsyn sem er á því að hvetja til olíusparnaðar þegar í stað. Af þeim sökum verður ekki farið út á þá braut að greiða olíuverðið niður. Hins vegar þarf að auka tekjur útgerðarinnar til þess að hún geti yfirleitt staðið undir auknum olíukostnaði.

Hlutaskiptaákvæði kjarasamninga sjómanna og útvegsmanna gera það að verkum, að ekki er unnt að mæta kostnaðarauka af þessu tagi með hækkun almenns fiskverðs án þess að hlutir sjómanna hækki um leið. Þetta þýðir einfaldlega, að til þess að koma til skila fjármunum til að standa undir 10 kr. olíuhækkun þarf að óbreyttu 17 kr. tekjuauka hjá útgerðinni. Forustumenn sjómannasamtakanna hafa lýst því yfir, að þeir vilji ekki hagnast á því óhappi sem olíuverðshækkunin er fyrir þjóðina. Fullt samráð hefur verið haft við sjómannasamtökin um þetta mál, og láta þau óátalið að tímabundið olíugjald af því tagi, sem lagt er til í 1. gr. þessa frv. og er meginefni þess, verði á lagt. Þessi afstaða er á því byggð, að olíuhækkunin kunni að vera tímabundin og ákvæðin um olíugjald verði endurskoðuð þegar á árið líður. Fulltrúar sjómanna andmæla hins vegar ákvæðum 2. gr. um 1% frádrátt frá söluverðmæti við landanir erlendis og benda á að útvegsmenn fái 1% lækkun á útflutningsgjaldi af söluverðmæti erlendis samkv, því frv. sem flutt er jafnhliða þessu og ég mun víkja nánar að síðar.

Frv. það, sem hér er flutt, hefur einnig verið kynnt Landssambandi ísl. útvegsmanna og samtökum fiskvinnsluaðila og geta þeir í meginatriðum fallist á þessar till., en benda á að mikilvægt sé að frádráttur samkv. 2. gr., er um var getið áðan, verði helst meiri, eða a. m. k. svo hár sem hér er lagt til, til þess að skiptakjör við landanir erlendis verði ekki sjómönnum hagstæðari en við heimalöndun. Fulltrúar fiskvinnslunnar benda á að mikilvægt sé að takmarkaður afli verði sem mest nýttur hérlendis.

Jafnframt þessu frv. er flutt annað frv. því tengt, sem kveður á um lækkun útflutningsgjalds af sjávarafurðum úr 6% af fob.-verðmæti í 5% til þess að gera fiskvinnslunni auðveldara að rísa undir þeim kostnaðarauka, sem olíugjaldið felur í sér. Þetta er mögulegt vegna þess að sjóðir þeir, sem útflutningsgjalda njóta, eru nú vel stæðir fjárhagslega og því unnt að draga nokkuð úr tekjum þeirra án þess að það komi niður á verkefnum þeirra að svo stöddu. Með þessum hætti er því snúist við olíuvandanum án þess að stofna til niðurgreiðslna á olíu og án þess að stækka sjóðakerfi sjávarútvegsins. Hvort þessar ráðstafanir eru fullnægjandi verður tíminn að leiða í ljós.

Eins og ég gat um áðan er áætlað að hækkun gasolíu í 68.90 kr. á hvern lítra valdi útgerðinni um 2000 millj. kr. útgjaldaauka á ári. Ef þessu yrði mætt að fullu með hækkun fiskverðs þyrfti álag á fiskverð því að verða að meðaltali 4.4% að teknu tilliti til aflahluta, en 2.9% ef álagið kemur utan hlutaskipta og aflaverðlauna. Í frv. þessu er gert ráð fyrir almennu 2.5% álagi á fiskverð til útgerðar og kemur það ekki til hlutaskipta eða aflaverðlauna. Gera má ráð fyrir, að olíugjald samkv. frv. þessu muni á ári nema um 1600 millj. kr. fyrir útgerðina í heild, þannig að til að mæta því, sem á vantar, verður að koma sparnaður og/eða fiskverðshækkun. Nýtt fiskverð verður ákveðið frá 1. mars, þ. e. a. s. frá deginum í dag, og er við því að búast að fiskverðið hækki nú sem nemur þeim mun sem almenn launahækkun fer fram úr 5% í dag, og verður sú tilkynning væntanlega gefin út í dag. Hér et um 1.9% að ræða, sem vænta má að dugi til að fleyta útgerðinni yfir þennan erfiða áfanga og bæta nokkuð stöðu bátaflotans sem nú er afar erfið. Hins vegar veldur olíuhækkun og fylgjur hennar óhjákvæmilega versnandi afkomu fiskvinnslu og þar með þrýstingi á gengið og ýtir undir verðbólgu í landinu. Hækki olíuverð enn, t. d. í 100 kr., verður tekjuskiptingarvandinn í sjávarútvegi mun erfiðari viðfangs og þrengist þá hagur sjávarútvegs í heild, og reyndar þjóðarinnar allrar, að óbreyttu markaðsverði afurða og þyrfti þá stórtækari aðgerðir en nú eru ráðgerðar.

Ég leyfi mér að leggja til að þessu máli verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn. þessarar d. En mikilvægt er að það fái skjóta meðferð þannig að það geti orðið að lögum þegar um þessi mánaðamót og þá um leið og nýtt fiskverð gengur í gildi. Því leyfi ég mér að fara fram á það við d. og hv. sjútvn., að þetta frv. verði afgreitt frá d. í dag og afbrigða verði leitað svo að það megi gerast.