01.03.1979
Neðri deild: 56. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2921 í B-deild Alþingistíðinda. (2314)

203. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. meiri hl. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að láta það koma fram, að ég hef grun um að það verði ekki aðeins hin órólega deild Alþfl. sem á eftir að lýsa sérstakri ánægju með hæstv. viðskrh. Ég heyrði það hér niðri í sal rétt áðan frá einum traustasta stuðningsmanni hæstv. ráðh., að honum hafi tekist að afsanna það í 6 mánaða setu í stól viðskrh. í þessari ríkisstj, sem hann hefði leitast við að sanna með 6 ára setu í stól ritstjóra Þjóðviljans, og jafnframt, að það skyldi þó ekki vera að einkum og sér í lagi sú stétt manna sem hæstv. viðskrh. hefur skrifað mikið og skrafað um, sú stétt sem kennd er oft við heildverslun og innflutning, ætti þegar upp er staðið eftir að vera álíka þakklát og ánægð með hæstv. viðskrh. í starfi eins og sumir Alþfl. menn eru. (Gripið fram í: Má ég frekar biðja um heildsalana.) Já, það getur vel verið að hæstv. viðskrh. fái þakkirnar frekar frá þeirri ágætu stétt manna, en þá held ég að hv. formaður þingflokks Alþb., Lúðvík Jósepsson, muni segja „njet“.