02.03.1979
Efri deild: 64. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2928 í B-deild Alþingistíðinda. (2329)

56. mál, Hæstiréttur Íslands

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil ekki fremur en hv. 3. landsk. þm. fara að efna til neinna deilna um þetta frv. hér. En það eru örfá atriði sem ég vil koma inn á í framhaldi af ræðu hans.

Hv. þm. sagði réttilega, að það væri ekki æskilegt að hringla mikið með málefni þessa æðsta dómstóls þjóðarinnar. Ég tel að það hafi ekki verið gert, t. d. að því er snertir fjölda dómara. Að undanskildu því, að dómurum var fjölgað um einn fyrir fjórum árum, hefur þeim, eins og fram kemur í aths. með frv., ekki verið fjölgað í þriðjung aldar.

Það er satt, að það kemur ekki fram í aths. með frv. samanburður á fjölda mála fyrr á árum og aftur núna. Það er ekki settur upp slíkur samanburður í aths., heldur aðeins getið um þann mikla málafjölda, sem nú kemur fyrir Hæstarétt árlega. En það hef ég fyrir satt, að miðað við t. d. það tímabil, sem ég nefndi áðan, hafi málum fjölgað mjög mikið, enda liggur það í hlutarins eðli. Þjóðinni hefur fjölgað og allt mannlíf er orðið flóknara en áður. Það er staðreynd, að það gengur seint að afgreiða mál frá Hæstarétti, þ. e. a. s. mál liggja þar nokkuð. Þetta er ekki vefengt. Það, sem fyrst og fremst virðist vaka fyrir ráðh. með því að fjölga dómurum núna, er að rýmka ákvæðið um þriggja dómara dóm, rýmka þá heimild og gefa þar með möguleika til þess að fjalla í vaxandi mæli, eins og það er orðað, um kærumál, minni háttar einkamál og minni háttar sakamál í tveimur dómum. Ég vil leggja áherslu á það, að ekki er verið að brjóta þarna upp á nýrri hefð eða starfsvenju í Hæstarétti, heldur hefur þetta þriggja dómara kerfi verið notað áður í nokkur ár, þ. e. síðan fjölgað var í réttinum. Ég er ekki svo fróður að ég geti fullyrt hvort það var borið við áður. Það virðist vera samdóma álit Hæstaréttar sjálfs, lagadeildarinnar og lögmanna, sem leitað var umsagna hjá, að þetta kerfi hafi gefist vel. Þá finnst mér ekkert óeðlilegt þó að menn, eftir að hafa reynt það í litlum mæli í nokkur ár, láti sér nú detta í hug að færa það nokkuð út og þá með þessu móti.

Hv. þm. minntist á það, að fjárveitingavaldið hefði verið tregt til að leyfa aukið starfslið í Hæstarétti. Almennt talað get ég alveg fallist á það með honum, að mér virðist stundum að fjárveitingavaldið: hagsýslan og fjvn. og auðvitað við sem höfum starfað í Alþ., því ekki er hægt að mæla sig þar undan ábyrgð, — það líti ekki nógu raunhæft á þessi mál og spari stundum eyrinn, en kasti krónunni að því leyti, að það er neitað um ódýrara starfsliðið. Menn fá ekki aðstoðarmenn eftir þörfum, sem er þó ódýrara vinnuafl en sérfræðingarnir, hvort sem það er í þessari fræðigrein eða annarri, og af þessum sökum vinnast málin verr. Alltaf verður þó að taka það fram, þegar verið er í gagnrýnistón að tala um ráðstafanir til þess að halda í og hemla, þá verður líka að viðurkenna það, að þeir, sem þessi verk vinna, liggja undir látlausri skothríð úr öllu kerfinu. Það er auðvitað erfið staða, því jafnframt erum við alltaf að gagnrýna þensluna.

Varðandi það að leysa vandamál Hæstaréttar með þessu móti, að láta nú kyrrt liggja um fjölgun dómara og reyna þá heldur að knýja á við fjárlagagerð á næsta ári að fá fleira aðstoðarfólk, þá get ég ekki fallist á að það sé skynsamlegt. Ég veit ekki nema það verki öfugt á fjárveitingavaldið þegar Alþ. sjálft hefur neitað um viðbótardómara, væntanlega á þeim forsendum að hans sé ekki þörf. Ég held því að það sé ekki rétt að vísa hreinlega til aðgerða fjárveitingavaldsins í þessu máli og á þennan hátt.

Það var fleira, sem kom fram í máli hv. þm., og auðvitað er þetta allt saman álitamál. En út af því sem hann minntist á um breytingar á lægri dómstigum, þá hafa þær verið í undirbúningi og verið er að vinna að lagafrv. um það efni. Var svolítið rætt um það við ráðuneytisstjórann í dómsmrn. þegar hann kom á fund n. og svaraði þar nokkrum fsp. Það var ekki skoðun hans, að það væri nein trygging fyrir því, þó að breytt yrði til þar, að að verulegu marki fækkaði þeim málum sem til Hæstaréttar fara.

Ég vildi sem sagt láta þetta koma fram og vil aðeins segja það að lokum, árétta það, að það er staðreynd að í Hæstarétti er mikill fjöldi mála. Menn eru sammála um að það gangi ekki nógu greiðlega að afgreiða þau. Ég tel þess vegna rétt að verða við þeim tilmælum, sem í frv. felast, og samþ. frv.