31.10.1978
Sameinað þing: 11. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í B-deild Alþingistíðinda. (234)

323. mál, málefni áfengissjúklinga

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það er ekki að ástæðulausu að um þessi mál sé spurt og þau rædd. Ég vil láta það koma fram, að ég tel að á undanförnum árum og raunar í fjöldamörg ár hafi framlag til gæsluvistarsjóðs verið allt of lágt og ekki náð nokkurri átt að lækka það frá tillögum rn. eins og raun ber vitni við afgreiðslu fjárl. En nú, þegar til máls hafa tekið stjórnarsinnar úr tveimur stjórnarflokkum og lýst yfir miklum áhuga sínum á því að auka og efla gæsluvistarsjóð, þá vil ég í fullri vinsemd benda þeim á að í fjárl. ársins í ár eru 63 millj. til gæsluvistarsjóðs í þessu skyni, og þar eru verkefnin mörg. Þetta er allt of lág upphæð. Nú er gripið til þess að skera þennan sjóð niður um 20 millj. eða um rúmlega 30%. Mun koma fram á 5. lið dagskrár þessa fundar fsp. frá mér um niðurskurð fjárl. Ég vil benda þessum áhugamönnum um málefni gæsluvistarsjóðs og málefni áfengissjúkdómsins á, að það er ekki rétta leiðin til þess að ná settu marki að skera niður um þriðjung það lága framlag sem er í fjárl. yfirstandandi árs.