05.03.1979
Efri deild: 66. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2935 í B-deild Alþingistíðinda. (2344)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Ólafur Ragnar Grímsson, [frh.]:

Herra forseti. Það er nú nokkuð liðið síðan hv. flm. Ragnhildur Helgadóttir flutti hér eins og hálfs klukkustundar framsöguræðu fyrir frv. Sú ræða hefur verið gefin út nú þegar í þingtíðindum og jafnframt þær aths. sem ég gerði upphaflega við málflutning hennar. Þegar við höldum nú áfram umr. um þetta frv. vil ég strax í upphafi gera skýran greinarmun annars vegar á ýmsum þeim efnisatriðum, sem í þessu frv. er að finna, og hins vegar á þeirri framsöguræðu, sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir flutti hér fyrir málinu.

Eins og ég vék að í upphafsorðum mínum fyrir 2–3 vikum, notaði hv. flm. tilefnið, sem framsöguræðan gaf, til þess að ráðast í löngu máli á nokkra unga íslenska fræðimenn sem hafa stundað rannsóknir á unglingum í þágu sálarfræði uppeldisfræði og annarra þeirra fræðigreina sem nauðsynlegar eru til þess að fá á okkar tímum ítarlega þekkingu um skólann sem félagsstofnun.

Það ber vissulega að harma að hv. flm., Ragnhildur Helgadóttir, skyldi finna sig knúna til þess að flytja hér inn í þingsalina slíkan málflutning í garð þessara ungu fræðimanna. Ef það hefði verið ætlun flm. að taka eingöngu fyrir efnisatriði frv., þ. e. a. s. knýja á um breytingar á heimildum til þess að stunda rannsóknir í skólum, og svo hins vegar að breyta ákvæðum grunnskólalaga um fræðslu um trúar- og lífsskoðanir, — ef það hefði verið tilgangur flm. að fjalla um þessi efnisatriði, þá hefði ekki verið nokkurt tilefni til þess að ráðast svo á þessa ungu fræðimenn sem hv. flm. gerði. Hins vegar verður það augljósara við lestur Morgunhlaðsins þessar vikurnar og fréttir af flokksstarfi Sjálfstfl., hver er raunverulegur tilgangur þessa frv. og þeirrar ræðu sem flm. flutti. Það virðist vera sem svo, að í málefnafátækt sinni, í stjórnmálalegri vesöld sinni og í því uppgjafar- og aumingjaskaparástandi, sem nú virðist vera ríkjandi í herbúðum Sjálfstfl., sjái hann það einna vænlegast sjálfum sér til fylgisöflunar að taka fyrir verk nokkurra ungra fræðimanna og reyna að tortryggja og ráðast á þessi verk eftir bestu getu og það á þeim vettvangi þar sem þessir fræðimenn geta ekki komið vörnum við, eins og hér á hv. Alþ. Þetta er svo gert með fögur orð kristindómsins og fögur orð umhyggju fyrir börnum og unglingum að yfirvarpi. Í raun og veru er hér á ferðinni frekar ómerkileg gamalkunn pólitísk brella sem hefur það falið í sér, að þeir, sem telja sig standa illa á atkvæðamarkaðnum, ef svo má að orði komast, fara í nafni kristindóms og góðra siða, verndunar fjölskyldu, barna og unglinga að ráðast á fræðimenn, ráðast á þá, sem eru að reyna að útvíkka svið mannlegrar þekkingar, og gera öll þeirra verk eins tortryggileg og hægt er til þess að Sjálfstfl. geti halað inn á því atkv.

Í þeim upphafsorðum, sem ég lét hér falla fyrir 2–3 vikum, minntist ég á það, að það er ekki nýtt í mannlegri sögu að íhaldsöfl af þessu tagi telji það sjálfum sér þóknanlegt og þjóna pólitískum markmiðum sínum að fara slíkar krossferðir gegn fræðimönnum, vekja slíka tortryggni á þeim, sem eru að brjóta nýjar brautir fyrir mannlega þekkingu, reyna að gera verk þeirra tortryggileg, reyna að sverta starf þeirra á allan hátt og er krefjast þess í nafni kristindóms og góðra siða, að þessum fræðimönnum verði meinað að sinna sínu starfi.

Ég minnti í því sambandi á það, að þegar fræðigreinar á sviði eðlis- og efnafræði voru að brjóta braut nýrri þekkingu á heimsmynd mannsins, þá bar það líka við, að íhaldssamir pólitíkusar af því tagi, sem Ragnhildur Helgadóttir hv. þm. virðist vilja skipa sér í flokk með, fóru slíkar herferðir gegn þessum fræðimönnum. Ég minnti á það, að í Suðurríkjum Bandaríkjanna var frægt mál, þar sem ungur kennari var sóttur til saka fyrir dómstólum fyrir að fjalla um þróunarkenningu Darwins í skólastofunni. Það er hægt að nefna fjölmörg önnur dæmi þessu til stuðnings. Ætíð þegar ýmsar nýjar fræðigreinar eru að reyna að afhjúpa ýmiss konar fordóma, ýmiss konar vanþekkingu, þá rísa upp íhaldsöfl, sem telja sig hafa pólitíska hagsmuni af því að varðveita óbreytt ástand og fara í herferð gegn þessum fræðimönnum. Eins og ég sagði við upphaf þessarar umr., þá finnst mér það eitt hið ljótasta í þessum leik þegar þessi öfl telja sig heyja slíka baráttu í nafni kristinnar trúar.

Ég benti einnig á það í þessu samhengi, að það vill svo einkennilega til hér á Íslandi, að þeir tveir meginstraumar, sem erlendis hafa verið aðgreindir í óskylda stjórnmálaflokka, hugmyndafræði frjálshyggjunnar og hugmyndafræði íhaldsstefnunnar, hafa hér á Íslandi runnið saman í einn og sama flokkinn. Það er stundum dálítið erfitt að átta sig á því, til hvaða flokks ýmsir af forystumönnum Sjálfstfl. í raun og veru eiga að teljast. Þetta hefur einkum og sér í lagi verið erfitt nú á síðari árum þegar ýmsir af forsvarsmönnum Sjálfstfl. hafa í hugmyndafræðilegri fátækt sinni tekið upp á arma sína ýmsar hugmyndir erlendra frjálshyggjumanna og farið að reyna að gera þær að boðskap Sjálfstfl. Þess vegna er það út af fyrir sig þakkarvert, að við og við skuli hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir rísa hér upp á Alþ. og minna okkur og þjóðina á það, hvert er hið raunverulega íhaldsinnihald þeirrar stefnu Sjálfstfl. sem hún telur sig vera fulltrúa fyrir, hvort sem það er í ræðuflutningi hér á Alþ. um Félaga Jesú eða í þeirri framsöguræðu sem hún flutti hér um þetta mál. Það er svo mál Sjálfstfl., en ekki okkar hér, hvort hann telur það vera nauðsynlegan þátt í sinni pólitísku endurreisn að fara herferð gegn þeim ungu fræðimönnum á sviði margvíslegra mannvísinda sem hér hafa á undanförnum árum verið að hasla sér völl í rannsóknum á íslensku þjóðfélagi. En það verður mjög fróðlegt að fylgjast með þessum herferðum Sjálfstfl. gegn ungum menntamönnum, gegn ungum skáldum og gegn ungum vísindamönnum, hvort sem það er þýðandi F'élaga Jesú eða þeir fræðimenn sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir varði mestum hluta framsöguræðu sinnar til þess að tortryggja og ráðast á hér í þingsölunum eftir bestu getu.

Ekki ætla ég í sjálfu sér að lasta að þessi fulltrúi Sjálfstfl. skuli koma svona skýrt og greinilega til dyranna eins og hún og hennar flokksbræður virðast greinilega vera klæddir hugmyndafræðilega séð. ®g ég get fullvissað hana um að við munum vissulega ekki láta það hjá líða, að þessi andfélagslegu viðhorf, þessi andfræðilegu viðhorf, þessi þekkingarfjandsamlegu viðhorf, sem allur hennar málflutningur bar keim af, skulu fá að komast til skila. Og fyrst hv. þm. hefur kosið að gera Alþingi Íslendinga að vígvelli baráttunnar um framgang fræðilegrar þekkingar á Íslandi, gera hana að vígvelli baráttunnar um það, hvað megi rannsaka og hverjir megi rannsaka hvað snertir þjóðfélagslegar og mannvísindalegar rannsóknir, þá er alveg sjálfsagt að taka þátt í þeirri umr. Ég hefði hins vegar kosið það, að Alþingi Íslendinga hefði verið hlíft við málflutningi af því tagi sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir varði hér einum og hálfum klukkutíma til þess að koma á framfæri, vegna þess að ég hélt satt að segja að það væri liðin tíð, að það þyrfti að standa hér á Alþ. í vörn vegna tilrauna skammsýnna, þröngsýnna og íhaldssamra stjórnmálamanna til þess að leggja steina í götu og tortryggja starf ungra vísindamanna. En eins og ég sagði áðan, þá er greinilegt að ræða hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur er bara liður í herferð Sjálfstfl. gegn mannvísindunum, herferð Sjálfstfl. gegn rannsóknum á félagslegum vandamálum þessa þjóðfélags og í raun og veru herferð Sjálfstfl. gegn andlegu frelsi.

Ég sagði áðan að margt af því, sem er að finna í frv. þm. og grg., er fyllilega eðlilegt og í raun og veru hægt að styðja. En það, sem gerir málið hins vegar allt annarrar tegundar, er röksemdafærslan með frv., tilgangur flutningsins, sem greinilega kom fram í framsöguræðu hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur og þeirri fundarherferð og þeim blaðaskrifum sem Morgunblaðið og Sjálfstfl. hafa verið með í kringum þetta mál. Ég tel þess vegna að það sé alveg nauðsynlegt að greina í þessum umr. á milli þriggja þátta. Í fyrsta lagi nauðsynjar þess að setja reglur um rétt manna til þess að stunda rannsóknir í skólum og rannsóknir á börnum og unglingum og reyndar öðrum þjóðfélagshópum, því að það eru sjálfsagt fleiri í þessu þjóðfélagi, sem þarf að vernda fyrir vísindamönnunum, ef má orða það þannig, heldur en börn og unglingar. Ég mun koma að því hér á eftir. Í öðru lagi er síðan sú hatramma árás á rannsóknir þessara tilteknu fræðimanna, sem þm. hefur gerst aðaltalsmaður fyrir, og í þriðja lagi er síðan 1. gr. frv., sem í raun og veru fjallar um allt annað en ákvæðin um aðgang að rannsóknum í skólum og miðar fyrst og fremst að því, eins og flm. sjálfur rakti hér ítarlega, að reyna að hindra það sem hún kallaði óeðlilegan áróður í skólum.

En áður en ég kem að þessum atriðum vil ég aðeins minna hv. þdm. á að það er ekkert nýtt á Íslandi að sálfræðingar og aðrir mannvísindamenn og læknar stundi margvíslegar rannsóknir á einstaklingum: börnum, unglingum og fullorðnum. Það er ekkert nýtt. Hér hafa verið um árabil stundaðar margvíslegar rannsóknir, sem vissulega eru um viðkvæm efni, persónulega viðkvæm efni, rannsóknir á þjóðfélagshópum sem við teljum sjálfsagt öll að þurfi að fara mjög varlega með hvað snertir rannsóknir. Það er hins vegar sameiginlegt með þessum rannsóknum, eins og rannsóknum þeirra ungu fræðimanna sem hv. flm. gerði hér að umtalsefni, að þessir fræðimenn reyna að fara vandlega með sínar heimildir, og umfram allt beinist athygli þeirra ekki að einstaklingum eins og hv. flm. virðist annaðhvort af pólitískri illkvittni eða vankunnáttu halda, heldur fyrst og fremst að hópum, félagslegum hópum af ýmsu tagi til þess að reyna að kanna samspil orsaka í þróun ýmissa félagslegra fyrirbæra og í meðferð félagslegra vandamála. Hér er ekki verið að rannsaka einstaklinga. Hér er ekki verið að taka Jón Jónsson eða Pál Pétursson eða Pétur Pálsson eða aðra slíka til meðferðar og rannsaka þá, heldur er verið að taka til skoðunar hópa, félagslega hópa sem hafa ýmis sameiginleg einkenni, hvort sem það eru unglingar í skólum, áfengissjúklingar, geðveilt fólk af ýmsu tagi eða aðrir. Það er heldur ekkert nýtt, að það sé safnað mjög ítarlegum upplýsingum um nána persónuhagi fólks og þessar upplýsingar séu teknar í tölvur, geymdar á tölvuböndum, unnið úr þeim og skrifað um þær ritgerðir, þar sem sjálfsagt væri hægt að finna út nöfnin á einstaklingunum ef menn væru nægilega illkvittnir eða hefðu á því áhuga.

Einn íslenskra fræðimanna hefur hvað mest stundað rannsóknir á þessu sviði og hann hefur getið sér alþjóðlegt orð. Hann hefur þróað nýtt svið í sinni fræðigrein og jafnframt eflt íslensk mannvísindi og sálarfræði á þessu sviði. Hann hefur tekið til meðferðar margvíslega þjóðfélagshópa, unga sem gamla, sem eiga um sárt að binda, aflað ítarlegra upplýsinga um nákvæma persónulega hagi þessa fólks og unnið upp úr þessu fræðiverk. Enginn hefur neitt haft við þessar rannsóknir að athuga. Enginn hefur fundið ástæðu til þess að tortryggja þessar rannsóknir dr. Tómasar Helgasonar prófessors. Þær hafa verið veigamikið spor í þróun íslenskrar sálfræði og mannvísinda. Rannsóknir hans, og ég tek þær bara sem dæmi hér, á áfengissjúklingum og geðheilsu eru aðeins eitt dæmi af mörgum um aragrúa af rannsóknum sem hér hafa verið stundaðar, þar sem gagnaöflun á nákvæmum, persónulegum högum einstaklinga hefur átt sér stað. Rannsóknir dr. Tómasar Helgasonar prófessors eru með því besta, sem gert hefur verið á þessu sviði. Ég held að það beri frekar að fagna því heldur en lasta það og hvað þá að telja það tilefni til þeirrar pólitísku ófrægingarherferðar sem hv. flm. hafði hér uppi, að ungir sálfræðingar og fræðimenn skuli vilja taka sér þessa fremstu íslensku fræðimenn, eins og dr. Tómas Helgason prófessor, til fyrirmyndar, afla upplýsinga um á hvern hátt ýmis persónuleg vandamál hjá ýmsum félagshópum, afstaða til áfengisneyslu, afstaða til kynlífs, afstaða til heimilishalds, þróun geðræns ástands yfir lengri tíma og í tengslum við félagsleg einkenni, — hvernig allir þessir þættir spila saman.

Þessi sami fræðimaður, dr. Tómas Helgason, hefur einnig unnið mjög ítarlega könnun á sjómönnum, þar sem aflað var upplýsinga um persónulega hagi þeirra og fjölskyldna þeirra, kynlífsreynslu, sjúkdóma og annað mjög ítarlega, og með álíka vilja og prófessor Ragnar Ingimarsson setur fram í Morgunblaðsgrein, sem ég mun koma að hér á eftir, væri sjálfsagt hægt að rekja hverjir þessir einstaklingar eru. Allar þessar rannsóknir eru nauðsynlegur þáttur í því að þróa fræðilega þekkingu á samfélaginu, á margvíslegum hópum þess og á þeim félagslegu vandamálum, sem við eigum við að glíma. Það er ekki tilefni til þess að fara einhverja pólitíska herferð gegn þessum rannsóknum né þeim rannsóknum sem hv. þm. gerði hér að umtalsefni, þótt sjálfsagt megi eitthvað að þeim finna, bæði frá aðferðafræðilegu sjónarmiði og eins frá sjónarmiði ályktana.

Það er nú einu sinni þannig, þótt hv. flm. sé það kannske ekki kunnugt, en hver einstakur fræðimaður á þessum sviðum hefði getað upplýst hv. flm. um með lítilli fyrirhöfn, að á þróunarstigi þessara fræðigreina á okkar tímum er í flestöllum tilfellum það fleira, sem er gagnrýnivert, það fleira, sem má benda á að betur megi fara, það fleira, sem aths. má gera við, heldur en það sem er í raun og veru ávöxturinn af hverri einstakri rannsókn. Slík gagnrýni, slík umr. á jákvæðan, gagnrýnan hátt um fræðiverk af þessu tagi er einmitt forsenda fyrir framþróun fræðigreinanna. Það er nánast hægt að taka hverja einustu rannsókn, sem hér hefur verið gerð eða annars staðar á núverandi þróunarstigi sálarfræði og annarra greina mannvísinda, líka rannsóknirnar um áfengisneyslu og geðræn vandamál eða sjómannarannsóknina sem dr. Tómas Helgason stóð fyrir, og gera hana tortryggilega með nákvæmlega sömu aðferðum og hv. þm. beitti hér gagnvert þeim ungu fræðimönnum sem hún kaus að gera að skotspæni sínum. En auðvitað er það ekki gert og auðvitað verður enginn til þess, vegna þess að við ætlum ekki að taka þátt í þessari ófrægingarherferð gegn mannvísindunum, sem hv. þm. og ýmsir fulltrúar Sjálfstfl. virðast telja nauðsynlegan lið í endurreisn Sjálfstfl. Hitt þykir okkur verra, að þessar pólitísku hetjur, Ragnhildur Helgadóttir og samflokksmenn hennar, skuli ekki reisa merkið hærra, en beina spjótum sínum eingöngu að þessum hópi ungra fræðimanna og lokaritgerðum þeirra við erlendan háskóla. Ef þeir hefðu virkilega ætlað að ríða sem hetjur um þessi vísindalegu héruð, þá hefðu rannsóknirnar á áfengisneyslu og geðheilsu og sjómannakönnunin mátt koma fyrr.

Hér er starfandi í landinu stofnun, Erfðafræðinefnd, sem hefur safnað miklu ítarlegri og miklu nákvæmari upplýsingum um persónuhagi og persónulegan feril fólks heldur en kemur fram í þessari rannsókn sem hv. þm. gerði að umtalsefni hér. Ef það er virkilega ætlun þm. að fara að taka til meðferðar spurninguna um rétt til upplýsingaöflunar um persónuhagi og persónuleg einkenni hópa og einstaklinga, hvers vegna í ósköpunum tekur hún þá ekki starfsemi Erfðafræðinefndar til meðferðar? Hvers vegna í ósköpunum greinir hún ekki frá þeirri ítarlegustu upplýsingaöflun um slíka hagi sem hér fer fram í landinu? Hvers vegna í ósköpunum kýs hún eingöngu að taka til meðferðar verk nokkurra ungra fræðimanna sem engum vörnum geta við komið hér í sölum Alþingis? (RH: Ég veit ekki til að þessir fræðimenn séu nokkuð á móti því, að sett séu lög um þetta efni.) Ég sagði áðan, hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir, að því miður verður maður að gera mikinn greinarmun á þeim texta, sem er í þessu frv. til l. og er, eins og ég sagði áðan, að mörgu leyti þess eðlis, að hægt er að styðja ýmislegt í honum, og jafnvel í grg. og þeirri löngu framsöguræðu sem flutt var um þetta mál og var allt annars eðlis. (RH: Það er hugarfarið.) Nei, það er ekki hugarfarið, það er orðræða hv. flm., það er tilefni frv.-flutningsins og það tækifæri sem hún notaði hér til þess að verja meginhluta ræðu sinnar til þess að fjalla eingöngu um þessa svokölluðu Árósarannsókn. Það var alveg ljóst af málflutningi hennar, svo og skrifum í Morgunblaðinu, sem birst hafa síðan um þetta, að það er verið að nota verk ungra fræðimanna til þess að ala á tortryggni, til þess að koma inn vantrausti í garð rannsókna af þessu tagi og til að réttlæta frv. af þessu tagi með slíkum árásum, — tilefnislausum árásum á unga fræðimenn. Það er það sem ég er að gera aths. við, og hv. þm. getur varla kveinkað sér undan því, að það meginefni, sem hún gerði grein fyrir í sinni ræðu, sé hér tekið til meðferðar. Ef það kom málinu ekkert við, þá var engin þörf fyrir hv. þm. að flytja um það svo langt mál sem hún gerði í sinni framsöguræðu.

Staðreynd málsins er nefnilega sú, að sú rannsókn, sem hér var gerð að svo ítarlegu umræðuefni, er aðeins lítið brot af þeim miklu rannsóknum sem hafa farið fram og fara nú fram. Sú upplýsingaöflun, sem þessir ungu fræðimenn framkvæmdu í grunnskólum, er aðeins lítið brot af margvíslegri upplýsingasöfnun um persónuhagi og lífsferil einstaklinga og hópa. Vissulega er það alveg rétt hjá hv. flm., að það þarf að setja reglur. En það þarf þá ekki eingöngu að setja þær reglur gagnvart rannsóknum í grunnskólum, heldur þyrfti þá líka að setja þær reglur gagnvart rannsóknum á sjúklingum t. d., rannsóknum á geðveilu fólki t. d., eða ýmsum öðrum sem menn telja nauðsynlegt að varðveita gagnvart rannsóknum af þessu tagi. Og ef menn hafa einhverja ástæðu til þess að vantreysta heiðarleika þessara fræðimanna, sem fá þessi gögn til geymslu, þá er nauðsynlegt að setja reglur ekki bara um geymslu í gögnum rannsókna sem fara fram í grunnskólunum, heldur líka þeim, sem fara fram í tengslum við sjúkrahúsin, fara fram í tengslum við ýmiss konar stofnanir, sem einstaklingar dvelja á, o. s. frv. Þegar hv. þm. spyr hér með tortryggni og mjög retorískum hætti í sinni framsöguræðu: hvar eru spólurnar? — þá er í raun og veru verið að gera því skóna, að spólurnar séu geymdar einhvers staðar þar sem fræðimennirnir ætla að hafa af þeim einhvern hag. Þetta er nákvæmlega sama hugarfarið og kemur fram hjá prófessor Ragnari Ingimarssyni, sem flm., ef ég man rétt, gerði að ítarlegu umræðuefni hér, því að ég held að hún hafi lesið hér upp úr grg. hans, enda birtist þessi texti í Morgunblaðinu nokkrum dögum síðar. Ég ætla — með leyfi hæstv. forseta — að lesa upp úr þessari grg., vegna þess að hún lýsir ósköp vel hvers eðlis þessi herferð er gegn þessum ungu fræðimönnum, og hvers konar frækornum tortryggninnar gagnvart mannvísindunum er hér verið að sá.

Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir gerir sjálfsagt þessi orð Ragnars Ingimarssonar að sínum og þau eru þannig, með leyfi hæstv. forseta, eins og þau komu fram í Morgunblaðinu fyrir nokkru:

„Í spurningaskrám er ítarlega spurt um afstöðu barnsins til fíkniefna. Ekki væri ónýtt fyrir fíkniefnasala að hafa þessar upplýsingar til að ná tökum á viðkomandi. Ítarleg svör um afbrot, afstöðu til lagabrota, kynferðismál, skapferli, innræti og hugsunarhátt viðkomandi má auðveldlega nota til þvingana gagnvart þessum unglingum, jafnvel mörgum árum eftir að könnunin var gerð.“ Og síðan kemur: „Með þessum orðum er ekki látið að því liggja að þeir, sem að könnuninni stóðu, hafi ætlað að misnota gögnin.“ Til hvers er þá verið að setja þessi orð fram? Til hvers? Til hvers er verið að gera því skóna, að þessir ungu fræðimenn ætli sér að nota þessar upplýsingar til að selja þær fíkniefnasölum sem geti síðan grætt á því að selja fíkniefni unglingum sem í einhverri könnun hafa e. t. v. látið í ljós einhvern áhuga á slíku? Það dettur ekki nokkrum lifandi manni í hug að halda að dr. Tómas Helgason muni selja sprúttsölum aðgang að upplýsingum sínum eða rannsóknum á áfengisneyslu og geðrænum vandamálum.

Prófessor Ragnar Ingimarsson og aðrir þeir, sem taka þátt í þessari herferð, hafa ekki verið að skrifa greinar þar sem þeir hafa bent á gróðamöguleika Tómasar Helgasonar eða annarra, sem hafa framkvæmt slíkar rannsóknir, ef þeir færu að selja þær sprúttsölum. En jafnfáránlegt er að reyna að gera þessa rannsókn þessara ungu fræðimanna tortryggilega með því að benda á það, að þeir gætu hugsanlega selt fíkniefnasölum þessar upplýsingar einhvern tíma síðar. En þessi tilvitnun sýnir í raun og veru hver er andinn í þessari herferð gegn þessari rannsókn. Hún sýnir að hér eru ekki á ferðinni andstæðingar, sem í raun og veru bera umhyggju fyrir framþróun mannvísindanna. Hér er ekki heldur á ferðinni fólk sem er í raun og veru að vernda einstaklinginn. Nei, því miður er hér á ferðinni tiltölulega gamaldags og mjög ógeðfelld pólitísk herferð, sem fólgin er í því að reyna að sá fræjum tortryggni, vantrúar, hræðslu og annarra óttakenndra viðhorfa gagnvart því fólki sem stundar fræðistörf á mannlegu samfélagi, á félagshópum í þjóðfélaginu og ýmsum félagslegum vandamálum sem við eigum við að glíma, eða þeim hópum manna sem vilja rannsaka skólann sem félagsstofnun til þess að geta endurbætt hann og eflt, svo að hann stuðli að betri þroska einstaklinganna. Þetta er hin gamla herferð íhaldsins gegn framþróun þekkingarinnar, þar sem öllum herbrögðum er beitt.

Vegna þess að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir, þó að hún segi að þeir ungu fræðimenn, sem að þessari rannsókn stóðu, hafi ekkert við það að athuga að sett séu lög, og sagði með frammíkalli sínu hér áðan nánast að þeir væru henni sammála, það var helst á henni að skilja, þá ætla ég — með leyfi hæstv. forseta — að lesa hér grein frá einum þessara manna, Ásgeir Sigurgestssyni, sem var bæði svar til Morgunblaðsins og svar til Ragnhildar Helgadóttur og birtist í Morgunblaðinu fyrir rúmri viku. Þar sem hv. þm. hefur gert þessa rannsókn að ítarlegu umræðuefni, þá finnst mér rétt að þingtíðindin fái einnig að geyma aths. og svör þessara ungu fræðimanna. Þessi grein heitir: „Um ógeðfellda tilburði í Reykjavíkurbréfi“ — og er á þessa leið, með leyfi hæstv forseta:

„Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 11. þ. m. er vikið að málflutningi Ragnhildar Helgadóttur á Alþingi þar sem „hún gagnrýnir afskipti af persónulegum einkamálum unglinga í grunnskólunum og hnýsni í hagi þeirra.“ Millifyrirsögn hlaðsins yfir skrifum þessum et „Ógeðfelldir tilburðir — í nafni vísinda.“

Það hefur komið fram í máli Ragnhildar Helgadóttur í þingsölum, að áhyggjur hennar af málum þessum séu einkum sprottnar af félags- og sálfræðilegri könnun, sem gerð var í 8. bekk grunnskólans í Reykjavík í febr. 1976. Er greinilega átt við þá könnun í skrifum höfundar Reykjavíkurbréfs.

Sjö íslenskir sálfræðinemar við Árósaháskóla stóðu að könnun þessari og notuðu tölulegar niðurstöður hennar við ritgerðarsmíðar í námi sínu. Er mér undirrituðum málið skylt á þann veg, að ég var einn af nefndum sjömenningum.

Nú er það sjálfsagt og eðlilegt, að rætt sé um réttmæti og siðfræðileg atriði félagsvísindalegra rannsókna, þar sem fjallað er um atriði, sem mega teljast einkamál hvers og eins. Sömuleiðis tel ég eðlilegt, að settar séu ákveðnar reglur um slíkar rannsóknir í íslenskum skólum. Við slíkri umræðu skal síst amast út af fyrir sig. Hins vegar er óhjákvæmilegt, eigi slík umr. að fara fram af nokkru viti, að velta fyrir sér í hvaða tilgangi félags- og sálfræðilegar rannsóknir eru gerðar, hvernig að þeim er staðið og hvernig farið er með þær upplýsingar, sem gefnar eru þeim, er rannsóknina annast. Hafi höfundur Reykjavíkurbréfs velt þessum atriðum fyrir sér, hefur hann í besta falli lent á villigötum, a. m. k. hvað ofangreinda unglingakönnun varðar. Af einhverjum illskiljanlegum ástæðum virðist honum einungis hafa komið í hug, að hér hafi verið að verki „pólitíkusar á vinstri væng“ í leit að ómerkilegum kjaftasögum um einkalíf einstakra unglinga í grunnskólum borgarinnar. Trúi því hver sem vill.

Vegna þessara skrifa í Reykjavíkurbréfi verður ekki hjá því komist að gera eftirfarandi aths.:

1. Fyrrgreind unglingakönnun var gerð með fullu samþykki menntmrn. og fræðslustjórans í Reykjavík, að höfðu samráði við prófessorana í sálfræði og uppeldisfræði við Háskóla Íslands. Sá spurningalisti, sem lagður var fyrir nemendurna, var því að sjálfsögðu lagður fyrir þessa aðila til samþykktar. Auk þess var könnunin, tilgangur hennar og efni spurningalistans, kynnt ítarlega á fundi með skólastjórum viðkomandi skóla. Veittu þeir góðfúslega aðstoð sína við framkvæmd verksins. Þess má og geta, að þáverandi borgarstjóri í Reykjavík, sem vissulega er þekktur fyrir flest annað en stuðning við „pólitíkusa á vinstri væng“, greiddi götu okkar við prentun spurningalistans. Kunnum við þessum aðilum bestu þakkir fyrir veitta aðstoð.

2. Það var skýrt tekið fram við nemendur, að þeir skyldu ekki rita nafn sitt á spurningalistann. Þá var ekki spurt um atriði, sem varpað gátu ljósi á hverjir hefðu svarað einstökum spurningalistum, svo sem bekkjardeild, fæðingardag (einungis var spurt um fæðingarmánuð), nafnnúmer ellegar önnur persónuleg auðkenni. Einu auðkenni spurningalistanna voru númer, sem notuð voru til að geta borið saman hin ýmsu skólahverfi borgarinnar, enda var að sjálfsögðu aldrei ætlunin að afla upplýsinga um ákveðna einstaklinga, heldur skyldi reynt að draga upp mynd af unglingahópnum sem heild. Allar dylgjur höfundar Reykjavíkurbréfs um, að hér hafi verið á ferðinni „pólitíkusar á vinstri væng“, sem hafi viljað „lykta af hvers manns koppi“, eru því gersamlega tilhæfulausar og út í hött.

3. Hér voru hins vegar á ferðinni nokkrir sálfræðinemar, sem vildu afla upplýsinga um 14 ára unglingahópinn sem heild. Tilgangur okkar var nánar tiltekið sá að sameina í eina rannsókn þær námskröfur, sem nám okkar fól í sér, og þá þörf, sem við töldum vera á því að afla upplýsinga um íslenska unglinga. Hugðum við þá og teljum enn, að sem gleggstar upplýsingar um þennan aldurshóp geti auðveldað hlutaðeigandi yfirvöldum, einkum á sviði æskulýðs- og skólamála, að gera sér grein fyrir þörfum og óskum unglinganna og lífi þeirra að öðru leyti. Það segir sig sjálft, að því fleiri gögn sem fyrir liggja í þessum efnum, þeim mun auðveldara ætti að vera að taka ákvarðanir þar að lútandi.

Þess má geta hér, að í samþykktum Sameinuðu þjóðanna um yfirstandandi barnaár er einmitt hvatt til þess, að gerðar séu félagsvísindalegar rannsóknir á högum barna til þess að auka skilning á þörfum þeirra. Í nágrannalöndum okkar eru starfandi sérstakar rannsóknastofnanir til slíkra verkefna (t. d. Social forskningsinstituttet í Danmörku).

Sérstaklega hefur verið amast við í málflutningi Ragnhildar Helgadóttur og Morgunblaðsins, að nokkrar spurningar fjölluðu um kynþroska, kynfræðslu og hugsanlega reynslu unglinganna af kynlífi. Í því sambandi er rétt að geta þess, að í námsskrám íslenska skólakerfisins hafa lengi verið ákvæði um kynfræðslu. Undanfarin ár hefur námsefni á þessu sviði verið endurskoðað og hefur það verið aukið og hætt verulega. Það ætti að vera augljóst mál, að til þess að geta metið þörfina fyrir kynfræðslu á grunnskólastigi og til þess að geta samið viðeigandi kennsluefni í því sambandi eru nauðsynlegt að til séu upplýsingar um kynþroska og hugsanlega kynlífsreynslu. Slíkar upplýsingar um íslenska unglinga hafa ekki legið fyrir þar til nú, og er Ísland sennilega eina landið, a. m. k. í Vestur-Evrópu, þar sem þeim hefur ekki verið leitað fyrr. Könnun okkar leiðir reyndar í ljós, að kynlífsreynsla reykvískra unglinga virðist öllu meiri en sumir kunna að kæra sig um að vita, og hefur kynfræðsla í skólum verið í engu samræmi við raunveruleika í þeim efnum. Vil ég aðeins benda á, að vafalaust er það heppilegra, að þörfin fyrir kynfræðslu sé metin út frá raunveruleikanum en að getgátur og óskhyggja ráði þar ferðinni.

Ekki er mér að fullu ljóst hvað veldur því, að þyrlað er upp slíku moldviðri kringum margnefnda unglingakönnun nú, þrem árum eftir að hún var gerð, því ekki verður sagt að leynt hafi verið farið á sínum tíma. Haldinn var blaðamannafundur er könnunin var gerð og voru henni gerð allítarleg skil í útvarpi, sjónvarpi og í flestum dagblaðanna. Okkur, sem að könnun þessari stöðu, er það hins vegar síst á móti skapi, að vakin sé nú athygli á könnuninni og þeim niðurstöðum hennar, sem þegar liggja fyrir. Við álítum, að niðurstöður þessar eigi ekki einungis erindi til yfirvalda skóla og æskulýðsmála, heldur einnig til foreldra og annarra, sem áhuga hafa á málefnum unglinga. Að sjálfsögðu gefst ekki rúm hér til að rekja niðurstöður könnunarinnar, en gleggstar upplýsingar um framkvæmd hennar og niðurstöður er að finna í þeim skýrslum, sem skrifaðar hafa verið þar um og m. a. eru fáanlegar í Bóksölu stúdenta.

Ásgeir Sigurgestsson.“

Hér lýkur, herra forseti, þessari tilvitnun. Hún svarar allmörgum af þeim atriðum sem hv, flm. Ragnhildur Helgadóttir þyrlaði upp í sinni ræðu. Ræðan væri þar að auki tilefni til langra og ítarlegra útskýringa á eðli félagslegra rannsókna, á eðli spurningalista og annars þess sem þar kemur við sögu. Er greinilegt af ræðu hv. þm., að hún hefur ekki mikla kunnáttu á slíku, enda ekki von og geri ég ekki kröfu til þess, en vil hins vegar benda á í nokkrum orðum, að mörg af þeim atriðum, sem hún henti á í spurningalistanum, er mjög algengt að hafa í slíkum spurningalistum, ekki beinlínis til þess að ætla sér að leiða í ljós hið rétta, ef svo má að orði komast varðandi slíkar spurningar, heldur til þess að geta notað svörin til að bera saman við svör við ýmsum öðrum spurningum og fá þannig mælistiku á það, að hve miklu leyti viðkomandi einstaklingur kann að hafa svarað öðrum spurningum trúverðuglega. Ég tel varla að hv. Alþ. sé rétti vettvangurinn til þess að fjalla um slík aðferðafræðileg vandamál í félagsvísindum á ítarlegan hátt, þó að það kunni kannske að koma að því, ef hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir og aðrir skoðanabræður hennar ætla að fara að gera að umtalsefni allar þær ítarlegu rannsóknir sem sálfræðingar, geðlæknar og aðrir mannvísindamenn hér á landi hafa framkvæmt, þar sem nauðsynlegt hefur verið að afla ítarlegrar þekkingar á nánum persónulegum högum einstaklinga, bæði sjúkdómum, kynlífsreynslu, viðhorfum, fjölskylduháttum og öðru slíku, sem flm. virðist telja nánast bannorð í slíkum rannsóknum. Það hefur hins vegar aldrei gerst fyrr en nú, að komið hafi fram hópar manna, eins og hv. þm. og nokkrir skoðanabræður hennar í Morgunblaðinu hafa gert, sem hafa talið nauðsynlegt að tortryggja meðferð fræðimannanna á slíkum gögnum og jafnvel ýja að því og segja það berum orðum, að þeir geti hugsanlega notfært sér þetta í auðgunarskyni.

Ég ætla að öðru leyti ekki að gera að ítarlegu umræðuefni hér þá rannsókn sem hv. þm. kaus að gera að aðalefni ræðu sinnar. Ef hún hins vegar ætlar að halda áfram umr. um þessa rannsókn hér í d., þá er sjálfsagt að taka þátt í því. Ég vil hins vegar ítreka það sem ég sagði í upphafi ræðu minnar, að það frv., sem hér hefur verið flutt, hefur að verulegu leyti verið skemmt með þeim rökstuðningi sem það hefur fengið, með þeirri uppljóstrun um tilgang þess sem fram kom í ræðu hv. þm.

Ég hef áður á Alþ. lýst áhyggjum mínum yfir því, að hér á Íslandi skorti löggjöf og annað sem verndi rétt einstaklinga gagnvart upplýsingasöfnun af þessu tagi, ekki bara upplýsingasöfnun sem er á sviði rannsókna, heldur líka á sviði stjórnsýslu og fjölmargra annarra sviða í þessu þjóðfélagi. Það er velkomið, ef hv. þm. óskar þess, að taka þátt í því með henni og öðrum að taka það mikla vandamál til umfjöllunar hér á Alþ. En sú rannsókn, sem henni er greinilega tilefni til þessara orða, er mjög lítið brot af því sem þegar er safnað og hefur verið safnað um þessi efni hér á landi. Væri þá t. d. fróðlegt fyrir hv. d. að fá ítarlega skýrslu um þær upplýsingar sem Erfðafræðinefnd undir stjórn Sturlu Friðrikssonar og Tómasar Helgasonar og með styrkjum frá bandarísku kjarnorkuvísindastofnuninni hefur aflað á einstaklingum og hópum einstaklinga á undanförnum árum.

Þriðja atriðið og það síðasta, sem þetta frv. felur í sér, er það sem felst í 1. gr., þessu orðalagi: „Virða skal rétt forráðamanna nemenda til þess að tryggja það, að menntun og fræðsla gangi ekki gegn trúar- og lífsskoðunum þeirra. Í skólastarfinu skal forðast einhliða áróður um slíkar skoðanir og um álitaefni og ágreiningsmál í þjóðfélaginu.“

Það er eins með þessa grein og 2. og 3. gr., að texti greinarinnar fær dálítið annan lit þegar maður hefur málflutning frsm. fyrir eyrum og augum. Það virðist á ræðu Ragnhildar Helgadóttur, hv. þm., að skilja, að þetta vandamál hafi ekki verið vandamál fyrr en nú á allra síðustu árum, þegar nokkrir Alþb.-menn fóru að gerast virkir í kennarastétt. Og það var alveg greinilegt á þeim málflutningi, sem hér kom fram, að hér virtist eingöngu átt við fyrirbyggjandi aðgerðir gegn Alþb. mönnum í kennarastétt. Enda sagði hv. þm. að hætta stafaði af slíkum mönnum.

Nú vill svo til að staðreyndir málsins eru allt aðrar, að sú umfjöllun um trúar- og lífsskoðanir, sem gerð er að umræðuefni í 1. gr. laganna, er ekki í höndum manna úr Alþb. sem stjórnmálaflokki. Ég hugsa að meginþorri þeirra, sem annast þessa fræðslu, aðhyllist allt aðrar stjórnmálaskoðanir, og ég hugsa að það viðkvæmasta efni, sem tengist þessari 1. gr. og nú er fjallað um í skólakerfinu, sé ekki hinar pólitísku skoðanir, heldur fyrst og fremst sú trúarbragðakennsla sem fram fer í skólakerfinu, þar sem með mjög mismunandi hætti er tekið á hinum ýmsu trúarbragðakerfum og hinum ýmsu skoðunum sem eru ríkjandi innan Lútherstrúarinnar, svo að maður tali nú ekki um kristindómsfræðslu sem felst í því að koma inn hjá nemendum, svo að ég taki eitt dæmi sem mér er kunnugt um að var niðurstaðan af kristindómsfræðslu eins ágæts prests hér í Reykjavik í einum skóla borgarinnar, að unglingarnir töldu að lokinni þeirri kennslu að trúarbragðaskiptingin væri annars vegar í kristna menn og hins vegar í kaþólikka. Miðað við þær miklu deilur, sem hafa verið og eru innan íslensku ríkiskirkjunnar, og miðað við þær deilur, sem eru milli ýmissa safnaða hér á landi og íslensku ríkiskirkjunnar, hugsa ég að það sé einmitt á sviði kristindómsfræðslunnar sem þetta vandamál er hvað mest.

Þar að auki vil ég benda hv. flm. á að miðað við þjóðfélagsþróunina á okkar tímum, svo að ég taki dæmi af Bandaríkjunum sem hv. flm. telur sjálfsagt fyrirmyndarland í þessu tilliti eins og öðrum, væri slík lagagrein, ef taka ætti bókstaflega, talin bæði mjög ófullkomin og óeðlileg af tvennum ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að í þjóðfélagi, þar sem jafnmikill breytileiki ríkir í félagsháttum og t. d. í hinum þróuðustu iðnríkjum, sem fela í sér mikla aukningu hjónaskilnaða og þá staðreynd, að fjölmörg börn hafa haft samneyti við ekki bara tvö foreldri, heldur 3, 4, 5 og jafnvel 6 á sínum uppeldisárum, þá er beina sambandið milli foreldra annars vegar og barna hins vegar mjög flókið félagslegt og lögfræðilegt fyrirbæri. Þessir breyttu fjölskylduhættir, þessi breytti fjölskyldustíll, sem er afleiðing af aukinni tíðni hjónaskilnaða í iðnaðar- og velferðarþjóðfélögum okkar tíma, hefur leitt til þess, að eitt af brýnustu vandamálunum innan lögfræði og samfélagsfræða er einmitt að vernda rétt barnsins í slíkum félagslegum kringumstæðum, að skapa barninu og unglingum rétt gegn yfirráðasemi foreldranna eða hinna ólíku foreldra, þar eð barnið verður síðan oft bitbein í valdaátökum foreldranna um yfirráðaréttinn, bæði hina upphaflegu líffræðilegu foreldra, fósturforeldra af ýmsu tagi o. s. frv. Og það er ein af nýrri greinum nútímalögfræði, sem ég geri ráð fyrir að hv, þm. hafi einhver kynni af, að fjalla um slíkt. (RH: Það væri gott að fá leiðbeiningu í henni líka.) Já, það veitir kannske ekki af því. Eins og kom fram í málflutningi hv. þm., þá virtist henni þetta vandamál eingöngu vera út frá foreldrunum, eingöngu vera byggt á því að tryggja rétt foreldranna, eins og hvað eftir annað var sagt í framsöguræðunni efnislega og orðrétt, ef ég man það rétt. En sú þjóðfélagsþróun, sem við búum nú við í hinum þróaðri hluta heims, felur hins vegar í sér að lykilvandamálið er að tryggja rétt barnanna, tryggja rétt unglinganna, bæði gagnvart ýmsum starfsmönnum skólanna og eins gagnvart því flókna foreldraneti, ef má orða það þannig, sem hugsanlega kemur fram, þegar hjónaskilnaðir eru tíðir og fjölmörg börn hafa samneyti við mun fleiri en tvo foreldra á sínu uppeldis- og vaxtarskeiði. En um þennan rétt barnanna, um þennan rétt unglinganna til að fá kennslu og fræðslu í samræmi við sínar eigin trúar- og lífsskoðanir er ekkert fjallað í frv. né heldur í framsöguræðunni, heldur virðist allt miða að því að geirnegla rétt foreldranna einna saman. Þess vegna held ég að við meðferð í n. þurfi þetta frv. að taka verulega mið af þessum nýju sjónarmiðum um rétt barnsins, rétt unglinganna til að fá uppeldi í samræmi við eigin skoðanir og þarfir.

Ég tel þess vegna að í þessu frv. sé annars vegar að finna vissar ábendingar um lagasetningar, sem nauðsynlegt er að þessi hv. d. og Alþ. taki til ítarlegrar, nákvæmrar og rólegrar yfirvegunar, en hins vegar hafi því miður nauðsynin á lagasetningu af þessu tagi orðið tæki í höndum flm. og annarra skoðanabræðra hennar í Sjálfstfl. og Morgunblaðinu til þess að reyna að sá fræjum tortryggni í garð mannvísinda, í garð sálfræði sérstaklega og í garð þess stóra hóps sálfræðinga, geðlækna og mannvísindamanna sem þurfa nauðsynlega á slíkri upplýsingaöflun að halda til þess að geta þróað fræðigreinar sínar. Og ég tel það illt verk, að þegar nokkrir ungir sálfræðingar vilja ganga í fótspor ýmissa eldri íslenskra sálfræðinga, eins og t. d. dr. Tómasar Helgasonar prófessors, og leggja af mörkum álíka nýsköpun þekkingarinnar á sínu sviði og hann hefur gert á sínu, skuli Ragnhildur Helgadóttir koma í fararbroddi árásar hér á hv. Alþ. gegn þessum ungu fræðimönnum. Það er í ætt við tilraunir íhaldsafla fyrr á tímum og einnig í okkar samtíð að reyna að beita pólitískum valdastofnunum til þess að hefta framþróun mannlegrar þekkingar. Ég átti satt að segja ekki von á því, að í okkar lýðræðislega þjóðfélagi þyrfti hér á Alþ. að standa vörð gegn því, að pólitískt vald væri notað til þess að hefta framgöngu mannlegrar þekkingar.