05.03.1979
Efri deild: 66. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2946 í B-deild Alþingistíðinda. (2345)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Enn ber það við sem fyrrum, að flokksbróðir minn, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, verður hissa á ýmsu sem ekki kemur mér á óvart, svo sem því, að sjónarmið eins og þau, sem fram komu í framsöguræðu hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur með frv. því sem hér um ræðir, skuli koma fram á Alþ. Við því bjóst ég. Raunar hafði ég fullkomna ástæðu til þess að gera ráð fyrir að þessi sjónarmið kæmu formlega fram eftir utandagskrárræðu hv. þm. fyrr í vetur, þegar fjallað var um útgáfu á bókinni um Félaga Jesús. Ef mig minnir rétt, þá bar ég hól á hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur þá fyrir að láta þessi sjónarmið koma fram hér á Alþ., —fyrst hv. þm. hefði þessi sjónarmið væri það eðlilegt og raunar þakkarvert að fá opnar umr. um þessi sjónarmið einmitt hér í þingsölunum.

Ein af ástæðunum til þess, að ég kveð mér hljóðs í þessu máli, er raunar tengd umr. utan dagskrár um útgáfu bókar þessarar, vegna þess að ég hljóp undir bagga með hv. þm. einmitt í framsöguræðu hennar, þegar hún kvaðst hafa gleymt því, hvað Þjóðviljinn hefði kallað viðhorf hennar í blaðagreinum um þá ræðu, — þá hljóp ég undir bagga með hv. þm. úr sæti mínu og minnti hana á þessi ummæli Þjóðviljans, svo að hún þyrfti ekki að kvarta undan minnisleysi sínu í því sambandi, en hann kallaði þau „svart íhald“ (RH: Biksvart.) — „biksvart íhald.“

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson fjallaði mjög ítarlega í ræðu sinni um þann hluta málsins sem lýtur að tittnefndri rannsókn sem framkvæmd var af sálfræðinemum í 8. bekk grunnskóla í Reykjavík. Ég er ekki ákaflega uggandi um að þær upplýsingar, sem þar komu fram, verði misnotaðar. Að vísu er mér það ljóst, að slíkir einstaklingar eru til og hafa jafnvel með sér samtök í samfélagi okkar, sem til þess væri trúandi að hnýsast í slík mál, ef hugsast gæti að kjaftaklúbbar í líkingu við þá, sem Ibsen kallar í leikriti sínu um máttarstólpa þjóðfélagsins viðreisnarfélög fallinna kvenna, kæmust með svona upplýsingar í tölvur til þess að svala sinni sérstöku persónugerðu fróðleiksfýsn. Þeim væri trúandi til þess. En ég tel gersamlega ástæðulaust að ætla að í fyrsta lagi þessir sálfræðinemar, sem nú munu vera í þann veginn að ljúka prófi, eða aðrir ærlegir einstaklingar færu að misnota slíkar upplýsingar, hvað þá að leggja vinnu í að grafast fyrir um hvaða strákar og hvaða stelpur það voru sem þarna svöruðu.

Meginhugsunin, sagði hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir, á bak við þetta frv. er sú lífsskoðun, að fjölskyldan sé grundvallareining þjóðfélagsins og fjölskyldan sé sú félagseining sem börnunum sé hollast að alast upp í. Hv. þm. sagði margt greindarlegt í framsöguræðu sinni, þeirri framsöguræðu sem ég er að gagnrýna, þ. á m. þetta. En mig minnir, úr því að ég minntist á Ibsen í þessu sambandi, að Bernick konsúll hafi orðað þessa hugsun í gegnum penna Ibsens örlítið snjallar, þar sem hann segir í upphafi sinnar persónugerðu sjálfsdýrkunar: „Fjölskyldan er kjarni samfélagsins.“ — Í þessum upphafsorðum sínum innleiðir raunar hv. flm. frv., Ragnhildur Helgadóttir, báða meginþætti tilgangsins með þessu frv. og ekki síður þann sem felst í 1. gr. frv., þar sem segir: „Virða skal rétt forráðamanna nemenda til þess að tryggja það, að menntun og fræðsla gangi ekki gegn trúar- og lífsskoðunum þeirra.“

Hv. þm. rökstuddi þessa grein frv., sem lýtur að kennslu í íslenskum grunnskóla, með ívitnun í mannréttindayfirlýsingu í Evrópusáttmálanum svonefnda um verndun mannréttinda, þar sem stendur, með leyfi forseta: „Engum manni skal synjað um rétt til menntunar. Hið opinbera skal í öllum ráðstöfunum sínum virða rétt foreldra til þess að tryggja það, að slík menntun og fræðsla sé í samræmi við trúar- og lífsskoðun þeirra.“ Hv. flm. frv. kvaðst heldur hafa kosið að íhuguðu máli að orða þetta eins og í frvgr. hennar segir: „Virða skal rétt forráðamanna nemenda til þess að tryggja það, að menntun og fræðsla gangi ekki gegn trúar- og lífsskoðunum þeirra.“

Ég tek undir með hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, er hann taldi að í meginatriðum væri efni frv. góðra gjalda vert ef það væri lesið án þeirra skýringa sem fólust í framsöguræðu hv. flm. Ég er ekki að halda því fram, að tilgangur hv. flm., Ragnhildur Helgadóttir, sé sá með þessu frv. að banna kennurum, koma í veg fyrir að kennarar leiðrétti bull sem foreldrar kunni að hafa innrætt hörnum sínum. Það hvarflar ekki að mér að það vaki fyrir hv. flm. — óraveg frá því. En skoðað í ljósi framsöguræðu hv. þm. er það ljóst, að tilgangurinn er sá að geta komið í veg fyrir með valdboði að kennarar haldi að nemendum á grunnskólastigi upplýsingum eða skoðunum sem brjóta í bága við mótaða, viðurkennda lífsskoðun — við skulum segja í þessu tilfelli valdastéttar eða þjóðfélagshóps — og hrjóti í bága við viðurkenndar trúarskoðanir. Það er verið að undirbúa þann möguleika, að slíkum kennurum sé vikið úr vegi.

Dæmin um það, að slíkum kennurum hafi verið rutt úr vegi, eru náttúrlega ótalmörg og misjafnlega fræg í mannkynssögunni.

Sókrates var sakfelldur um það röskum 400 árum f. Kr. að spilla hugarfari ungra manna í Aþenu með nýstárlegum kenningum sínum, halda að æskumönnum Aþenu skoðunum sem brutu í bága við það sem kalla mætti lífsviðhorf fjölskyldunnar. Við höfum samtímaheimildir um þetta æviskeið og kenningar Sókratesar, einnig um lífsviðhorf hans, þar sem Plató er. Fyrir utan fræði Platós, samtíðarmanns Sókratesar, vitum við að vísu fátt eitt um að telja hann sannverðugan í frásögnum sínum. Það eina, sem mér er kunnugt um að vitað sé um Sókrates fyrir utan skrif Platós, eru upplýsingar Aristofanesar um göngulag Sókratesar á flóttanum frá Falerun, þar sem hann sagði að hann hefði verið eins og pelíkani í göngulagi. En frá Plató sjálfum höfum við frásagnir af þrætum hans við Þrasymakus, þar sem hann fékk hann til þess að viðurkenna það, að samkv. skoðunum sófista, íhalds síns tíma, væri réttlæti hagsmunir hins sterka. Þeir losnuðu við kennarann Sókrates í Aþenu forðum með því einfalda ráði að dæma hann til þess að taka inn eitur og þar með var rutt úr vegi kennara sem hélt fram skoðunum sem gengu gegn lífsviðhorfum og trúarskoðunum foreldra í Aþenu.

Röskum 400 árum síðar, — og það er e. t. v. enn þá tiltækara dæmi í þessu sambandi, þar sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir af skiljanlegum ástæðum vitnaði til hins kristilega viðhorfs, — röskum 400 árum síðar var Jesús Kristur leiddur fyrir rétt í Jerúsalem sakaður um kennslu sem braut í bága við lífsviðhorf og trúarskoðanir foreldra. Hann hafði rekið víxlara út úr musterinu og hamrað á því, að frekar kæmist úlfaldi gegnum nálarauga en ríkur maður í himnaríki. Formælendur íhaldsins í Júdeu, farísear og fræðimenn, studdir rómönsku hervaldi skárust í leikinn. Hér er e. t. v. rétt að staldra við og hugleiða aðeins hvatann að því, að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir flutti nú þetta frv. í Ed., sem ég hygg að hafi verið í raun og veru mál það sem upp kom í vetur og bar á góma í Sþ., þar sem var þýðingin á bókinni um Félaga Jesús. Mig minnir að ég hafi tekið það fram er ég tók þá til máls, að mér þótti það ekki góð bók, mér þótti hún ekki nógu góð til þess að gera sérstakar ráðstafanir til að koma henni út á íslensku, ekki nógu góð, — kannske vegna þess að hún fellur ákaflega vel að minningu minni um það viðhorf sem ég hafði til þessa vinar míns í æsku, á aldursskeiðinu á milli 8 og 10 ára. Mér finnst, að Che Gevara-hugmyndirnar, sem fram koma í þessari bók um Jesús Krist, séu mótaðar af álíka þroska og dagdraumar mínir um möguleikana á því að koma til hjálpar vini mínum Jesú Kristi á Golgata á þeim dimma degi þegar ég ímyndaði mé hvernig farið hefði, ef ég hefði komist þangað með þá Njálssyni í fylgd með mér, Tarzan og blökkumanninn Umslopagas úr sögu Haggards með öxina lnkosikas, og svo náttúrlega husquarna-byssu föður míns, hvernig við hefðum púlveríserað Kaífas og allt það dót. Það virtist aftur á móti ekki hvarfla að höfundi þessarar barnabókar, sem gjarnan hvarflaði að mér þá, að þá urðum við að hafa skjótar hendur og gera þetta áður en Jesús Kristur kæmi í veg fyrir það, vegna þess að hann vildi ekki láta drepa fólk. En hann var krossfestur fyrir að halda fram kenningum sem brutu í bága við lífsviðhorf og trúarbrögð foreldranna, sem brutu í bága við lífsviðhorf og trúarbrögð valdhafanna, sem brutu í bága við það sem íhald Júdeu taldi að halda ætti að æskulýðnum.

Röskum 16 öldum síðar tóku þeir Galíleo í gegn, sjálfstæðisforsprakkarnir á Ítalíu, rannsóknarrétturinn. Hann hafði sannað fyrir nemendum sínum í Genúa fræðilega þyngdaraflið. Auk þess hafði hann sannað það og kennt, að jörðin væri ekki flöt, heldur hnöttótt og snerist í kringum sólina, en ekki öfugt. Kenningar hans brutu gegn lífsviðhorfum og trúarbrögðum fjölskyldunnar, og umboðsmenn hins viðtekna réttar hinnar íhaldssömu fjölskyldu á Ítaliu og í öllum hinum kaþólska heimi, rannsóknarrétturinn, gekk í málið. Galileo var fluttur til Rómaborgar og með kyndil rannsóknarréttarins við klæðafaldinn var hann látinn játa að ekkert þyngdarafl væri til, látinn játa að víst væri jörðin flöt og víst snerist sólin í kringum jörðina, því að ella hefði hann verið dæmdur.

Ef kennurum hefði verið bannað með órofa lögum frá upphafi tíðar að halda fram við nemendur sína, kenna annað í skólum, á strætum og gatnamótum heldur en það sem foreldrarnir töldu vera rétt, þá hefði framför orðið lítil, og einnig hefði hún orðið lítil, framför mannlegrar hugsunar, ef ekki hefðu verið kennarar í hópnum sem brutu slík lög og guldu fyrir með lífi sínu.

Það hvarflar ekki að mér, að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir vilji stöðva þroska mannssálarinnar eða mannlegrar hugsunar. En ég fæ ekki betur séð, þegar ég skoða frv. hennar og grg. þess í því myrka ljósi sem framsöguræða hennar varpar á málið, en hún sé með þessari lagagerð, þessum frv.-flutningi, eigi að síður, efalaust gegn vilja sínum, að opna fyrir þann möguleika að Sókrates verði nú drepinn á eitri öðru sinni, Kristur verði krossfestur aftur og Galileo brenndur. (RH: Áttaði hv. þm. sig á þessu þegar samþykkt var að fullgilda mannréttindasáttmála Evrópu?) Ég þakka hv. þm. fyrir framíkallið sem er sprottið af sömu hvötum og framíkall mitt til þess að rifja upp og skýra hugsun, en vil vekja athygli hv. þm. á því, að grein þessi í mannréttindasáttmálanum var ekki rökstudd með álíka ræðu og hv. þm. flutti með þessu lagafrv. á dögunum.

Ég minnist þess, að er ég aðstoðaði hv. þm. með framíkalli mínu þegar hún mundi ekki hvaða einkunn Þjóðviljinn hafði gefið henni fyrir viðhorfin sem fram komu fyrr í vetur, — það var „biksvart íhald“, — þá brosti hún við, kankvís og broshýr hér í ræðustólnum, eins og Rauðhetta litla eftir að hún var búin að skjóta ömmu sína og gleypa úlfinn og sagði: Ég er stolt af því að vera kölluð biksvart íhald af því málgagni. Ég er stolt af því, sagði hún.

Ef við ætlum okkur að tryggja rétt grunnskólabarnanna okkar til fræðslu án fordóma, ef við ætlum að gera tilraun til þess að tryggja þau gegn afmenntun, hvort sem er af hálfu kennara eða foreldra, þá verðum við að standa að því máli með öðrum hætti en staðið er að þessu frv. Og ég ítreka það í lok ræðu minnar, að ég hlýt að trúa því, að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir vilji í raun og veru leita ráða til þess að tryggja eðlilega og fordómalausa fræðslu í skólum landsins þrátt fyrir þetta undarlega og fremur ógeðþekka hugarfar sem fram kom í framsöguræðu hennar, sem kannske orsakast af ótta.