06.03.1979
Sameinað þing: 61. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2978 í B-deild Alþingistíðinda. (2360)

40. mál, bann við kjarnorkuvopnum á íslensku yfirráðasvæði

Utanrrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka undir það sem frsm. minnti á, að það er óumdeild stefna allra íslensku stjórnmálaflokkanna að hér á landi skuli ekki vera kjarnorkuvopn. Ég vil láta í ljós þá von mína, að það sé leit að nokkrum einstaklingi í landinu sem ekki er samþykkur þeirri stefnu.

Eins og aðstæður hafa verið hér á landi undanfarna áratugi er engan veginn óeðlilegt að umr. verði um þetta mál á Alþ. öðru hverju og dvöl bandaríska varnarliðsins dragist inn í þær umr. Hingað til hefur niðurstaða þeirra ávallt orðið sú, að utanrrh., hverjir sem þeir hafa verið, hafa fullyrt að samkv, varnarsamningnum, eins og hann er skilinn, hafi Bandaríkjamenn ekki leyfi til að flytja hingað kjarnorkuvopn, þeir hafi aldrei farið fram á slíkt leyfi, það hafi aldrei verið veitt og frá því sjónarhorni sé ekki ástæða til að ætla að slík vopn hafi verið eða séu í landinu. Komið hefur til tals hvort til séu einhverjar viðráðanlegar og einfaldar aðferðir til þess að sannprófa hvort kjarnorkuvopn eru þarna, en ekki virðist liggja á lausu að slík tækni sé fyrir hendi. Hins vegar hafa þeir, sem spurðir hafa verið víða erlendis um þessi mál, yfirleitt bent á að meðferð kjarnorkuvopna af hvaða stærð sem er útheimti svo miklar öryggisráðstafanir að það sé með öllu óhugsandi að þær gætu átt sér stað á varnarstöð sem er jafnopin og Keflavíkurstöðin ávallt hefur verið og er, án þess að eftir því væri tekið. Ég hygg að þetta sé raunar mesta öryggisatriðið. Ég hygg að þetta sé raunar mesta öryggisatriðið. Ég efast ekki um að væri hér öryggisviðbúnaður sem nauðsynlegur er fyrir slík vopn, hefðu Sovétríkin séð hann með eftirlitsgeimförum sínum, en hæði risaveldin hafa náð ótrúlega langt með eftirliti úr geimförum, geta jafnvel talið fingur á hendi manns á jörðu niðri, að því er sagt er. Um það hefði því vafalaust verið formlega kvartað. En það hefur ekki verið gert.

Mér er ekki kunnugt um, hvenær til kom sú fyrirskipun til allra bandarískra hermanna, að þeim væri með öllu bannað að svara játandi eða neitandi neinu um kjarnorkuvopn, jafnvel þó þeir sitji á einni slíkri sprengju, en þeirri reglu hafa varnarliðsmenn hér fylgt um alllangt skeið. Það, sem gerðist á Spáni, brýtur ekki í bága við þessa reglu vegna þess að það var opinbert mál af Spánverja hálfu að í flotastöð á Suður-Spáni voru kjarnorkukafbátar. Það var víðfrægt hneyksli þegar slys kom fyrir einn slíkan kafbát og mikil leit var að honum gerð. Var því ekki von að nein leynd væri í kringum það.

Ég legg áherslu á að ég tel að stöðin á Keflavíkurflugvelli sé svo galopin hverjum þeim, sem vill skoða hana, að ekki ætti að geta farið leynt ef þar væri sá vígbúnaður sem óhjákvæmilegur er þar sem einhvers konar kjarnorkuvopn eru á ferð.

Í umr. fyrir nokkrum árum um þessi mál var vísað til þess, að í tveimur til þremur tilfellum hefðu erlendir sérfræðingar fullyrt að hér væru bandarísk kjarnorkuvopn. Ein af þeim stofnunum, sem lét slíka fullyrðingu á prent, var sænska friðarstofnunin, SIPRI. Það vill svo til, að það er ekki langt síðan ég fékk tækifæri til að heimsækja þessa stofnun og kynnast því, hvernig hún starfar að upplýsingaöflun og úrvinnslu upplýsinga. Þá spurði ég að því, á hverju þeir byggðu þá fullyrðingu að kjarnorkuvopn væru á Íslandi. Þeir svöruðu: Við byggðum það á því einu, að á Íslandi eru flugvélar sem geta borið kjarnorkuvopn. — Þetta er óneitanlega heldur veikur rökstuðningur, af því að það hefur verið opinbert mál, rætt í þessum sal í 15–20 ár, að a. m. k. tvær tegundir flugvéla, sem aðallega eru á Keflavíkurflugvelli, gætu borið kjarnorkuvopn. En nú á dögum et leit að þeim tegundum flugvéla, sem ekki gætu það, því fjölbreytni í gerð kjarnorkuvopna er sögð vera orðin svo mikil.

Ég ætlaði mér annars ekki að endurtaka frekar fyrri umr. um þessi atriði, heldur snúa mér að einu sem mér fannst vanta í málflutning hv. frsm.

Fyrir rúmlega áratug var gerður alþjóðlegur samningur gegn dreifingu kjarnorkuvopna. Það voru risaveldin tvö, Bandaríkin og Sovétríkin, sem höfðu frumkvæði um að gera þennan samning og mikill fjöldi þjóða um allan heim gerðist aðilar að honum. Þó voru undantekningar frá því. Lönd eins og Kína, Indland, Ísrael og Egyptaland neituðu að skrifa undir samninginn, en það er á hvers manns vitorði að þessi ríki voru þá einmitt talin standa nærri því að geta orðið kjarnorkuveldi og eru sum hver orðin það síðan. Íslendingar gerðust aðilar að þessum samningi. Hann var undirskrifaður á löglegan hátt af þáv. ráðh. samkv. ákvörðun ríkisstj. og nokkru síðar var tilkynning birt um það í Stjórnartíðindum. Hann var fyrst birtur í Stjórnartíðindum í heild og nokkru síðar, þegar tiltekinn fjöldi ríkja hafði staðfest þennan samning, var birt tilkynning í Stjórnartíðindum um að hann hefði tekið gildi og hefði því sem alþjóðlegur samningur, gerður á löglegan hátt af íslenskum yfirvöldum, lagagildi á Íslandi.

Í þessum samningi er afdráttarlaust sagt, að hvert ríki, sem undirskrifar hann og staðfestir, skuldbindi sig til þess að ekki verði flutt kjarnorkuvopn beint eða óbeint á neinn hátt eða þau framleidd á landssvæði og yfirráðasvæði viðkomandi ríkis. Þessi ákvæði eru ákaflega skýr og ljós. Af þessu leiðir að íslenska ríkið hefur í tæplega áratug verið skuldbundið til þess með aðild að alþjóðlegum samningi, ásamt tugum annarra ríkja, að hér skuli ekki vera kjarnorkuvopn og hingað megi ekki flytja kjarnorkuvopn. Þegar sagt er: „hvorki beint né óbeint“ — getum við túlkað það þannig: hvorki á okkar vegum né t. d. varnarliðsins. Þessi skuldbinding er þýðingarmikil og hún er algjörlega ótvíræð og greinileg yfirlýsing af hálfu íslenskra yfirvalda um það, að ekki sé ætlan þeirra að hér verði kjarnorkuvopn á meðan þessi skuldbinding helst og samningurinn er í gildi, sem er um óákveðinn tíma.

Þar sem varnarlið Bandaríkjanna blandast í málið tel ég sérstaklega rétt að benda á að Bandaríkin voru ásamt Sovétríkjunum annað aðalhvataríkið að því að þessi samningur varð til. Ef Bandaríkjamenn flyttu til Íslands eða geymdu á Íslandi kjarnorkuvopn án þess að við vissum af því, — sem ég tel ólíklegt og erfitt, en engu að síður skulum við segja svo, — væru þeir að fremja mjög gróft brot á þessum mikilvæga samningi sem þeir sjálfir lögðu mikla áherslu á að fá ríki um allan heim til að gerast aðilar að.

Þessi samningur var ekki lagður fyrir Alþ. af þeirri einföldu ástæðu, að samkv. stjórnarskránni er þess ekki þörf. Samkv. henni ber að leggja alla samninga, sem fela í sér hið minnsta afsal á landsréttindum, undir Alþ. Aðra samninga getur forseti Íslands gert, þ. e. ríkisstj., og með réttum staðfestingum og réttum auglýsingum hljóta þeir lagagildi hér á landi, eins og var um þennan samning. Ég ítreka því að íslenska ríkið er fullkomlega og á ótvíræðan hátt skuldbundið í þessum efnum og er búið að vera það í 8–10 ár. Með því að undirrita þennan samning, taka á sig þessa skuldbindingu, gaf íslenska lýðveldið út eins ljósa stefnuyfirlýsingu í þessu máli og hugsanlegt er. Þessi samningur er í fullu gildi og stendur því allt sem í honum er og hann snertir og með honum var gert.

Kjarnorkumál hafa að sjálfsögðu verið feikimikið til umræðu á alþjóðlegum vettvangi, sérstaklega í sambandi við hugsanlega afvopnun. Á s. l. sumri efndu Sameinuðu þjóðirnar til sérstaks aukaþings um afvopnunarmál og þar mættu háttsettir þjóðarleiðtogar víðs vegar að úr heiminum. Var einna helst til tíðinda af ræðum þeirra á þessu aukaþingi, að æðstu menn, bæði Sovétríkjanna og Bandaríkjanna, gáfu loforð — að vísu með dálítið mismunandi orðalagi — um að þessi ríki skyldu aldrei beita kjarnorkuvopnum gegn neinu því ríki sem ekki býr yfir kjarnorkuvopnum sjálft, hvað þá ef það er skuldbundið með aðild að þessum samningi eða á svipaðan hátt. Þetta er yfirlýsing af því tagi að ég tel að hana beri að taka fullkomlega alvarlega og að hún geti orðið til aukins öryggis fyrir okkur eftir að við höfum gerst aðilar að samningnum gegn dreifingu kjarnorkuvopna. Við höfum í raun og veru vilyrði beggja þessara risavelda um að þau muni aldrei beita kjarnorkuvopnum gegn landi eins og okkar, þar sem engin kjarnorkuvopn eru og þar sem ríkið hefur skuldbundið sig á þann hátt sem við höfum gert með aðild að umræddum samningi.

Þetta taldi ég rétt að kæmi fram. Ég tel að sjálfsögðu eðlilegt að málið gangi til utanrmn. og að n. kynni sér þetta allt nánar, svo að hægt verði að leggja nánari upplýsingar fram, t. d. samninginn í heild svo að hv. alþm. geti rifjað hann upp og athugað hann. Í því ljósi má síðan meta hvort sérstök ástæða er til frekari lagalegra aðgerða af okkar hálfu.