06.03.1979
Sameinað þing: 62. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2989 í B-deild Alþingistíðinda. (2369)

207. mál, þingrof og nýjar kosningar

Flm. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Allir þm. Sjálfstfl. flytja till. til þál. um að Alþ. verði rofið og efnt verði til nýrra, almennra kosninga svo fljótt sem við verður komið.

Í grg. með þáltill. er greint frá rökum fyrir samþykkt till., en áður en vikið er beint að þeim bið ég þm. og aðra áheyrendur að fara með mér eitt ár — 12 mánuði aftur í tímann.

Þáv. ríkisstj. hafði sett svonefnd febrúarlög til þess að veita verðbólgunni viðnám innan við 30% á síðasta ári og ná svo meiri árangri á þessu ári. Stjórnarandstaðan og kommúnistar og kratar í launþegasamtökunum höfðu þá þegar upp hersöngva mikla um „samningana í gildi“, „kauprán“ og „kosningar eru kjarabarátta“, enda hæði sveitarstjórnar- og alþingiskosningar á næsta leiti. Hvatt var til ólögmætra verkfalla, útflutningsbann sett á og allsherjarverkfalli hótað. Þáv. ríkisstj. leitaðist við að ná samkomulagi og slakaði á í viðnámi gegn verðbólgunni með maílögunum, en allt kom fyrir ekki. Pólitísk skemmdarverk í nafni verkalýðshreyfingarinnar voru aðalvopn bæði Alþb. og Alþfl. í kosningabaráttunni og þessir flokkar urðu sigurvegarar kosninganna.

Við stjórnarmyndunartilraunirnar á s. l. sumri gerðist Framsfl. síðan hækja hinna tveggja sigurvegara og tók undir heróp þeirra „samningana í gildi“.

En allir þrír stjórnarflokkarnir svikust undan merkjum, fyrst í borgarstjórn Reykjavíkur, síðan með brbl. í byrjun sept. Þegar samningar voru aðeins settir í gildi að hluta og hinir lægst launuðu dagvinnumenn fengu enga hækkun, en hinir hærra launuðu 10–12% kauphækkun.

Í stað þess að setja samningana í gildi hafa kaup og kjör verið ákveðin einhliða af svokallaðri vinstri stjórn þvert ofan í fyrri stefnu launþegasamtakanna, að samningsrétturinn væri helgur og ætti að vera frjáls.

Þótt tímabil fyrri samninga launafólks og vinnuveitenda rynni út 1. des. s. l. sér ekki enn fyrir endann á einhliða valdboði ríkisstj. um kaup og kjör manna.

Forvígismenn Alþb. og Alþfl. í launþegasamtökum hafa afsalað og lagt blessun sína á að 8%. verðlagsbætur komi ekki til útborgunar 1. des. s. l.

Vinstri stjórnin hefur beitt niðurgreiðslum til að falsa kaupgjaldsvísitöluna og hækkað skatta svo að mönnum hefur með þeim hætti verið sjálfum gert að greiða niður kaupið sitt.

En skattpíningin og niðurgreiðslurnar hafa reynst skammgóður vermir í baráttunni gegn verðbólgu. Ríkissjóður er tómur. Draga verður úr niðurgreiðslum á miðju ári og munu landbúnaðarvörur þá hækka af þeim sökum til viðbótar öðrum ástæðum sem samanlagt leiða 1. júní n. k. til meiri en 12–20% hækkunar landbúnaðarvara, eins og var um síðustu helgi.

Talið er að hækkun verðbótavísitölu með óbreyttum útreikningsreglum vísitölu verði frá febr. til maí á þessu ári frá um 8.5 til 10.5% og er þá ekki gert ráð fyrir að mæta nema að hluta 2000 millj. kr. greiðsluhalla Pósts og síma, 2000–3000 millj. kr. greiðsluhalla Landsvirkjunar og rafmagnsveitna í landinu, um 1000 millj. kr. fjárvöntun í olíuverðjöfnunarsjóði né heldur ýmsum hækkunarþörfum einkaaðila. Núv. ríkisstj. hefur velt vandanum í verðlagsmálum á undan sér og við það hefur vandinn vaxið, bætt utan á sig eins og snjóbolti.

Það eina, sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa komið sér saman um hingað til, skattpíningin og niðurgreiðslurnar, hafa þannig gengið sér til húðar og megna ekki að draga fjöður yfir úrræðaleysi vinstri stjórnar eða raunverulega verðbólguþróun í landinu.

Fyrir einu ári og jafnvel einu missiri sögðu kommúnista- og kratabroddar að samningarnir í gildi fælust í því að tryggja þann kaupmátt sem að var stefnt með kjarasamningum vorið 1977. Sá kaupmáttur kauptaxta hefði verið samkv. áætlun Þjóðhagsstofnunar 111 á árinu 1978 miðað við 100 á árinu 1977. En hverjar voru efndirnar eftir að vinstri stjórnin settist að völdum 1. sept.? Kaupmátturinn reyndist um 107.5 á s. l. ári eða tæpu einu stigi hærri en hefði orðið með óbreyttum maílögum fyrri ríkisstj.

Er útlit fyrir að vinstri stjórnin bæti ráð sitt á þessu ári? Með 3% almennri grunnkaupshækkun 1. apríl n. k., eins og áskilið er í samningum við BSRB, hefði kaupmáttur kauptaxta átt að hækka í 113 stig. En þótt vísitölukerfið verði óbreytt megum við þakka fyrir óbreyttan kaupmátt frá því í fyrra.

Mönnum eru áreiðanlega í fersku minni gífuryrði og vopnabrak kommúnista og krata fyrir kosningar og undirlægjuháttur Framsóknar eftir kosningar. En þetta er þá allur árangurinn: Kaupmáttur kauptaxta er nálega sá sami, verðbólgan meiri og kaupmáttur ráðstöfunartekna minni vegna aukinnar skattbyrði en hefði verið með maílögunum. Þetta eru efndir á loforðinu „samningarnir í gildi“.

Fullkomin ástæða er til þess að kjósendur fái að kvitta fyrir þessar blekkingar og svik með því að ganga aftur að kjörborðinu sem fyrst.

En ekki er nóg með það að öll kosningabaráttan og efndir kosningaloforða séu með ólíkindum og slíkur „hókus-pókus“ eigi sér tæpast hliðstæðu í íslenskum stjórnmálum. Þessir sjálfkjörnu vinstri flokkar, sem töldu sig hafa ráð undir rifi hverju fyrir kosningar, hafa ekki komið sér saman um neina stefnu í efnahagsmálum. Þeir reyndu að ná saman í tvo mánuði í sumar og þóttust hafa himin höndum tekið og mynduðu ríkisstj.

En ríkisstj. hafði ekki að eigin sögn annað en bráðabirgðaúrræði að bjóða. Þau juku á vandann, en leystu hann ekki. Allt var afsakað með tímaskorti, betur skyldi gert fyrir 1. des. En sagan endurtók sig: bráðabirgðaúrræði sama eðlis og fyrr sáu dagsins ljós.

Óánægja Alþfl. braust út í gerð efnahagsfrv. í desembermánuði, sem hann þó hvorki hafði þor né kjark til að leggja fram á Alþ. Forsrh. bannaði það og lofaði bót og betrun. Ráðherranefnd var stofnuð og skilaði áliti sem sagði ekki neitt. Forsrh. samdi frv. og lagði fram í ríkisstj. Alþb. fór í fýlu og sigaði verkalýðsleiðtogum sínum á frv. forsrh.

Forsrh. glúpnar og snýr frv. við í veigamiklum atriðum með þeim árangri að báðir samstarfsflokkarnir í ríkisstj., Alþb. og Alþfl., eru óánægðir og flokkur forsrh. er afhjúpaður sem stefnulaust rekald, haldinn þeirri minnimáttarkennd sem dregur hann í átt til þess samstarfsflokksins sem hærra lætur í og hann hyggur meiri máttar þá stundina.

Einn stjórnarflokkanna lýsir uppgjöf og vantrausti á ríkisstj. með því að flytja till. um að þjóðaratkvgr. fari fram um efnahagsfrv. forsrh. sem enn hefur ekki verið lagt fram á Alþ. Alþb. vill ekki vera minna en hinir stjórnarflokkarnir og leggur fram frumvarpslíki um efnahagsmál, að því er fregnir herma, 2. mars s. l. Eins og sakir standa eru í umferð í ríkisstj. þrjú eða fleiri frv. um efnahagsmálastefnu, frá hverjum stjórnarflokkanna fyrir sig. Eftir 8 mánaða samningaþóf eru stjórnarflokkarnir engu nær og landið er stjórnlaust.

Vinstri stjórnin var andvana fædd. Skýringin er sú, að fyrsta og helsta hugsun hvers stjórnarflokksins var og er að koma hinum tveim á kaldan klakann. Þeir sitja á svikráðum hver við annan og gera sér grein fyrir því og eru því tortryggnir á varðbergi hver gagnvart öðrum. Í það fer tími þeirra, orka og áhugi svo að ekkert leyfir af til að beina athyglinni að þjóðarhag.

Þegar svo stendur á er ný verðbólguholskefla fram undan, en jafnvel áður en áhrif hennar eru komin fram er sjávarútvegurinn rekinn með margra milljarða kr. halla svo og ýmsar aðrar atvinnugreinar í landinu, eins og landbúnaður, og afkoma iðnaðar og verslunar er síst betri.

Hér á ég eingöngu við afkomu atvinnuveganna án viðbótarvanda sem olíuverðshækkun erlendis skapar, vonandi tímabundið, og treysta verður að þjóðin í heild taki á sig. Þá hef ég ekki gert að umtalsefni tillögu fiskifræðinga um takmörkun þorskveiða, enda hefur ráðgjafarnefnd skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka ekki skilað áliti og sem betur fer hefur mikil veiði úr öðrum fiskstofnum bætt okkar hag á yfirstandandi ári umfram það sem var á síðasta ári.

Herra forseti. Almennur skilningur hefur aukist á því, að raunhæf efnahagsstefna felst í samræmdum aðgerðum á mismunandi sviðum efnahags- og atvinnulífs: ríkisfjármála, peninga- og bankamála, kjara-, launa- og verðlagsmála. Núv. stjórnarflokka greinir á á flestum þessum sviðum. Þá greinir á um hver ríkisumsvif eigi að vera, hvort auka skuli eða draga úr skattbyrði atvinnuvega og/eða einstaklinga, hve fjárfestingin eigi að vera mikill hluti þjóðarframleiðslu og hvernig henni skuli stjórnað, hver stefnan skuli vera í vaxta- og verðtryggingarmálum, hvernig vísitölubindingu launa og samningum um kjaramál skuli háttað eða verðlagsmálum og niðurgreiðslum hagað, svo að nokkuð sé nefnt. Jafnvel þótt núv. ríkisstjórnarflokkum tækist að klambra saman frv. um efnahagsmál benda öll sólarmerki til þess, að um hreina ómynd yrði að ræða, sama marki brennda og bráðabirgðaúrræði ríkisstj. hingað til, sem sífellt hafa aukið á vandann.

Hér verður að brjóta blað og hverfa að öðrum ráðum. „Stuðningsflokkar ríkisstj. sjá fátt annað til úrbóta en aukin ríkisafskipti og meiri skattheimtu. Sjálfstæðismenn hafna þessum vinnubrögðum sem leiða til áframhaldandi verðbólgu og versnandi lífskjara. Þess í stað vilja sjálfstæðismenn,“ eins og segir í stefnuyfirlýsingu þeirra um efnahagsmál, „auka frelsi einstaklingsins til þess að ráðstafa eigin aflafé og hvetja hann til dáða. Þeir telja almennar reglur heppilegri en boð og bönn og vilja draga úr miðstýringu með því að flytja verkefni frá ríki til sveitarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga. Þeir vilja nýta kosti frjálsra viðskipta og markaðskerfis og tryggja að ákvarðanir séu teknar af ábyrgð og þekkingu.“

Í efnahagsyfirlýsingu Sjálfstfl. er greint frá því, hvernig auka skuli verðmætasköpunina í þjóðfélaginu, bæta hag almennings og takast á við verðbólguvandann. Það veltur á svari þínu, áheyrandi góður, hvort þú fellst á leið okkar sjálfstæðismanna eða mismunandi leiðir andstæðinga okkar.

Viljum við Íslendingar að gjaldmiðill okkar sé gjaldgengur hvar sem er í heiminum og launþeginn telji alvörupeninga upp úr umslaginu, eða viljum við loka okkur frá umheiminum með gervigjaldmiðli sem er aðeins skömmtunarseðill á það sem valdhafarnir á hverjum tíma vilja láta í té?

Viljum við að sá sem sparar fái sparnað sinn endurgreiddan í jafnverðmætum krónum og lántakandi beri ábyrgð á að nota lánsfé og endurgreiða með þeim hætti, eða á lántakandi að græða á verðbólgu og lánsfjárskömmtunarstjórar að úthluta verðbólgugróða til óverðugra sem verðugra?

Vilja menn auka sparnað, örva atvinnulíf og arðsemi og bæta þannig þjóðarhag, eða leyfa verðbólguspekúlöntum að ráðskast með sparifé þjóðarinnar svo að það brenni upp á verðbólgubálinu?

Vilja menn draga úr skattheimtu og umsvifum hins opinbera til þess að auka þannig forræði fólks yfir eigin tekjum, eða treysta menn betur valdhöfum til að sjá fólki farborða?

Vilja menn fella niður þá auknu skattheimtu sem núverandi stjórnarflokkar hafa lögfest, þannig að almennar launatekjur verði tekjuskattsfrjálsar og opinber gjöld af viðbótartekjum fari ekki yfir 50%, eða vilja menn sjá eftir tekjum sínum í verðbólguhítina, óeðlilegar niðurgreiðslur sem reynst hafa skammgóður vermir?

Vilja menn frjálsa verðmyndun og stuðla þannig að lægra vöruverði og húsbóndavaldi neytenda, eða treysta menn á einokun ríkisverslunar eða opinberar verðlagsákvarðanir?

Vilja menn frjálsa kjarasamninga á ábyrgð aðila, eða einhliða ákvörðun stjórnvalda um kaup og kjör eins og núv. stjórnarflokkar tíðka?

Hér hafa verið nefndar ýmsar þær spurningar, sem greina stefnu sjálfstæðismanna frá stefnu eins eða fleiri annarra stjórnmálaflokka í landinu. Sjaldan hafa verið skarpari skil milli stefnu Sjálfstfl. og annarra stjórnmálaflokka.

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa ekki innbyrðis komið sér saman um heildstæða efnahagsstefnu. Því er ekki eingöngu ástæða, heldur og brýn nauðsyn að kjósendur fái tækifæri til að velja og hafna í almennum þingkosningum.

Aðrir stjórnmálaflokkar láta að vísu í veðri vaka að fyrir þeim vaki einnig að byggja upp atvinnulífið og draga úr „kerfinu“. Þessir flokkar sýna hug sinn í verki með því að draga fjármagn úr atvinnulífinu með aukinni skattheimtu, en bjóða í staðinn mun lægri upphæðir í styrki og hagræðingarfé eftir mati og náð stjórnvalda.

Þessir flokkar segjast vilja draga úr „kerfinu“ með því að setja sífellt ný lög og reglugerðir um það, hvernig einstaklingar eigi að haga samskiptum sín á milli og við hið opinbera. Margar slíkar reglugerðir eru smásmugulegar og andstæðar siðferðisvitund þjóðarinnar, eru til þess fallnar að auka misrétti og spillingu í þjóðfélaginu, binda allt á klafa kerfisins, og endirinn verður sá að helmingur landsmanna verður settur til að rannsaka og hafa eftirlit með hinum helmingnum. Ljóst dæmi þessa er fyrirætlun stjórnarflokkanna um eignakönnun.

Sjálfstfl. er andvígur slíkri forsjá ríkisvaldsins, andvígur foreldravaldi yfir fullorðnu fólki og skírskotar til ábyrgðar einstaklingsins, framtaks hans og dugnaðar, sem leyst úr læðingi hafta og miðstýringar mun efla þjóðarheill andlega sem efnalega. Sjálfstfl. bendir á órjúfanleg tengsl efnalegrar verðmætasköpunar og andlegrar listsköpunar, efnalegrar framfarasóknar til að tryggja félagslegt öryggi og framgang mannúðarstefnu.

Núv. ríkisstjórnarflokkar hafa nú fengið starfsfrið til þess að sýna stefnu sína í verki. Þeim hefur mistekist, þeir ráða ekki við vandann og sitja aðeins til að halda krampataki í völdin. Því ber nauðsyn til að rjúfa þing og efna til nýrra kosninga.

Herra forseti. Hv. þm. Alþfl., Bragi Sigurjónsson, flytur brtt. við þingrofstillögu okkar sjálfstæðismanna, annars vegar til að fá enn 10 daga frest fyrir ríkisstjórnarflokkana til að koma sér saman og ef það bregst, þá hins vegar mánaðarfrest til að mynda nýja ríkisstj. áður en til þingrofs kæmi. Brtt. þessi er aðeins staðfesting á fyrri sýndarmennsku Alþfl.-þm. Þeir hafa fyrr nefnt ákveðnar dagsetningar þegar undur og stórmerki áttu að eiga sér stað, en þessir dagar komu og liðu og kratarnir koðnuðu niður.

Við sjálfstæðismenn höfnum þessari brtt. og munum greiða atkv. gegn henni Þessi brtt. ber vitni um að Alþfl. menn skortir kjark til að leggja verk sín og stefnu undir dóm kjósenda. Spurning er hvort þeir og aðrir stjórnarþm., sem eru sáróánægðir með stjórnarsamstarfið, herða upp hugann í atkvgr. um till. okkar sjálfstæðismanna og greiða henni atkv.

Sjálfstfl. telur eðlilegt með tilvísun til þess, sem hér hefur verið rakið, að gengið verði til þingkosninga áður en til nýrrar stjórnarmyndunar kemur. Sjálfstfl. væntir þess, að reynslan af þessari vinstri stjórn sannfæri íslenska kjósendur um nauðsyn stefnubreytingar, svo að þeir veiti Sjálfstfl. þann styrk að honum verði falin ábyrgð á stjórnarathöfnum eftir kosningar:

Ég þakka þeim sem hlýddu.