06.03.1979
Sameinað þing: 62. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3003 í B-deild Alþingistíðinda. (2372)

207. mál, þingrof og nýjar kosningar

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Hv. áheyrendur. Þetta er ákaflega einkennileg tillaga. Hún er svo einkennileg að það er ekki einu sinni hægt að líta hana alvarlegum augum. Það er því sannarlega óþarfi að eyða á hana miklu púðri. Það er engu líkara en að sumir þm. séu komnir í kapphlaup um það, hver geti flutt framúrstefnulegustu þáltill. Fyrst flytur Vilmundur Gylfason sína nýstárlegu till., svo sem frægt er orðið, og nú flytur Sjálfstfl. allur og óklofinn, aldrei þessu vant, þessa furðulegu till. sem ég ætla að sé næsta fátíð í okkar þingsögu, að ég nú ekki tali um brtt. Braga Sigurjónssonar. Hún fer fyrir neðan garð hjá mér og ég ætla að leiða hjá mér að sinni að ræða hana.

Það er eins og fyrri daginn, að fádæmin eru verst, en frumleg er till. sjálfstæðismanna. Það er synd og skömm að ekki skuli upplýst hver er hinn raunverulegi höfundur þessa hugverks. Maður með slíka hugkvæmni og sköpunargáfu væri að mér finnst sjálfkjörinn í heiðurslaunahóp höfunda. Þar væri hann þó í góðum félagsskap.

Þessi till. er ekki vantraust á ríkisstj. Ef flm. væri einhver alvara hefðu þeir auðvitað borið fram vantrauststill. En þeim er engin alvara. Og út frá því sjónarmiði verður að ræða hana. Hún er ákall til mín, hún er áskorun á mig. Á ég að skoða það sem vantraust á mig eða á ég að skoða hana sem traustsyfirlýsingu? Hver getur skorið úr því? Þetta er ekki út í bláinn sagt. Það sýnist gert ráð fyrir því, að stjórnin sitji áfram með fullu umboði þrátt fyrir þingrof, stjórni kosningaframkvæmd og geti gefið út brbl. eftir því sem nauðsyn krefur. Ekkert er sagt um að stjórnin skuli segja af sér eftir kosningar. Gerir þó Sjálfstfl. tæplega ráð fyrir að hann fái hreinan meiri hl., þannig að allar líkur eru til að stjórnarflokkarnir hefðu meiri hl, eftir kosningar. Það er sem sagt engan botn hægt að fá í það, hvað fyrir flm. vakir.

Auðvitað er þessi till. einber sýndarmennska, örvæntingarfull tilraun á elleftu stundu til að auglýsa stjórnarandstöðu sem flestir voru búnir að gleyma að væri til.

Núv. ríkisstj. hefur starfað í hálft ár. Hún er samsteypustjórn ólíkra flokka. Í henni hefur gætt ágreinings um ýmis atriði. Á því er engin launung, enda má segja að stjórnin vinni fyrir opnum tjöldum og hefur það ekki bætt starfsskilyrði hennar. Það skal fúslega játað, að ágreiningur innan stjórnarflokkanna hefur nokkuð tafið afgreiðslu mála. Það hefur stundum tekið lengri tíma en æskilegt er að nauðsynleg niðurstaða fengist.

Þrátt fyrir nokkra agnúa á stjórnarsamstarfinu hefur ríkisstj. fylgt fram markaðri stefnu í efnahagsmálum, en að þeim málaflokki er kastljósi fyrst og fremst beint nú. Með markaðri stefnu á ég við þá stefnu sem ákveðin var í málefnasamningi stjórnarflokkanna. Hitt er rétt, að framkvæmdin hefur ekki orðið eins hröð og ráð var fyrir gert þegar lagt var af stað.

Hér er það fyrst að nefna, að fjárlög og lánsfjáráætlun voru afgreidd í samræmi við mótaða stefnu. Það er ákaflega mikilvægt, því að þar er mótuð í veigamiklum atriðum efnahagsstefna fyrir þetta ár. Í annan stað bendi ég á að þær ráðstafanir, sem í samstarfsyfirlýsingunni eru kallaðar fyrstu aðgerðir, hafa allar verið framkvæmdar. Þar er um að ræða ráðstafanir sem nauðsynlegar voru til að koma í veg fyrir stöðvun atvinnurekstrar og tryggja áframhaldandi rekstur, a. m. k. fyrst um sinn. Þá fólu og þessar ráðstafanir í sér fyrstu spor til hjöðnunar verðbólgu í áföngum. Það er staðreynd, að þessar aðgerðir hafa þegar leitt til umtalsverðrar lækkunar frá því verðbólgustigi sem var þegar ríkisstj. tók við. Þessar aðgerðir hafa verið framkvæmdar í áföngum. Ráðstafanir þær, sem gripið var til í sept. s. l., sbr. lög um kjaramál, mörkuðu fyrsta áfanga. Með ráðstöfunum samkv. lögum um viðnámsaðgerðir gegn verðbólgu frá því um mánaðamótin nóv.–des. var verkinu áfram haldið og í reynd þá hafinn annar áfangi þess starfs í efnahagsmálum sem um var fjallað í samstarfsyfirlýsingu ríkisstj.

Ráðstafanir þær, sem framkvæmdar voru í þessum tveimur áföngum, voru ekki bráðabirgðaúrræði í þeim skilningi að þær væru tímabundnar og væru úr sögunni að tilteknum tíma liðnum. Á hitt var engin dul dregin, að þær fólu ekki í sér varanlega lausn efnahagsvandans og ekki nema að nokkru leyti þá breyttu efnahagsstefnu sem boðuð var. Með því lagafrv, um stjórn efnahagsmála o. fl., sem er í smíðum, er ætlunin að ákveða varanlegri úrlausnir. Það frv. ber að skoða sem þriðja og langsamlega veigamesta áfangann á þeirri braut að móta og síðan fylgja fram samræmdri aðhaldsstefnu í fjárfestingarmálum, peningamálum og verðlagsmálum í samhengi við heildarstefnu í skattamálum og efnahagsmálum almennt. Stefnumið þessa frv. þurfa að vera þau að marka stefnu í efnahagsmálum til næstu ára, að tryggja atvinnuöryggi, að gripa til ráðstafana þegar í stað á sviði fjármála, peningamála, launamála og verðlagsmála sem stefna að hjöðnun verðbólgu í áföngum og ekki hvað síst með endurskoðun vísitölukerfisins að búa í haginn fyrir efnahagslegar framfarir og bætt lífskjör í landinu.

Það hefur dregist lengur en góðu hófi gegnir að ganga frá lagasetningu um þessi efni. Af því hefur þegar hlotist alvarlegt tjón. En dettur nokkrum í hug að úr því tjóni yrði dregið með þingrofi, nýjum kosningum og stjórnarmyndunarviðræðum sem eftir reynslunni gætu dregist nokkuð á langinn? Mundu slíkar aðgerðir flýta fyrir nauðsynlegri lagasetningu um efnahagsmál? Ætli þau mál yrðu ekki lögð til hliðar a. m. k. að mestu leyti á meðan kosningabaráttan og stjórnarmyndunarsamningar stæðu yfir? Hvert ætli verðbólgan yrði þá komin? Þessum spurningum getur hver og einn velt fyrir sér.

Um væntanlegt efnahagsmálafrv. ræði ég hér ekki frekar. Það er þá fyrst viðeigandi er það hefur verið lagt fyrir Alþingi.

Sjálfstæðismönnum verður tíðrætt um skattaálögur. Það er alveg rétt, að skattar á hærri tekjum og eignum einstaklinga og fyrirtækja hafa verið hækkaðir. Það var óhjákvæmilegt vegna ráðstafana sem gerðar voru til að draga úr verðbólgu og víxlhækkunum kaupgjalds og verðlags. Auðvitað finna einhverjir fyrir þessum hækkunum. En hvar hefðu þeir verið staddir, t. d. atvinnurekendur, ef engar aðgerðir hefðu verið gerðar til að hefta verðbólguvöxtinn? Vilja þeir ekki bera saman skattahækkanir sínar og kostnaðarlækkanir vegna lægri kaupgreiðslna? Að sjálfsögðu á slíkur samanburður ekki við hjá öllum og efalaust koma þessar nýju skattaálögur illa við einhverja.

En sjálfstæðismönnum gleymist að þeir skildu eftir sig skattalög. Þeir beittu sér á s. l. vetri fyrir setningu nýrra skatttal. Það eru lög nr. 40/1978. Þau eru nú gengin í gildi, en koma ekki til framkvæmda fyrr en við skattlagningu á árinu 1980. Þá fyrst sjá menn ávexti þessarar löggjafar. Efalaust er margt til bóta í þessum skattalögum, en annað orkar tvímælis, svo að ekki sé meira sagt. Og hvað sem öðru líður, þá er á þeim sá annmarki, að sum ákvæði þeirra eru ærið torskilin venjulegu fólki. Þau virðast helst vera gerð fyrir skattamálasérfræðinga. Eitt er þó alveg augljóst, að í þeim felst stórkostleg skattahækkun og þá sérstaklega á atvinnurekendum, sbr. 44. og 45. gr. laganna. Ég dreg ekki í efa, að slíkt geti átt rétt á sér, en þessi lagaákvæði eru svo haganlega gerð að það er ómögulegt að sjá fyrir fram hve miklu þessar skattahækkanir nemi. Ég get a. m. k. ekki ráðið þá gátu. Þess háttar lagasetning kann að vera klókindaleg frá pólitískum sjónarhóli, en tæplega til fyrirmyndar frá lagatæknilegu sjónarmiði.

Sjálfstæðismenn hafa lýst mikilli hneykslun yfir því, að rætt hafi verið um að fela ríkisskattstjóra að gera könnun á eignum manna og skuldum og þá einnig þeirra sem undanþegnir eru framtalsskyldu. En hvað segir í þeirra eigin lögum? Í 94. gr. laganna segir svo, með leyfi forseta:

„Öllum aðilum, bæði framtalsskyldum og öðrum, er skylt að láta skattyfirvöldum í té ókeypis og í því formi sem óskað er allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn er þau beiðast og unnt er að láta þeim í té. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort upplýsingarnar varða þann aðila, sem beiðninni er beint til, eða aðra aðila, sem hann getur veitt upplýsingar um.

Vegna skatteftirlits skv. lögum þessum getur skattstjóri, skattrannsóknarstjóri, ríkisskattstjóri og menn, sem þeir fela skatteftirlitsstörf, krafist þess að framtalsskyldir aðilar leggi fram til könnunar bókhald sitt og bókhaldsgögn, svo og önnur gögn er varða reksturinn, þar með talin bréf og samningar. Enn fremur hafa þessir aðilar aðgang að framangreindum gögnum og aðgang að starfsstöðvum framtalsskyldra aðila og birgðageymslum og heimild til að taka skýrslur af hverjum þeim sem ætla má að geti gefið upplýsingar er máli skipta. Sömu heimildir hefur skattrannsóknarstjóri vegna rannsókna samkv. 102. gr.

Ríkisskattstjóri og skattrannsóknarstjóri hafa enn fremur heimildir þær er um getur í 2. mgr. þessarar gr. gagnvart þeim aðilum sem ekki eru framtalsskyldir, svo og öllum stofnunum, bönkum, sparisjóðum og öðrum peningastofnunum.“ — Ég les ekki lengra.

Hér er í rauninni heimild til stöðugrar eignakönnunar hvenær sem er. Hvenær sem er geta skattaeftirlitsmenn gert þá leit, sem í greininni segir, og á þeim stöðum, sem þar greinir, án þess að nokkur dómsúrskurður liggi fyrir. Þeir geta leitað í skrifborðum og frystikistum og raunar hvar sem er. Það getur verið hyggilegra að geyma ekki gömul bréf um viðkvæm málefni. Það eru þessar víðtæku leitarheimildir án atbeina dómara sem ég hef leyft mér að segja að minni óneitanlega á lögregluríki. Og það mætti nefna fleiri dæmi úr lögunum í svipuðum dúr.

Auðvitað er ég ekki að mæla skattsvikum hót og vissulega er þörf á skilvirku skattaeftirliti. En hóf er best í hverjum hlut. En á þetta bendi ég umfram allt til þess að sýna fram á þá hræsni sem sjálfstæðismenn hafa borið á borð fyrir menn í þessum efnum. Og svo þykjast þeir vera sjálfkjörnir verndarar friðhelgi einkalífs. Það væri ákaflega þarft verk ef fyrrv. fjmrh., vinur minn elskulegur, Matthías Á. Mathiesen, tæki sér fyrir hendur, á meðan hann bíður eftir ráðherrastóli og hefur dágott næði, að semja skýringarrit við þessi lög sín. Ég hefði t. d. sérstaka unun af að lesa skýringar hans á ákvæði til bráðabirgða nr. 4 og svo mundi vera um fleiri.

Þetta ætti að nægja um skattamálin, en þau hafa hingað til átt að vera aðaltromp sjálfstæðismanna. Þeir hafa meira að segja boðað til sérstakra funda um þau. Á þeim fundum ættu þeir framvegis að ræða um eigin afrek á þessu sviði.

Sjálfstæðismenn brýna Alþb.-menn og Alþfl.-menn mjög á því, að þeir hafi ekki sett samningana í gildi svo sem þeir hafi heitið í kosningabaráttunni, og í grg. með þáltill. er það nefnt sem fyrsta ástæða fyrir till., að þetta fyrirheit hafi ekki verið efnt. Fyrrv. ríkisstj. gerði ráðstafanir í efnahagsmálum sem hún taldi óhjákvæmilegar. Þær gripu m. a. inn í kjarasamninga. En nú þegar sjálfstæðismenn eru komnir í stjórnarandstöðu mana þeir og særa sigurvegara kosninganna til að setja samningana í gildi, þ. e. a. s. að gera það sem sjálfstæðismenn áður töldu ófært og þjóðarbúinu ofviða. Hvaða samræmi er í svona málflutningi? Hvernig á að treysta mönnum sem breyta afstöðu sinni til mála svo gersamlega eftir því hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu? Hver er kjölfesta slíkra stjórnmálaskoðana og stjórnmálamanna? Hvernig geta þeir ætlast til þess að þeir séu teknir alvarlega?

Þessi þáltill. fær auðvitað þinglega afgreiðslu með eðlilegum hætti. Hvort sem fyrir flm. hennar hefur vakað að votta mér vantraust eða veita mér traust, þá vil ég að lokum taka fram, að í samræmi við óformlegt samkomulag stjórnarflokkanna við stjórnarmyndun mun ég samstundis segja af mér ef þessi till. verður samþykkt, sem ég hef raunar enga ástæðu til að ætla. Þar með er stjórnin fallin. Þeir, sem vilja drepa stjórnina, greiða því þessari þáltill. atkv. — aðrir ekki. Verði þessi till. samþ. þurfa því engir að velkjast í vafa um það, hverjir þurfa að lýsa vígi á hendur sér, og þá eru þeir auðvitað siðferðilega skuldbundnir til þess að mynda nýja stjórn.

Ég þakka þeim sem hlýddu. Góða nótt.