07.03.1979
Sameinað þing: 63. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3036 í B-deild Alþingistíðinda. (2383)

207. mál, þingrof og nýjar kosningar

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það kom fram í umr. í gærkvöld, og raunar áðan í máli þm. sem telja sig til svokallaðs stjórnarliðs, — sem á nú fátt sameiginlegt nema telja sig til stjórnarliðs og þar með er eiginlega upp talið, — að þessi till., sem þm. Sjálfstfl. flytja, sé ekki tímabær og jafnframt sé undarlegt að flytja ekki fremur till. um vantraust en að flytja till. um þingrof og nýjar kosningar. Till. um þingrof og nýjar kosningar felur það í sér að þeir, sem flytja till. og leggja til að skora á forsrh. að leggja til við forseta Íslands að Alþ. verði rofið og efnt til nýrra almennra þingkosninga svo fljótt sem við verður komið, telja að sú ríkisstj., sem setið hefur frá 1. sept., sé allsendis ófær um að stjórna landinu. Því flytja þeir till. um þingrof og nýjar kosningar, en ekki till. um vantraust og þá aftur langvarandi umr. um myndun nýrrar ríkisstj. Sjálfstfl. er ekki þeirrar skoðunar, að eftir starf þessarar ríkisstj. í 6 mánuði, ef hún fer frá, sé ekki grundvöllur fyrir myndun nýrrar ríkisstj, heldur sé ekki um annað að ræða en þingróf og nýjar kosningar. Að þeim loknum er grundvöllur að ræða um nýtt stjórnarsamstarf.

Það kom greinileg í ljós strax eftir kosningar, þegar sigurvegarar kosninganna, Alþfl. og þar næst Alþb., hófu viðræður sínar, það sá hver maður fljótlega, að ekki var um að ræða sérstaka samvinnu milli þessara flokka, vegna þess að þó að þeir kalli sig sjálfir verkalýðsflokka er bilið á milli þeirra svo geigvænlegt að þessir flokkar ná síst af öllum saman í þjóðfélagi okkar. Þeir trúa ekki hvor öðrum til nokkurra hluta og eru jafnhliða tilbúnir að gera hvor öðrum alla þá bölvun sem þeir geta. Þetta eiga svo þessir tveir flokkar sameiginlegt, í þessu ná þeir saman og um það verður ekki deilt. Það þýðir ekki fyrir nokkra aðra að halda því fram, að þessir flokkar vinni ekki á þennan hátt, enda hafa þeir áþreifanlega sýnt það á þessum mánuðum og geta aldrei dregið fjöður yfir það, ekki einn einasta dag.

Nú er það að verða mikið uppáhaldsumræðuefni kratanna í uppreisnarliðinu, sem þeir kalla það, eða „órólegu deildinni“, eins og kommarnir kalla þá, að kalla ákveðna flokka verðbólguflokka. Þeir eru aftur á móti flokkurinn sem berst gegn verðbólgunni, þeir eru flokkurinn sem tekst núna á við vandann, eins og þeir segja. Lengi vel grunuðu þeir hæstv. forsrh. um græsku, en núna hefur gengi hans hækkað óðfluga og í fullu samræmi við gengislækkun íslensku krónunnar.

Eitt af því, sem þessir flokkar töldu sig hafa náð samstöðu um fyrir jólin, var afgreiðsla á fjárlagafrv. Lánsfjáráætlunin sást ekki fyrr en seint í febrúar, og 1. umr. í fyrri d. um frv. sem fylgir henni, um lántökuheimildir, er enn ekki lokið. Það varð mikill darraðardans hér í þingi út af þessu fjárlagafrv. og sérstaklega kvöldið sem órólega deild Alþfl. flutti margar brtt. við fjárlagafrv., en það stóð ekki lengi, þeim var smalað saman í eitt herbergið niðri í húsinu og þar voru þeir flengdir og þegar þeir komu upp voru þeir eins og barðir barnsrassar allir og tóku till. aftur. Á þessum grundvelli var svo fjárlagafrv, afgreitt og þá var sagt að full samstaða ríkti um afgreiðslu þessa fjárlagafrv. En í kjölfar þess þurfti að fara í ýmsar aðrar aðgerðir, sem eru alveg lausar við það efnahagsfrv., sem alltaf er verið að tala um og hefur mest verið um talað. Þessir stjórnarflokkar tóku þá ákvörðun um að breyta niðurgreiðslum á vöruverði og lækka útgjöld ríkissjóðs um 2800 millj., tóku ákvörðun um að hækka gjöld á þeim, sem þurfa að leita til sérfræðinga, kostnaðarhlutdeild í lyfjum þeirra sem leita á göngudeildir, sem áttu að gefa ríkissjóði 940 millj. kr. Ekkert af þessu hefur enn þá verið gert. Það var sagt við allar dagsetningar, sem ýmsar ákvarðanir í ríkisstj. hafa verið miðaðar við, að þetta væri ekki alveg tilbúið, en væri að koma. Ég spyr: Hvernig ætlar ríkisstj. að reka ríkissjóð með þessum hætti? Hefur hún fundið einhverjar tekjur annars staðar til þess að mæta því, að hér á ekkert að gera samkv. þeirri ákvörðun sem þeir tóku sjálfir? Það var ekki stjórnarandstaðan, sem tók þessa ákvörðun fyrir þá eða með þeim.

Aðrar ákvarðanir hafa verið teknar í sambandi við rekstur ýmissa ríkisstofnana. Hv. 1. þm. Reykn. gat áðan í ræðu sinni um ástand í rekstri Pósts og síma. Þar er reiknað með og talið að muni verða greiðsluhalli upp á 2 milljarða á þessu ári. Allir vita að upphæðir í fjárl. í ár til sjúkratrygginganna og að nokkru leyti til lífeyristrygginga þyrftu að vera nokkrum milljörðum hærri. Það er líka vitað mál, það vita allir, að uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir eru allt of lágar samkv. fjárl. yfirstandandi árs og vantar þar stórar upphæðir. Öllu þessu er velt á undan sér. Svo koma talsmenn ríkisstj. og hæla sér af því, hvað þeir hafi náð miklum árangri í baráttunni við verðbólguna. Allir vita að verðbólgan heldur áfram með fullri ferð og baráttan við verðbólguna hefur engin verið. Hvernig á ríkisstj., sem er alltaf að berjast innbyrðis, að berjast við verðbólgudrauginn? Það er ekkert afl eftir til þess að berjast við verðbólgudrauginn af því að þeir eru alltaf að berjast innbyrðis, bæði er barist innan þessara þriggja flokka og á milli þessara sömu flokka. Það er hvorki eftir tími né orka til þess að berjast við vandamálin í þessu þjóðfélagi.

Eitt af fáum atriðum í hinu margumtalaða efnahagsmálafrv., sem ekki hefur séð dagsins ljós á Alþ., er afnám launaþaksins. Þar náðu þeir saman allir. Hvað gerir svo meiri hlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur, sem er myndaður af fulltrúum þessara ríkisstjórnarflokka? Hann afnemur launaþakið? Hver er svo ástæðan fyrir því, að Kjaradómur, eða meiri hluti hans, kveður upp þann dóm, að launin skuli hækka alveg upp úr? Það sem hefur gerst á undan, fordæmin sem vinstristjórnarflokkarnir í borgarstjórn Reykjavíkur hafa sýnt. Þessar launahækkanir kosta 1 milljarð, að sagt er. Þetta er baráttan við verðbólguna. Það er von að menn haldi áfram að gorta af þeirri baráttu. Ég spyr formann órólegu deildarinnar í Alþfl., hv. 7, þm. Reykv.: Er Björgvin Guðmundsson borgarfulltrúi Alþfl. ekki enn þá í Alþfl.? Er afnám launaþaksins og fullar verðbætur á hæstu laun ekki verðbólguhvati? Er það barátta við verðbólguna? Er hann þá kominn í verðbólguflokk og verðbólguflokksdeild í Alþfl.? Hann er ekki alveg saklaus, Alþfl. Það þýðir ekki alltaf að setja upp sitt gamla Aragötubros, frá því að þú varst lítill, saklaus drengur. Og blessuð frúin, hv. 12. þm. Reykv., sem var að tala áðan um verðbólguflokkinn, — hún átti við Sjálfstfl., hann væri eini verðbólguflokkurinn, því að hann hefur leitt verðbólgu yfir þjóðina, — hún er svo langt leidd núna í Framsóknardekrinu að hún hefur alveg gleymt því, að Framsfl. átti aðild að síðustu ríkisstj. og núv. hæstv. forsrh. fór með viðskipta- og verðlagsmál í þeirri ríkisstj. Nú er Framsókn orðin svona góð hjá blessaðri frúnni, að hún kom ekkert nálægt neinu sem lýtur að verðlagsmálum eða átti neina aðild að verðbólgu. En hverjir ætli séu höfuðtalsmenn og þeir sem mest hafa stutt verðbólgu á liðnum árum? Kratarnir þurfa ekki að fara í geitarhús að leita ullar, því að þeir hafa tekið undir allar kröfur í þessum efnum með kommúnistum á liðnum árum. Ef þeir hefðu tekið undir skynsamlegar aðgerðir fyrrv. ríkisstj. í þeim efnum, þá væri vandi þeirra nú allur annar en raun ber vitni. Þar voru elskendur verðbólgunnar á ferðinni. Og hvað segir sá ágæti landsfaðir og landsstjóri um vísitöluþakið og um dóm Kjaradóms, Guðmundur jaki, sem við köllum? Hann er ekki ánægður í dag. Nú er hann búinn að fá nóg. Bragð er að þá barnið finnur! Það er nú komið að því.

Ég held að það ætti að hafa sér umr. um skattamálin og skattalög á liðnum árum. Ég held að gamla Framsóknarmaddaman verði ekki hvítþvegin af afskiptum sínum af skattamálunum frekar en öðrum málum. Það eru tekin inn í fjárlög 75 millj. kr. ný útgjöld á ríkið í aukið skatteftirlit. Það er engin smáupphæð þegar verið er að skera flest annað niður. En það er ekki gert ráð fyrir neinum tekjum af þessu aukna aðhaldi. Lagðar eru til grundvallar sömu spár um skatttekjur. Á þetta aukna skatteftirlit ekki að gefa neinar auknar tekjur? Er þetta aðeins gert til þess að koma einhverjum nýjum á spenann hjá ríkinu, það sé ekki nóg fyrir, og eyða 75 millj. kr.? Á enginn afrakstur að vera af þessu starfi? Það virðist ekki vera samkv. þessu.

Hv. 9. þm. Reykv., Einar Ágústsson, kreisti það upp úr sér, að hann styddi ríkisstj. Ég kalla það vel gert af honum að koma þessari setningu heilli út úr sér. En svo komu auðvitað margir fyrirvarar á eftir. Hann minnti á ástandið sem hefði verið, og hann sagði líka að hann teldi að það væri ekki sama hvað þessir nýju gerðu sem væru í ráðherrastólunum, það þyrfti líka að koma til þeirra sem ættu að greiða atkv. til að koma málum fram hér í þingi, og hann væri ekki tilbúinn að taka við öllu því sem þeir aðhefðust — þessir 9 sem eru í sandkassaleiknum. En það þarf líka að bæta einu við. Það kemur að því, þó að till. okkar um þingrof og nýjar kosningar verði felld, að þessi ríkisstj. verður að leggja starfsleysi sitt og vangetu að lokum undir dóm þjóðarinnar. Og ég skil ósköp vel þá menn, sem sópuðu til sín atkv. á s. l. sumri á fölsk:um forsendum og með lyginni einni saman og hafa staðið sig jafnhörmulega og þeir hafa staðið sig frá því að núv. ríkisstj. var mynduð, að þeir séu hræddir við nýjar kosningar og dóm fólksins. Ég er ekkert að álasa þeim fyrir það. Þeir eru ekki kjarkmeiri menn en það, að þeir þora ekki að standa frammi fyrir þjóðinni og leggja úrræðaleysi sitt og aumingjaskap undir dóm hennar. Það er ekki alltaf reglulegur svefn sem þeir hafa, þessir piltar, ef þeir hafa einhverja samvisku.

Hv. 9. þm. Reykv. sagði að sig minnti að þegar hann varð ráðh. 1971 og fyrri vinstri stjórn var mynduð hefðu verið einhverjir erfiðleikar, hann hefði ekki verið að tíunda þá, en bauðst til þess að fletta þessu upp fyrir mig. Hann þarf ekki að fletta neinu upp fyrir mig varðandi þetta, en hann þyrfti að fletta því upp fyrir sjálfan sig, því að hann mundi, þegar til kom, ekki eftir neinu. Þegar sú stjórn var mynduð tók hún við gildum sjóðum. Þá vann hún sér nokkuð til inntekta, þessi stjórn. Hún var fljót að hækka bætur almannatrygginga vegna þess að þáv. fjmrh. skildi kassann eftir alveg fleytifullan. En hækkunin átti ekki að taka gildi fyrr en 1 . ágúst og karlar voru fljótlega útausandi. Það var mjög þarft verk sem þeir gerðu þá og hefði verið nær af þeirri ríkisstj. að láta þær bætur taka gildi fyrr. Ég veit að hann man þetta, hv. 1. þm. Austurl., hann er svo minnisgóður.

Við skulum nefna líka viðskilnað þeirrar ríkisstj. sem sat 1971–1974. Hvernig var hann? Það er þó skemmri tími síðan og hv. 9. þm. Reykv. ætti að muna við hverju þá var tekið. Þá var tekið við mörgum víxlum sem átti eftir að greiða, m. a. niðurgreiðslu á vöruverði og gjaldþrota sjóðum í sjávarútvegi. Atvinnulífið var að stöðvast þá og það sem verra var, sem sú stjórn gat ekki gert að frekar en aðrir, það var hríðfallandi verð á erlendum mörkuðum. Við þessu tók sú ríkisstj. og það ástand hélt áfram allt árið 1975. Það fór ekki að rétta við aftur fyrr en í ársbyrjun 1976. En sú stjórn tók öðruvísi á kjaramálum en núv. ríkisstj. Hún setti á láglaunabætur og hún setti sér það takmark að láta ekki við slíkar aðstæður alla fá fulla verðlagsuppbót á laun, heldur fyrst og fremst lágtekjufólkið. En ástandið hefur verið þannig í þessum málum, að verkalýðsfélögin hafa aldrei ráðið við það að styðja láglaunastefnuna, því að þeir, sem hafa haft góðar tekjur, hafa sagt: Við verðum að fá alveg fullar verðbætur á hverjum tíma. — Og þeir hafa látið undan þessum þrýstihópum og það er gert enn í dag. Það er ógæfan. Við værum kannske betur á vegi stödd nú í baráttunni við verðbólguna, ef annað hefði orðið ofan á.

En þrátt fyrir allt, þrátt fyrir erfiðleika útflutningsatvinnuveganna hélt fyrrv. ríkisstj. sínu striki áfram. Hún vann frækna sigra á verðbólgunni þangað til aðilar vinnumarkaðarins sömdu um þá gífurlegu kauphækkun sem engan veginn fær staðist, hvorki í okkar þjóðfélagi né nokkru öðru. Kauphækkanir geta átt sér stað alveg eins og hver og einn biður um. Ef menn vilja fá 1 millj. á tímann, þá er það hægt strax í dag. En fólk fær ekkert meira fyrir það af því sem þarf að kaupa ef þetta er ekki raunveruleg kjarabót. Það fer eftir framleiðslu þjóðfélagsins, það fer eftir útflutningsversluninni og mörgu öðru sem of langt mál yrði upp að telja. Það er þetta sem við sjálfstæðismenn höfum verið að reyna að hamra inn hjá bæði launþegum og atvinnurekendum, að það er ekki hægt að gera sífelldar kröfur, því að þessar kröfur verða til þess að verðbólgan heldur áfram að vaxa. Það eru viss öfl í þessu þjóðfélagi, sem bölva verðbólgunni daginn út og daginn inn, en innst inni vill þetta fólk verðbólgu.

Hjöðnun verðbólgu er ekkert höfuðatriði fyrir atvinnurekanda sem getur velt síhækkandi framleiðslu sinni út í verðlagið hér innanlands, en hún er aðalatriði fyrir þá, sem eru að framleiða til útflutnings. Þeir eru háðir markaðskerfinu erlendis, þeir eru háðir samkeppni við aðrar þjóðir þar sem verðbólgan er mun minni. Þeir kvarta fyrst og fremst í þessum efnum. Fyrir mestum skaða verða þó þeir sem hafa lægstar tekjurnar. Þeir sem hafa ekki nema rétt til þess að fæða sig og klæða og lifa mjög einföldu og sparsömu lífi. Það fólk verður alltaf undir í baráttunni við verðbólguna, því að það getur ekki gert ráðstafanir sem ýmsir aðrir geta gert sem hafa nóga peninga handa á milli og geta fylgst með í því happdrætti sem þessi þjóð hefur tekið sig til og viðhaft í mörg undanfarin ár. Það er þess vegna sem við höfum lítið á láglaunabætur og takmörkun verðbóta á laun við lægstu launin, til þess að raska ekki þessu nauðsynlega jafnvægi sem þarf að vera í þjóðfélaginu. Það var hrapallega og viljandi misskilið af ýmsum af forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar á s. l. vetri og vori. En nú er það að koma í ljós, að með því að efla vinstri flokkana, kommana og kratana, til valda, bæði í ríkisstj. og þá ekki síður í Reykjavíkurborg, er verið að halda áfram að dansa þennan tryllta verðbólgudans á kostnað þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu.

Það er talað um að núv. hæstv. ríkisstj. hafi gert ráðstafanir til að halda uppi atvinnu í landinu og renna stoðum undir atvinnulífið. Hún hefur sem sagt ekki sagt við atvinnurekendur að halda sér fast í pensilinn og kippt stiganum undan þeim, eins og hv. 9. þm. Reykv. orðaði það. Hvað hefur hæstv. ríkisstj. gert til þess að renna traustum stoðum undir atvinnulíf landsmanna og þá sérstaklega undir það sem við köllum hornstein íslensks efnahagslífs, sjávarútveginn og aðrar greinar útflutnings? Jú, við hina miklu verðbólgu felldi þessi ríkisstj., um leið og hún tók við, gengi íslensku krónunnar. Annað var ekki hægt að gera. Ég er ekki að álasa henni fyrir það, því að það er nákvæmlega sama og við sjálfstæðismenn hefðum gert í þessum efnum. En það sem verra var og hún gerði: um leið og hún með þessum hætti var að koma því til leiðar að útgerð, fiskvinnsla og önnur framleiðsla til útflutnings héldi áfram lagði hún nýja skatta á þennan atvinnurekstur í landinu. Þar með var hún að veikja grundvöll þessa atvinnurekstrar sem alls annars. Og hún tekur upp það siðleysi í skattamálum ein allra ríkisstjórna, og er vonandi sú allra síðasta sem það gerir, að beita afturvirkni skatta, leggja aftur skatta á sömu tekjur, sem aldrei var í fyrri ríkisstj. orðað að taka upp af framsóknarmönnum sem sæti áttu þar eins og í þessari. Og ég hef aldrei heyrt þess getið, að í vinstri stjórn þar á undan, þegar vantaði stórfé til þess að standa undir rekstri þjóðarbúsins, dytti nokkrum slíkt siðleysi í hug. Hver upphafsmaður þessa siðleysis er veit ég ekki, enda skiptir það ekki öllu máli. Hitt skiptir máli, að 40 alþm. á Alþingi Íslendinga hafa lagt blessun sína yfir þetta einstaka siðleysi í skattamálum. Það hefði verið nær fyrir hv. 9. þm. Reykv. að segja stopp við þá í ríkisstj., þessa 9, þegar þeir fluttu það frv., en rétta ekki upp höndina með því.

Það var verið að gera ráðstafanir í sambandi við olíuverð til fiskiskipa um daginn. Hvaða fórnir lagði ríkisstj. á sig? Hvað lagði ríkissjóður af mörkum til að mæta þessu? Ekki eina krónu, ekki einu sinni álkrónu sem flýtur. Það var aðeins tekið af öðrum sjóðum sjávarútvegs og fært yfir. Sjómenn samþykktu að gera ekki tilkall til þeirrar fiskverðshækkunar sem varð með þeim hætti að bæta 2.5% ofan á fiskverð fram hjá hlutaskiptum og aflaverðlaunum og síðan bæta aftur fiskvinnslunni með því að draga úr tekjum í sjóðakerfi sjávarútvegsins. Af hverju var þetta hægt? Það var hægt vegna þess að áður var stjórn á þessum sjóðum sjávarútvegsins. Þeir áttu flestir, nema Fiskveiðasjóður, peninga sem hægt var að taka í þessu skyni. Þetta var eina afrekið sem hægt er að státa af og menn eru að reyna að státa af.

Það er sagt að athuga eigi með olíuverðið til þeirra sem þurfa að kynda hús sín með olíu. Það má ekki heldur gleyma þeim gífurlega aðstöðumun sem er á ýmsum atvinnurekendum, atvinnurekendum á hitaveitusvæðinu eða þeim atvinnurekstri sem verður að nota olíu, því að það hefur ekki verið komið til móts við þá aðila. Þetta er sagt að sé í athugun. Það er líka sagt að það eigi að athuga með bensínið. Við verðum nú að athuga að cif.-verð á bensínlítranum er innan við 50 kr. af 205 kr. verði. Ég held að tekjur ríkissjóðs af bensínverðinu séu 54 eða 55%, eða nokkuð á annað hundrað kr., og þar með er veggjaldið, sem fer beint til veganna og er, að mig minnir, tæpar 50 kr. á lítra. Ég held að ríkissjóður verði nú við þessar breytingar allar að draga úr eigin innheimtu til þess að jafna metin og jafna þann aðstöðumun sem er hjá hinum ýmsu þjóðfélagsþegnum.

Ég held að skattíþyngingar núv. ríkisstj. séu orðnar það margvíslegar, að þjóðin sé búin að fá nóg af þeim aðgerðum öllum. Það er því ekki að ástæðulausu að við sjálfstæðismenn flytjum till. um þingrof og nýjar kosningar. Við höfum heyrt frá þessum hv. stjórnarþm., að við værum grútmáttlausir, eins og þeir orða það, í stjórnarandstöðu og við hefðum ekkert látið til okkar heyra. Það er alveg rétt, við sjálfstæðismenn höfum verið mjög hóflegir í stjórnarandstöðu, vegna þess að þegar ný ríkisstj. er mynduð teljum við sem ábyrgur flokkur í þjóðfélaginu að hún eigi að fá starfsfrið til þess að gera ráðstafanir til lausnar aðsteðjandi vandamálum í þjóðfélaginu og stjórnarandstaða eigi ekki alltaf, svo að segja á hverjum degi, að ráðast að ríkisstj. sem er að undirbúa nauðsynleg úrræði. Það er svo aftur stjórnarandstöðu að gagnrýna þau úrræði, þegar þau eru komin fram. Þetta er ástæðan fyrir því, að við höfum fengið að heyra frá hv. stjórnarsinnum, að við værum grútmáttlaus stjórnarandstaða. En við sjálfstæðismenn spyrjum þjóðina: Telur þjóðin ekki heiðarlegra og skynsamlegra af Sjálfstfl. að reka slíka stjórnarandstöðu en að vera uppi í ræðustól á hverjum einasta degi og gagnrýna allt sem er verið að gera eða er verið að reyna að gera?

Frá því að ég tók sæti á Alþ. hefur sá siður verið allsráðandi, að stjórnarþm. fóru sjaldan í ræðustól, en stjórnarandstæðingar því oftar. Þá var það talið sjálfsagt í stjórnarherbúðum að reyna að greiða þannig fyrir framgangi mála að stjórnarliðar hefðu um þau sem fæst orð nema framsöguræður og skýringar, en hins vegar var það aftur háttur stjórnarandstæðinga að láta mun meira í sér heyra. En á þessu þingi, sem nú situr, hefur þetta breyst og það er fyrsta þingið sem ég verð var við þessa gífurlegu breytingu, en hún er sú, að nú eru stjórnarsinnar alltaf í hári saman á hverjum einasta degi, alltaf að skjóta hver á annan og segja ýmislegt illt í fari hver annars. Við stjórnarandstæðingar höfum oft setið og horft á. Þetta er það sem hv. 9. þm. Reykv. kallaði leiksýningu. Ég verð nú að segja það, að ég brosti og hló stundum fyrst í haust, en ég er orðinn hundleiður á þessum sömu leiksýningum þegar komið er fram í marsmánuð. En það getur vel verið að stjórnin taki sig til í harðri samkeppni við Austurbæjarbíó og sýni „Rúmrusk“ seint að kvöldinu, því að það hefur ekki verið sýnt hérna enn þá.

Nú segja stjórnarsinnar: Eigum við ekki að halda áfram að reyna? — Alþfl. segist ekki vera til viðtals um nein bráðabirgðaúrræði í efnahagsmálum. Hann sagði það strax 1. sept., þegar brbl. voru gefin út um bráðabirgðaúrræði í efnahagsmálum. Hann sagði, þegar þing kom saman, að hann væri ekki til viðræðu og mundi aldrei afgreiða fjárlög sem fælu ekki í sér heillega efnahagsstefnu til langs tíma. Hann heyktist á því. 1. des. rann upp. Hann heyktist þá og við afgreiðslu fjárl., og allir vita hvað gerst hefur síðan. Hann flutti frv. um efnahagsmál í Alþýðublaðinu. Það er í fyrsta skipti sem frv. um efnahagsmál hefur verið flutt í dagblaði, en ekki á Alþ. Síðan fór það í ríkisstj. Það vita allir hvað þar hefur gerst síðan. Hæstv. forsrh. sveiflast eins og kólfur í klukku á milli kratanna og kommanna. (Gripið fram í: Það fór aldrei í ríkisstj.) Jæja, í hvaða stjórn var hann þá eða stjórnleysi? (Gripið fram í: Það var bara í Alþýðublaðinu. )

En nú komum við að því: Hvernig geta menn bjargað sér? Menn eru misjafnlega liprir að bjarga sér út úr ógöngum. Gamall vinur minn, sem er nú látinn fyrir nokkrum árum, hafði gaman af því að segja af sér frægðarsögur nokkrar. Hann sagði okkur strákunum þessa: Hann var við iðnnám úti í Kaupmannahöfn og hann var uppi á „stillans“ á 4. hæð að vinna. Þá hrundi „stillansinn“. Hann gekk niður stigana og þegar hann kom út á götuna sá hann „stillansa“-hrúguna og fólkið hrópaði: Maðurinn hefur orðið undir „stillönsunum“. Hann hlýtur að vera dáinn. — Þá sagði karl að hann hefði sagt: Nei, ég er hér. Ég er sprelllifandi. Ég stökk inn um glugga á 2. hæð þegar „stillansinn“ hrundi. — Og nú er það: Hverjir úr stjórnarliðinu geta nú stokkið inn um glugga á 2. hæð til þess að bjarga sér þegar „stillansinn“ er hruninn?