07.03.1979
Sameinað þing: 63. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3064 í B-deild Alþingistíðinda. (2389)

207. mál, þingrof og nýjar kosningar

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég tók með mér í nesti rannsóknarblað og bið fyrir fram velvirðingar á því, ef mér skyldi verða á að vitna í það. Gaman væri og gott og ánægjulegt ef herra forsetinn gæti, svo skel hæfði kjafti, séð um það að smala hingað inn rannsóknarblaðamönnum. En þannig stóð á fyrir mér, að ég varð að hverfa af vettvangi með næsta löglegum hætti, þannig að ég hef ekki átt kost á því að fylgjast með umr. hér í dag. Ég skildi síðast við þar sem hv. 9. þm. Reykv. var að segja skemmtisögur af því, þegar maður var í stiga að mála og sjúklingur kom til hans og spurði hvað hann væri að gera og hann sagðist vera að mála, og þá tilkynnti sjúklingurinn að nú skyldi hann halda sér fast í pensilinn því nú tæki hann stigann. Kraftaverkin gerast enn. Uppi í háum stiga hefur átt að heita að ríkisstj. hafi verið að mála rósrauðum lítum fyrir þjóðinni hvernig hún ætlaði að fara að því að stjórna. Og svo hafa þeir gengið til og brotið þrep eftir þrep, hv. 7. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Austurl., og í gær fór hv. þm. Bragi Sigurjónsson með stigann. En ríkisstjórnin hangir á penslinum, og það er hið mikla kraftaverk sem við erum áhorfendur að. En hversu vel henni tekst til við málverkið sitt áfram, það er svo önnur saga.

Ég get stytt mál mitt og verð að gera, enda er sjálfsagt búið að drepa á flest þau atriði, sem máli skipta, í umr. hér í dag. En umr. stjórnarliðsins og ræðuhöld hér í gær á hinu háa Alþ. við útvarpsumr. eru langómerkilegasta málafylgja sem ég hef nokkurn tíma heyrt, og er þó langt til jafnað. Þeir vöfðu tungu um höfuð sér, og það var helsta haldreipi þeirra að fara um það mörgum orðum hvernig við hefðum það í Sjálfstfl., og ég get upplýst að við höfum það gott. Helst var á þeim að skilja að það kynni að verða þeim til varnar að halda því fram að Sjálfstfl. ætti í erfiðleikum og hann væri ekki reiðubúinn að ganga til kosninga.

Nú liggur alveg ljóst fyrir af ýmsu því sem fram hefur komið, að a. m. k. aðalforustumenn stjórnarflokkanna hafa lítið álit á Sjálfstfl. Þeir hafa hina mestu skömm á þeim flokki. En hvernig skyldi þá standa lessið hjá þeim sjálfum, þegar það liggur nú fyrir og við hv. 7. þm. Reykv. trúum því báðir, að þrátt fyrir það að svona standi nú á fyrir Sjálfstfl. eins og þeir álíta, þá ætlar samt helmingurinn af kjósendum að kjósa Sjálfstfl. ef það yrði kosið í dag. Þá er spurningin um hvernig ástæður eru innan dyra hjá þeim sem telja sig eða hafa talið sig vera að reyna að stjórna landinu, þótt ýmsir hverfi nú úr þeim hópi.

Ég ætla að gera smátilraun til að fletta upp á smálýsingu á hæstv. ríkisstj. Ég er ekki eins þaulkunnugur innandyra þar eins og greinarhöfundur sem lýsir henni. Kannske er búið að fara með þessa lýsingu áður í dag, en ekki verður góð vísa of oft kveðin. Með leyfi hæstv. forseta, alveg sérstöku leyfi:

„Hafi þessi ríkisstj.“ — þ. e. núv. hæstv. ríkisstj., — „ætlað sér að hafa hemil á þessum vanda,“ — þ. e. verðbólguvandanum, — „þá hefur henni mistekist hrottalega. Um það er auðvitað engum blöðum að fletta. Ólafur Jóhannesson stendur nú í sömu sporum og Hermann Jónasson stóð haustið 1958. Auðvitað væri heiðarlegast að fara þannig að.“

Hv. þm. Vilmundur Gylfason, sem skrifar þessi orð, getur nú stuðlað að því að heiðarlega verði að málum staðið, og það getur hann bara með einu móti núna eins og á stendur, og það er að samþ. till. okkar um þingrof og nýjar kosningar, nema hann vilji hafa þann hátt á að bera fram vantraust, þannig að hæstv. forsrh. geti sagt af sér með þeim hætti, og þá skulum við enda fylgja honum í því.

Hv. þm. blessar minningu þessarar ríkisstj. í grein í rannsóknarblaði í gær. Hann kveður það hafa verið lífsreynslu — ég er nú hálfuppgefin á að lesa þetta orði til orðs — að hafa verið heitbundinn hæstv. forsrh. í eina 14 daga. Hann skýrir frá því, sem við vissum allir og horfðum á, að Alþfl. sporðrenndi athugasemdalaust öllu frv. hæstv. forsrh. sem hann lagði fram 12. febr. s. l., og hæstv. forsrh. hefur síðan verið að gera til þess tilraun að dorga einhvern hluta af því upp úr Alþfl. aftur.

Hann talar um það, að hæstv. forsrh, hafi sýnt af sér röggsemi 1973 þegar hann kom heim frá London, sé ég hér, en varðandi þetta frv. segir svo: „En Ólafur heyktist, beygði sig undir vilja nokkurra komma og þrýstihópaforingja og missti buxurnar niður um ríkisstj. þar með.“ Það er von mér gangi illa að komast fram úr þessu, en bið að herra forseti minn álíti ekki að þetta séu mín orð. „Og eftir stendur að forsrh. virðist vera eins og skoðanalaus vindhani sem sveiflast á milli án þess að hafa nokkra skoðun aðra en þá að vera eins og krati í dag, en kommi á morgun.“ Svo mörg eru þau orð. En þessa lýsingu gefur einn hv. fyrrv. stuðningsmanna núv. ríkisstj. og fer miklu nær um þetta og getur lýst þessu miklu betur en ég treysti mér til.

Svipað mátti raunar lesa út úr öllum orðum hv. stjórnarsinna í umr. í gær. Það var blöskranlegt að hlusta á hæstv. utanrrh. Okkur hefur sýnst hann hér í þingsölum lóna um í meinleysi, en eftir ræðu hans í gær að dæma svingar hann um hálfmeðvitundarlaus. Lýsingin og hneykslun hans á því að nú skyldi vera borin fram till. um þingrof og kosningar, þá þótti honum heldur betur stungin tólg og sagði að það væri, eins og ég hripaði hjá mér þó ég hefði margt annað þarfara að gera, að þessi tillögugerð Sjálfstfl. væri ótrúlegt ábyrgðarleysi, að hlaupa frá efnahagsvandanum og ætla að efna til kosninga. Samt er það svo, að menn úr hans flokki hver um annan þveran leggja hið sama til, þó með örlítið öðrum hætti sé, hv. 7. þm. Reykv., Vilmundur Gylfason, fyrir nokkrum dögum og svo þetta sem kölluð er brtt. frá hv. þm. Braga Sigurjónssyni. Allt að einu virtist þetta vera viðhorf hæstv. utanrrh., formanns Alþfl., og hann sagði að nýkjörnir þm. Alþfl. hefðu ekki gleymt því sem þeir sögðu fyrir kosningar. Það getur vel verið að þeir hafi ekki gleymt því, en þeir hafa ekki gert nokkurn skapaðan hræranlegan hlut með það sjálfir. Þeir muna það sjálfsagt orði til orðs, nema mér virtist áðan á ræðu hv. þm. Vilmundar Gylfasonar sem honum væri nokkuð farið að förlast, því það er í fyrsta skipti sem ég heyri það, að þeir hafi ekki tekið undir það og haft það sem einarða stefnu sína að samningarnir gengju í gildi. Ég hef aldrei heyrt fyrr úr því dregið á einn eða annan hátt, og það er nokkuð seint í rassinn gripið að fara að halda slíku fram nú þegar svo er komið sem komið er. Nei, hann sagði, að þeir kepptu að því með því að glugga í útgáfurit sín og ritlinga fyrir kosningar að standa við öll þau fyrirheit sem þeir gáfu þá. Kannske á þetta líka við um skattamálin. Er það misminni mitt, að Alþfl. hafi haldið því fram í ræðu og riti að það ætti að lækka tekjuskatt? Er þetta misminni mitt líka. (Gripið fram í.) En hverjar eru staðreyndirnar sem við okkur blasa í þessu efni? Ég skal ekkert segja hvað hægt væri að fá þá til þess að gera t. d. í samvinnu við góða menn eins og Sjálfstfl.-menn. Þeir hafa framkvæmt allt annað. Og hvort sem þeir halda því fram nú, að það standi til að gera eitthvað af því sem þeir áður hafa lofað, þá hafa þeir breytt allt öðruvísi en hingað til. En formaður flokksins er eins og hann eigi heima hinum megin á sjöstjörnunni, og þannig hefur hann raunar löngum verið frá því að þetta stjórnarsamstarf hófst, að mér hefur ekki þótt sem hann væri mikið með í leik.

Vel kann að vera, eftir að þjóðin hefur metið þá Alþfl.-menn á nýjan leik, að það mætti fá þá til ýmissa þarfra verka. Það hefur okkur sjálfstæðismönnum tekist áður. Og ég er ekki viss um, eins og málafylgjan er hér á hinu háa Alþ., nema þetta þurfi að taka til sérstakrar athugunar. En fyrst þarf auðvitað að lofa þjóðinni að endurmeta þá og a. m. k. að skoða tunguna í einstaka manni.

Ég er ekki viss um nema það sé ýmislegt hirðandi af ýmsu því, sem fram hefur komið í því ódæma mál- og orðaflóði sem á okkur hefur dunið hér á hinu háa Alþ., fyrir t. d. sjálfstæðismenn og þá stefnu sem Sjálfstfl. vill fylgja. Og ég ætla að nota tækifærið og þessar mínútur sem eftir eru til kl. 7 til að víkja aðeins að einum þætti sem ég hef látið afskiptalausan um alllanga hríð. Það er mjög mikilvægur þáttur í okkar efnahagsmálum og einn snarasti þátturinn í því að vinna bug á verðbólgu sem við öll stefnum að, og það eru vextir.

Ég spurði hér í haust, og það var eiginlega eina framlag mitt til umr. um þann þátt, hvernig undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar ættu nú að standa undir greiðslu vaxta sem næmu verðbólgustigi. Þetta var fsp. mín. Ég upplýsti af kunnugleikum mínum á t. a. m. fiskvinnslu og sjávarútvegi, að þetta væri útilokað. Ég fékk auðvitað ekkert svar við þessu annað en það, að fullyrt hefur verið síðan að ég væri lágvaxtastefnumaður. Þess vegna ætla ég að nefna nokkur dæmi sem afsanna þessa kenningu. Þau fyrst, að um nokkurra ára bil hefur það verið hlutverk Framkvæmdasjóðs og Seðlabanka að gera till. um ávöxtun á fé sjóða t. a, m. Þessar till. hafa verið gerðar af okkur sameiginlega, og ég hef árum saman staðið að tillögugerð sem gekk miklu lengra í ávöxtunarátt, ef við getum nefnt það svo, verðtryggingarátt og upphæð vaxta, heldur en ríkjandi stjórnvöld hafa treyst sér til að framkvæma. Hv. 7. þm. Reykv., sem hefur mikið um þetta fjallað, ætti að leggja lykkju á leið sína og kynna sér tillögugerð mína í þessu efni nú, því ég hef nú sent hana frá mér. Sú tillögugerð er um verðtryggingu allra lána, fulla verðtryggingu allra lána, en að vísu mjög lága vexti. Ég veit ekki hvort við getum orðið sammála um það.

Enn eitt dæmi er það, að ég hef stjórnað þeim sjóði á Íslandi sem rekinn hefur verið harðast af öllum sjóðum að þessu leyti undanfarin 4 ár a. m. k., Framkvæmdasjóði Íslands. Við höfum talið vegna tillögugerðar okkar um ávöxtun fjár að okkur bæri skylda til að ganga á undan með góðu eftirdæmi, eins og það heitir, enda getum við sýnt fram á það með reikningum sjóðsins, að vel hefur tekist til um ávöxtun hans og meira en það. Þegar allir sjóðir hafa verið tómir um öll áramót, þá hefur alltaf verið ærið fé í þessum sjóði, t. a. m. nú, ef ég man rétt, yfir 800 millj., þótt fast hafi verið leitað um fjárframlög úr öllum áttum.

Eins er það að nefna um Byggðasjóðinn, að þegar ég kom að stjórn hans var hann ávaxtaður með 6% óverðtryggt. Það hefur að vísu ekki náðst stór árangur og ekki frambærilegur árangur þegar okkur hefur aðeins tekist í miklum nauðum að tosa þetta úr 12% í 14% . Ég minnist þess, að það tók upp undir hálft ár að fá 7 manna þingkjörna stjórn til þess að fallast á það, þar í bland var hæstv. utanrrh., þáv. og núv. formaður Alþfl., hann var í þeirri stjórn. Ég varð ekki var við að hann lyfti hendi til þess að aðstoða við að ná þessu fram, þótt í litlu væri.

Herra forseti. Ég skal nú ljúka mái mínu. Þessari leiksýningu, sem við höfum verið áheyrsla og áhorfendur að í rúma 6 mánuði, er lokið. Ég verð nú að segja að sumt hefur verið gróflega dapurlegt, en að öðru leyti hef ég haft af þessu allnokkurt gaman. Og ég vona að mér fyrirgefist það. En leiksýningunni er alveg lokið. Þeir, sem nú þykjast vera að stjórna landinu, eru sjálfir búnir að missa trú á að þeim takist það. Þegar af þeirri ástæðu er þýðingarlaust að hanga áfram á penslinum. En þjóðin er búin að því líka. Og þeim er alveg lífsnauðsynlegt að ganga úr skugga um hvort svo sé ekki, því stjórn, hversu fjölmenn sem hún er að þingmannaliði, getur engu stjórnað og engu komið í framkvæmd ef hún er búin að missa traust helmings að ég tali nú ekki um meiri hl. þjóðarinnar. Slíkt er gersamlega þýðingarlaust, enda orðaði hv. 1. þm. Norðurl. e. það þannig í gær, eða í þá átt, að það væri auðvitað ekki líðanlegt að ríkisstj., ef hún næði ekki tökum á viðfangsefnum sínum, druslaðist áfram við að stjórna landinu. Þannig var orðalag hans. Og margir þeirra tóku fram að svo kynni að fara að upp úr þessu stjórnarsamstarfi slitnaði og þessi stjórn viki.

Þeir geta, svo ég noti orðalag hv. 1. þm. Norðurl. e., druslast áfram enn um einhverja hríð, en það er alveg þýðingarlaust og það verður ekki til neins nema til hins verra. Það er lífsnauðsyn að þjóðin fái að endurmeta stöðuna. Það fer ekki milli mála, að hver flokkur fyrir sig hefur nú e. t. v. skýrar mótaða stefnu í þjóðmálun en við höfum áður haft fyrir augum, að segja að undanteknum amtmanninum, undanteknum Framsfl., en það er ekkert nýtt að þessi flokkur aki seglum einvörðungu eftir hentistefnu og flokkslegum hagsmunum. Í áratugi hefur hann eftir engu öðru farið, þannig að það er ekki von að sá Eyjólfur hressist.

En að öðru leyti er það skoðun mín, að þjóðin ætti hægar um vik að endurmeta stöðuna nú og kveða upp réttlátan dóm en jafnan áður. Það er svo komið fyrir þessari hæstv. ríkisstj., að henni ber siðferðileg skylda til þess að skila af sér þessum völdum. Þjóðinni bráðliggur á því og það er blátt áfram þingræðisleg skylda hennar, eftir að svo er komið sem blasir við allra augum, að hún þegar í stað segi af sér eða rjúfi þing og efni til nýrra kosninga, eins og við höfum lagt til.