08.03.1979
Efri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3111 í B-deild Alþingistíðinda. (2408)

194. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil skýrt taka það fram að ég treysti fiskifræðingum mjög vel og ég treysti læknum betur til að lækna fólk en hómópötum, en ég treysti ekki alltaf læknum best til þess að vinna að heilsuvernd yfir höfuð og það er sama með fiskifræðinga: ég treysti þeim ekki endilega best til að ákvarða um lífríki, náttúruvernd og verndun sérstakra svæða.

Þegar ég lýsi andstöðu minni við opnun Faxaflóa fyrir dragnótaveiðum, þá er það ekki af því að ég óttist útrýmingu skarkolans, síður en svo. Ég veit að fiskifræðingurinn hefur fullkomlega rétt fyrir sér þar sem hann segir að það sé óhætt að veiða 10 þús. tonn við strendur Íslands af skarkola, það er enginn vafi á því. Það, sem ég tel mikils virði, er að við eigum þarna stórkostlega merkilegt og mikið svæði sem við höfum verndað fyrir árás bæði trolls og dragnótar nú um langan tíma. Ég álít að vissir fiskstofnar hjá okkur sýni að þarna hafi verið vel að verki staðið og við eigum ekki núna á þessum viðsjárverðu tímum að gefast upp, enda þótt örðugleikar séu á flestum sviðum hjá okkur. Þess vegna eigum við enn um sinn að halda Faxaflóanum lokuðum fyrir þessu veiðarfæri. Ég tel að við getum veitt þessi 10 þús. tonn við strendur landsins þó að við verndum þetta merka svæði okkar áfram.