08.03.1979
Efri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3112 í B-deild Alþingistíðinda. (2410)

194. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Þetta frv. beinist að því að opna Faxaflóa fyrir dragnótaveiðum á kola. Þá hugsun styð ég og það frv. sem hér hefur verið lagt fram. Það má benda á að frv. er þannig orðað, að það gildir einungis fyrir tvö ár. Þetta mál kemur því til kasta Alþingis aftur, ef áhugi verður á að halda opnu áfram. Í öðru lagi kveður þetta frv. á um að möskvastærð sé 170 mm. Eru það hvort tveggja mjög jákvæð atriði í þessu frv.

Það eru einungis tvö atriði í viðbót sem ég vil vekja athygli á og e. t. v. væri ástæða til að taka mið af. Það er í fyrsta lagi, að bundinn yrði í lögum sá hámarksafli á bát sem hann mætti koma með að landi á viku hverri. Þetta er svipað og er gert við aðrar veiðar — þær veiðar sem eru kvótaskiptar. Sömuleiðis væri e. t. v. ástæða til að taka inn í lögin það atriði, hver mætti vera hámarksafli af öðrum fiski á þessum veiðum. Mætti ímynda sér einhverja prósentutölu í því samhengi, e. t. v. 20% annar fiskur í hverri viku.

Ég hef trú á því, ef þessi tvö atriði kæmu inn í viðbót við hin, að leyfið er einungis veitt til tveggja ára og möskvastærðin er lögbundin, að þau ættu að geta orðið til þess að eyða síðustu efasemdum í sambandi við þetta mál.

Það hefur heyrst hér á Alþ. eins og oft áður, að menn hafa skiptar skoðanir um þetta mál. Ég fæ ekki betur séð á þessu frv. og e. t. v. ef þessar lagfæringar næðu fram að ganga í þeirri n., sem kemur til með að fjalla um þetta mál, og á Alþingi, en að þessa tilraun beri að gera. Sumir eru núna heitir á móti þessu máli, eins og við höfum heyrt á þm. Vesturl. og reyndar einum þm. Reykn. líka. En ég held að menn geti verið sannfærðir um að eftirlit með þessum veiðum verður þvílíkt, að það hefur sjálfsagt aldrei annað eins þekkst, því að þetta mál er það viðkvæmt. Ég hef ekki nokkra trú á öðru en að staðið verði að þessum veiðum þannig að ekki skapist nein hætta fyrir annan fisk í flóanum.

Ég vil að lokum lýsa stuðningi við þetta frv. og vona að það fái fljóta afgreiðslu á þinginu, því að stutt er í það að sú vertíð geti hafist sem um er talað í þessu frv.