09.03.1979
Sameinað þing: 65. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3147 í B-deild Alþingistíðinda. (2449)

41. mál, varnir gegn olíumengun í nágrenni Keflavíkurflugvallar

Flm. (Gunnlaugur Stefánsson):

Herra forseti. Þetta mál hefur verið alllengi á dagskrá þingsins og það er alllangur tími síðan það var fyrst tekið til umr. hér í þinginu. Ég vil leggja áherslu á það, að málið komist til n., verði afgreitt héðan í dag til n., þannig að utanrmn. Alþ. geti hafið störf í málinu og kannað það.

Það er ljóst að hér er um mikinn vanda að ræða, sem löngu er kominn tími til að leysa úr. Það er ánægjulegt að heyra að hæstv. utanrrh. hafi skipað þriggja manna nefnd sérfræðinga til þess að gera frumkannanir á svæðinu á Suðurnesjum, sem talið er að sé mengað af olíu sem lekið hefur úr olíuleiðslum og olíutönkum eða farið niður í jarðveginn vegna slælegrar meðferðar á undanförnum árum. Þessu vil ég sérstaklega fagna, og ég tel að hæstv. utanrrh. hafi gripið þarna fljótt inn í málið. Ég treysti þeim mönnum, sem í þessari nefnd eru, mjög vel, enda er nefndin þannig skipuð að um náin samráð er að ræða við þá aðila á Suðurnesjum sem mestra hagsmuna eiga að gæta.

Eigi að síður tel ég að utanrmn. Alþ. hafi hlutverki að gegna í málinu, fyrst og fremst því hlutverki að fylgjast með því að þessi rannsókn, sem nú er hafin, gangi eðlilega og að fylgjast með því að í framhaldi af þessari rannsókn verði tekið til við framkvæmdir sem muni leysa olíumengunarvandann. Þrátt fyrir það, sem hv. þm. Einar Ágústsson segir, að e. t. v. sé olíumengun ekki meiri háttar utanríkismál, þá er þarna olíumengun sem á sér stað m. a. af völdum hersins á Keflavíkurflugvelli. Alla vega kemur hún frá Keflavíkurflugvelli eða olíugeymum og olíuleiðslum sem eru í tengslum við starfsemina á Keflavíkurflugvelli. Málefni Keflavíkurflugvallar og hersins hafa löngum einkennt umr. utanrmn. og falla undir verksvið hennar samkv. því sem ég álít.

Þá er ekki síður mikilvæg í þessu máli sú deila sem hefur einkennt framgang þessa máls eða umr. um þetta mál á undanförnum árum, en hún er um það, hver eigi að greiða kostnaðinn af þeim framkvæmdum og rannsóknum sem þurfa að fara fram á svæðinu. Þetta er úrskurðar- og ákvörðunaratriði, sem mér skilst að ekki hafi enn þá verið tekin ákvörðun um. Um þetta stóð deila á milli fyrrv. heilbrrh. og varnarmáladeildar utanrrn. fyrir nokkrum árum og gerði að verkum að málið komst aldrei fram. Heilbrmrh. krafðist þess að kostnaður við rannsóknir og framkvæmdir á flugvallarsvæðinu vegna olíumengunar yrði greiddur af hernum eða bandarískum stjórnvöldum, en á það gat, eftir því sem næst verður komist, varnarmáladeild ekki fallist. Féll málið jafnan niður vegna þessarar deilu. Þetta atriði þarf að úrskurða og það hlýtur að koma til kasta Alþ., annaðhvort fjvn. eða utanrmn. Ég tel að eðlilegast sé að utanrmn. fjalli um þetta, a. m. k. fyrsta kastið, og sé ráðgefandi um að leysa þessa deilu.

Þetta skulum við hafa í huga þegar við ræðum málið. Þess vegna snertir þetta mál Alþingi og nefndir Alþingis og þá fyrst og fremst utanrmn. Ég veit það og trúi því, að utanrmn. undir forustu hv. þm. Einars Ágústssonar muni taka þetta mál föstum tökum strax og það er komið í n. Ég vil ítreka þá von mína, að það fái þann framgang sem eðlilegt er, þannig að fólkið á Suðurnesjum megi búa við frekari öryggi í vatnsöflunarmálum en nú er.

Að lokum vil ég þakka almennt jákvæðar undirtektir við þetta mál, enda er hér brýnt nauðsynjamál á ferðinni. Ég vil geta þess, að umr. um þetta mál hafa verið allmiklar á Suðurnesjum og mér hafa verið sagðar ýmsar sögur um það, hvernig komið er á ýmsum stöðum. Jafnvel er svo langt gengið að við garðshorn nokkurra íbúa í Njarðvík t. d. og Keflavík er að finna hreina olíupytti. Það sýnir fram á að ekki er verið að fara hér með neitt fleipur í fáfræði. Hér er um raunverulegan vanda að ræða sem verður að leysa. Er heldur leiðinlegt til þess að hugsa að eftir öll þau ár sem umr. um þetta hafa farið fram, líklega ein 7–8 ár, skuli málið þó ekki vera komið lengra. Þess vegna er þetta mál komið til kasta Alþ. fyrst núna í tillöguformi og ég treysti utanrmn. til að leiða það til lykta á farsælan hátt.