12.03.1979
Efri deild: 68. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3183 í B-deild Alþingistíðinda. (2480)

218. mál, landhelgi, efnahagslögsaga og landgrunn

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég fagna framlagningu þessa frv. og sérstaklega vil ég fagna ummælum hv. 5. þm. Norðurl. v. áðan. Í þessu frv, eru dregin saman á mjög ljósan og skýran hátt öll mikilvægustu ákvæði í landhelgisstefnu okkar. Einkum fagna ég því að miðlínan við Jan Mayen er nú úr sögunni, og ég vænti þess, að góður árangur náist af þeim viðræðum við Norðmenn, sem nú eru í gangi, og vona að úrslit í þeim viðræðum liggi fyrir sem fyrst, þar sem mikil hætta beinist þar að okkur varðandi loðnuveiðar á næsta sumri. Er óskandi að þessi mál verði komin á hreint áður en þær hefjast.

Í þessu frv. eru mikilsverð ákvæði um 200 mílna efnahags- og vísindalögsögu og mjög ítarleg og jákvæð ákvæði varðandi rannsóknir innlendra svo og erlendra aðila á auðæfum hafsins umhverfis Ísland. Virðist mér að í þessu frv. séu margir varnaglar við því að erlendir aðilar geti nýtt auðæfi landgrunnsins umhverfis Ísland. Einnig er vert að vekja sérstaka athygli á ákvæðum um 200 mílna mengunarlögsögu sem er ekki síst mikilvæg nú á dögum.

Það má segja að landhelgisstefnu okkar Íslendinga ljúki aldrei, en álit mitt er að með þessu frv. sé lokið einum kafla í þessari sögu. Ég vil ekki hafa orð mín fleiri um það, en fagna bæði frv. og einkum þeim ummælum hv. þm. Eyjólfs K. Jónssonar, að þetta sé ekki mál neins eins stjórnmálaflokks, heldur sameiginlegt mál allra þeirra sem sitja hér á þingi.