13.03.1979
Sameinað þing: 66. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3207 í B-deild Alþingistíðinda. (2502)

343. mál, fjármögnun virkjunarframkvæmda og skuld Landsvirkjunar við ríkissjóð

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hjó eftir því í svari hæstv. fjmrh., að innlend lán til Landsvirkjunar væru um 200 millj. kr. Ég geri ráð fyrir, og vona að ég skilji það rétt, að þessi lán til Landsvirkjunar séu vegna Sigöldu og þá vegna seinkunar framkvæmda við Grundartangamannvirkið.

Að öðru leyti vil ég segja það, að þær 3430 millj., sem Landsvirkjun skuldar erlendis, eru að hálfu á ábyrgð Reykjavíkurborgar. Mér finnst rétt að það komi fram.

Ég lít á þessa fsp., sérstaklega eftir að spyrill lét koma fram að sá aðili, sem býr við bestu aðstæður, hafi bestu lánakjörin, þannig að hún sé sett fram til að réttlæta frekari álögur á Reykvíkinga til jöfnunar á rafmagnsverði í landinu, enda sagði hann það beinum orðum. Ég harma að til slíkra umr. skuli stofnað hér á hv. Alþingi. Ég held að öllum sé ljóst að þegar skynsamlega hefur verið staðið að uppbyggingu orkuvera í langan tíma, þá skapi það traust hjá lánveitendum og það traust eigi ekki aðrir íbúar þessa lands að skattleggja.