31.10.1978
Sameinað þing: 11. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í B-deild Alþingistíðinda. (257)

325. mál, gildistaka byggingarlaga

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir hans greinargóðu svör. Ég gerði mér að sjálfsögðu ljóst að um smáatriði væri ekki hægt að segja enn þá þar sem reglugerðin er í smíðum. Mér fannst þó nauðsynlegt að vekja athygli á þessu máli vegna þess að það er svo nauðsynlegt að ráðh. hafi í huga einmitt þetta ákvæði laganna og styðji við bakið á okkur í því efni, eins og hann reyndar tók fram að hann mundi gera. Treysti ég honum fullkomlega í því efni.

Ég þakka fyrir þann áhuga sem hefur komið fram gagnvart þessu máli. Ég vil upplýsa það, að nefndin hefur verið að rannsaka hvernig bæta mætti eldri byggingar. Það er rétt, að það er mjög fjárfrekt fyrirtæki. Bandaríkjamenn hafa nýlega samþykkt að sá, sem láti breyta eldra húsnæði á þann hátt sem um ræðir hér, geti dregið 25 þús. dollara frá skatti. Ekki er ólíklegt að þetta mundi hafa einhver áhrif hér, ef heimilt væri að draga kostnað við breytingu á byggingum frá skattskyldum tekjum.

Í öðru lagi er það svo nokkuð sjálfsagt, að taka verður upp á fjárlög ákveðna upphæð til þess að breyta opinberum byggingum. Ætlunin er að allar þjónustubyggingar, verslanir og opinberar byggingar verði lagfærðar með tímanum á þann hátt, að þær séu færar fötluðum.