15.03.1979
Sameinað þing: 69. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3277 í B-deild Alþingistíðinda. (2587)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Forsrh. gat þess í máli sínu, að hann hefði rétt til að leggja fram frv. eins og hver annar þm. Það dregur enginn í efa. En hæstv. viðskrh. hóf mál sitt með því og lagði mikla áherslu á að framlagning þessa frv. hæstv. forsrh. í eigin nafni gæti spillt fyrir samkomulagi milli stjórnarflokkanna. Þess vegna vekur það furðu mína að hæstv. forsrh. skyldi hætta á slíkt. Hæstv. viðskrh. mótmælti framlagningu frv. forsrh. vegna þess að hann leyfði sér að standa einn að framlagningu frv. Hæstv. viðskrh. mótmælti sérstaklega ósvífni fullyrðinga samráðh. sinna. Hvaða ósvífni tók ég ekki eftir, eða hann hefur ekki getið um hvaða ósvífni hann átti við. Hæstv. viðskrh. sagði að samstarfsflokkarnir gengju með óbilgirni gegn þriðja samstarfsflokknum.

Herra forseti. Enn einu sinni upphefst hér á hv. Alþ. deila milli stjórnarflokkanna. Deila þessi er ekki ný af nálinni. Hún hefur ýmist brotist út hér á hv. Alþ. eða í stjórnarráðinu og þá borist þaðan um fjölmiðla til þjóðarinnar. Augljóst er að hæstv. ríkisstj. fær ekki starfsfrið, enda enginn starfsgrundvöllur fyrir hendi milli stjórnarliðanna. Á meðan styrjöld þessi geisar á stjórnarheimilinu bíður þjóðin eftir festu í stjórn lands og þjóðar. Þær vonir, sem e. t. v. voru bundnar við samstarf vinstri flokkanna, hafa brostið. Stjórnarliðar með ráðh. í broddi fylkingar hafa gert sér ljóst að fólkið í landinu á þá ósk heitasta að starthæf ríkisstj. taki hið fyrsta við stjórnartaumunum. Til þess að svo megi verða þarf núv. ríkisstj. að fara frá völdum. Með því að hún fari frá völdum birtir yfir þjóðinni og fólk mun aftur fyllast bjartsýni. Því vil ég beina þeirri ósk til forsrh., að hann taki ábendingum hv. 4. þm. Reykv. um að hann segi af sér, þannig að nýir aðilar geti komið í staðinn, að sjálfsögðu að afstöðnum kosningum, og borið smyrsl á sárin sem vinstri stjórn skilur eftir sig enn einu sinni á þjóðarlíkamanum.

Það munu allir kunna ykkur þakkir góðar, hæstv. ráðh., ef þið kveðjið fljótt, áður en tjónið af sundurlyndi ykkar verður þjóðinni enn dýrara. Ég tek því heils hugar undir þær vinsamlegu ábendingar og áskorun hv. 4. þm. Reykv. til hæstv. ríkisstj. að hún fari frá völdum hið fyrsta.