19.03.1979
Neðri deild: 63. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3372 í B-deild Alþingistíðinda. (2633)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Við 1. umr. gagnrýndi ég þetta frv. og lét í ljós þá skoðun, að það væri uppgjöf að snúast við vandamálum landbúnaðarins eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. að gera bara eitthvað. Ég er enn sömu skoðunar, meðferð þessa máls hér á þinginu hefur ekki breytt þeirri skoðun minni, heldur sannfært mig um að hér er um kák eitt að ræða miðað við að afgreiðsla málsins verði eins og það kemur frá meiri hl. landbn. Bændastéttin biður um þessar aðgerðir, segja menn, og það er um að gera að veita henni sem flestar heimildir, opnar í báða enda, til að skattleggja sjálfa sig, er sagt.

Frsm. meiri hl. hefur nú gert grein fyrir sínu áliti. Það álit fékk þann dóm, vegna þess hvað það var illa útfært, hjá mönnum, sem lengi hafa starfað hjá Stéttarsambandi bænda, að það væri óframkvæmanlegt, — segi og skrifa: óframkvæmanlegt. Þetta var þá það sem hafðist út úr 10 fundum landbn. beggja d., eins og kemur fram í meirihlutaálitinu að haldnir hafi verið. Það er ekki lítill afrakstur og það hjá jafnþingvönum mönnum að skila frá sér slíku plaggi. Tveir nm. meiri hl. hafa að vísu haldreipi þar sem er fyrirvarinn, og fagna ég því þeirra vegna. En það sést af þessu, að lengi getur vont versnað. Aðeins glæta er þó í meirihlutaálitinu sem kom út úr umr. í n., en það væri líka skárra að allt plaggið væri óframkvæmanlegt.

Þessa dagana riðar ríkisstj. til falls, þó væntanlega muni Eyjólfur hressast að nýju, hvað sem sú dýrð stendur lengi. En um hvað er deilt í ríkisstj.? Jú, hvað skera eigi kaupið mikið niður hjá launþegum, um 3, 4, 5, 6, 7%. En á sama tíma er verið að afgreiða frv. í landbúnaðarmálum, þar sem verið er að fjalla um að jafna kaupskerðingu á bændurna sjálfa án stuðnings annarra sem nemur kannske allt að 20% eða meira. Og um þetta eru víst ríkisstjórnarflokkarnir sammála — eða hvað? Ekki skelfur ríkisstj. út af þessu máli.

Að óreyndu hafði ég ekki trúað að Alþb., sem fékk mikið fylgi í sveitum s. l. vor, mundi tilleiðanlegt til hvers sem væri. Um suma hina þarf kannske ekki að ræða. Af ræðu hv. þm. Stefáns Valgeirssonar hér áðan, þar sem hann var m. a. að biðla til hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar um samstarf í ríkisstj. að þessum málum, kom fram að hann var líka að leita eftir samstarfi við Sjálfstfl. Ríkisstj. hefur þó meiri hl. Vantar kannske á þetta mál stimpil Sjálfstfl. af því að þetta er orðið svo óvinsælt? Það er ágætt að hafa þjóðstjórn í þessum málum, en vantar hana þá ekki í fleirum? Ég vil þakka hv. frsm. fyrir þann heiður að nefna nafn mitt við þessa umr., en í meirihlutaálitinu þótti ekki taka því að telja upp nm., sem þó mun vera nokkur regla hér, skilst mér vera.

Hv. frsm. sagði að Sjálfstfl. hefði tafið þetta mál. Ég held að það, sem fyrst og fremst hefur tafið þetta mál, sé innbyrðis ósamkomulag hjá ríkisstjórnarflokkunum. Fyrir jólin var það a. m. k. svo. Þá var leitað til Sjálfstfl. í önnum síðustu daga í þinglokin til að drífa málin áfram. Þá virtist vera nóg að gera, og þá var einn hamagangurinn í ríkisstjórnarflokkunum sem nóg var að snúast utan um þá daga, þannig að ég held að það hafi varla verið hægt að koma því fram þá. Kannske það hefði gengið ef allt hefði verið í lagi í ríkisstjórnarflokkunum, en þá hefði ekki heldur þurft á Sjálfstfl. að halda. En Sjálfstfl. hefur fengið frest nú að undanförnu, bað um frest aðeins til að athuga þetta mál. Var það nokkuð óeðlilegt? Ég held ekki. Búnaðarþing var að störfum. Mátti það ekki skila áliti? Búnaðarþing óskaði eftir ýmsum athugunum á þessu máli. Það var sett í gang, en er ekki lokið. Það var ástæða til þess m. a. út frá því að doka aðeins. Hæstv. ráðh. var ekki heldur heima. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson greindi okkur þm. frá því á fimmtudaginn, að hæstv. ráðh. hefði verið á skíðum í Ölpunum. Bændastéttin brennur meðan ráðh., Neró landbúnaðarins, er á skíðum suður í Ölpum, mætti segja.

En hvers vegna var ekki lagt fram eitt frv. á þinginu í vetur um breytingu á framleiðsluráðslögunum, þar sem allt þetta var tekið fyrir, þ. e. að semja beint við bændur. Vandinn í dag á að skiptast bæði á ríkið og bændurna, en ekki, eins og í frv. er, bara á bændurna. Af hverju var þetta ekki tekið í einum pakka? Hvað hamlaði því?

Hv. frsm. talaði um í lok síns máls að það þyrfti að breyta ýmsu í till. meiri hl. Ja, bragð er að þá barnið finnur. Hefði þá ekki verið ágætt fyrir hann að nota þann frest, sem Sjálfstfl. fékk, til að skoða málið, hann hefði líka notað frestinn til að athuga betur sitt mál. Ekki mundi af veita, svo sem kom í ljós af hans orðum, að nú þyrfti að fara ofan í og breyta einmitt mjög nál. meiri hl., eða ég fékk ekki annan skilning út úr orðum hans, og er það ekki óeðlilegt, sem og kom fram í upphafi míns máls, að Stéttarsambandsmenn telja það óframkvæmanlegt eins og það liggur fyrir.

Ég gat ekki skrifað undir nál. meiri hl. og stend nú að brtt., eins og hér hefur komið fram, ásamt hv. þm. Pálma Jónssyni. Það er í fyrsta lagi, að þar er opin leið að beinar greiðslur á frumstigi gangi til bænda, þ. e. niðurgreiðslur. Hæstv. ráðh. minntist á þetta mál áðan og tók dæmi um að þetta kæmi mjög illa út. Það er ljóst að með þessu er ekki verið að skapa neitt nýtt fé, en það gengur hraðar með þessum hætti til bænda. En mátti skilja í orðum hans að ríkisstj. ætlaði að vera alveg „stikkfrí“ í þessu máli? Á ekkert að koma til móts við bændurna í þessum vanda? Það er hægt að reikna þarna út stórar tölur ef ekkert verður komið til móts við bændastéttina. Ég trúi ekki fyrr en ég tek á að það mál verði leyst þannig að vandanum verði eingöngu velt á bændur.

Hæstv. ráðh. ræddi um fóðurbætisskattinn og taldi þetta seinvirkt með því kerfi sem sett er upp. Fóðurbætisskatturinn hefur mjög lagast í till. okkar, og ég held að hæstv. ráðh. geti varla dottið í hug, eins og nú er ástatt í sveitum, að bændur verði að borga tvöfalt gjald fyrir fóðurbætinn fyrst og fá það síðan endurgreitt að helmingi eftir dúk og disk. Ég held að það sé óframkvæmanlegt. Ég held að fóðurbætistillaga með skömmtunarkerfi verði að vera eitthvað með líkum hætti og er í till. okkar hv. þm. Pálma Jónssonar og að ekki komi til mála að bændur verði fyrst að greiða út tvöfalt verð fyrir fóðurbætinn. Það er alveg útilokuð leið.

Hæstv. ráðh. spurði og taldi ótímabæra till. okkar um að viðbótarfé kæmi til landbúnaðarins vegna þessara erfiðleika. (Gripið fram í.) Ég trúi ekki öðru en ríkisstj. sóma síns vegna komi til móts við bændurna í þessu máli, en á Sjálfstfl. vona ég að muni ekki standa í þessu máli, það vil ég láta heyrast, og þess vegna er till. okkar komin fram. En mál er orðið að fara að fá frumkvæði frá ríkisstj., og ég vona að það fari að koma.

Ég endurtek, að í okkar till. er í fyrsta lagi opnuð leið um beinar greiðslur. Í öðru lagi er tillaga um fóðurbætisskattinn mjög betrumbætt frá meirihlutaálitinu. Við tökum upp þarna óbreyttan lið sem er í meirihlutaálitinu. Það er um að borgað sé ákveðið fyrir samdrátt. Síðan er í fjórða lagi að við gerum kröfu til ríkisvaldsins, eins og ég vék að, að ríkisvaldið komi til móts í birgðavandanum. Og þetta mál verður ekki afgreitt að mínum dómi án þess að tekin sé afstaða til þess máls, það eru alveg hreinar línur.

Draga þessar leiðir nóg úr framleiðslunni, sem allir tala um að verði að gera? Verður sá samdráttur, sem leitað er eftir, nægilegur með þessum leiðum? Um það veit enginn. En ég legg áherslu á þær skerðingar á kjörum bænda sem leiðir af frv. óbreyttu og virðist vera eins og nú stendur, að ríkisstj. ætlist til að bændurnir beri einir, — ég legg áherslu á að það má ekki ske að svo verði.

Herra forseti. Það er skoðun mín, að ef við viljum vera raunhæfir í þessum málum, þá verðum við að vega okkur út úr þessum offramleiðsluvanda, og við gerum það e. t. v. best með því að greiða verðbætur fyrir ákveðinn samdrátt, t. d. 10%, eins og ég gat um við 1. umr. þessa máls. Það mundi verða minnsta skerðingin fyrir bændurna og jafnframt fyrir þjóðfélagið allt og neytendurna — borga mönnum t. d. allt að helmingsverðbætur og einnig bússkerðingarbætur. Þetta þyrfti að gera í 3–5 ár. En hafa verður í huga í þessum málum, að tíðarfar getur fljótt spilað þarna inn í, og ef það breytist til hins verra þarf vissulega að haga sér í samræmi við það. Komi aftur til bústofnsaukningar að árum liðnum, þegar fólki hefur fjölgað og neysla aukist, þá þyrfti og að koma til styrkur úr sama sjóði. Útfærðar till. að þessu leyti svo og um framleiðsluráð landbúnaðarins, sem ég hef í mínum fórum, mun ég e. t. v. sýna landbn. milli umr. og a. m. k. um framleiðsluskrána, sem verður nauðsynleg hvaða kerfi sem verður tekið upp. En það var að heyra á hv. frsm., Stefáni Valgeirssyni, að til stæði að athuga þetta mál vel milli umr. af landbn. beggja deilda Alþingis.