20.03.1979
Sameinað þing: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3433 í B-deild Alþingistíðinda. (2677)

113. mál, umbætur í málefnum barna

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þessa till. Hér er hreyft máli sem okkur ber skylda að taka til rækilegrar skoðunar á þessu ári, ári barnsins, og þó fyrr hefði verið. Það er raunar athyglisvert. að það skuli þurfa að koma frá alþjóðastofnunum ábending um að ræða svo viðamikil mál og nauðsynjamál í nútímaþjóðfélagi sem raunar er tilefnið.

Umr. um málefni barna þurfa að mínu mati að vera víðtækar og taka þarf mið af ýmsum undirstöðugreinum í uppeldismálum: fjölskyldumálum, skólakerfi og ýmsum félagslegum þáttum. Einnig kemur þar til greina, sem hér hefur aðeins lauslega verið minnst á, almannatryggingakerfi okkar, sem að mínu mati og margra fleiri er að mörgu leyti mjög ófullkomið og þarf að taka til endurskoðunar frá grunni, eins og áður hefur verið minnst á.

Um þessar mundir og á næstunni fara fram miklar umr. um málefni barna í eiginlega öllum sveitarstjórnum landsins samkv. sérstökum fyrirmælum, - umr. sem munu fara fram í samvinnu og samráði við skólana á hverjum stað. Ég er í engum vafa um að einmitt sá þáttur mun verða til þess að þessi mál fái rækilegri úttekt á hverjum stað og mun leiða til góðs fyrir þann nauðsynlega þátt að sinna málefnum barnanna okkar. Ég er því í engum vafa um að þetta málefni fær nú þá umfjöllun hjá ýmsum aðilum að það verður til mikils góðs.

Í sambandi við þá till., sem hér liggur fyrir, get ég ekki stillt mig um að lýsa því, að ég er algerlega andvígur 11. lið upptalningar þeirrar sem hér er gerð, þ. e. a. s. að ríkið taki að nýju þátt í rekstri dagvistarstofnana. Ég gæti talað um það langt mál. Ég tel að slíkt væri spor aftur á bak. Þetta er hlutverk sveitar- og bæjarfélaga, sem þau hafa tekið að sér af fúsum vilja að fyrir fram gerðum mörgum athugunum á vegum sveitarfélaga, og ég vil ekki blanda því aftur inn í samkrull við ríkisrekstur — alls ekki. Það er atriði sem ég vil leggja sérstaka áherslu á í þessu sambandi.

Ég vil taka undir með hv. 3. þm. Austurl. um nauðsyn þess að heildarlöggjöf um málefni þroskaheftra nái fram að ganga — eða sjái dagsins ljós, mætti frekar orða það. Þetta er þýðingarmikið mál sem vissulega væri þörf á að ræða þegar rætt er um málefni barnsins sérstaklega, því að þetta er eitt af þeim málum sem hafa verið algerlega utangarðs í þjóðfélagi okkar til þessa og þörf er á að linni. Mér er kunnugt um að samið hefur verið frv. til l. um aðstoð við þroskahefta sem mun hafa legið á borði hæstv. félmrh. frá því um áramót. Hér er um að ræða frv. eða lagasmíð sem hefur verið unnin í samráði við áhugafólk á þessu sviði og samtök þeirra sem fjalla um þessi mál. Þetta frv. að l. er það viðamikið og yfirgripsmikið og svo nauðsynlegt að fara að sinna þessu máli á skipulegan hátt að ég vil einmitt nota tækifærið til þess að undirstrika sérstaka þörf á því að það verði farið að leggja frv. þetta fyrir Alþ. mjög fljótlega. Þá tengist sá nauðsynlegi þáttur umr. og ákvarðanatöku í sambandi við málefni barna, sem ég vil undirstrika að ég er innilega sammála flm. um að þurfi að fá framgang á þessu ári á myndarlegan hátt.