20.03.1979
Sameinað þing: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3439 í B-deild Alþingistíðinda. (2685)

163. mál, rannsókn á innsiglingaleiðinni í Höfn

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég get ekki stillt mig um að taka til máls í sambandi við þetta mál út af ræðu hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar og leiðrétta smámisskilning sem er ekki rétt að standi í þskj.

Hornfirðingar sneru sér með vandamál sitt til Vita- og hafnamálastofnunarinnar, og þær úrbætur, sem voru gerðar með því að leigja dýpkunarskip, voru gerðar í fullu samráði við þá stofnun. Það var ekkert tæki til hjá Hafnamálastofnuninni til þess að vinna þetta verk né heldur var það, sem gert var, til einskis. Stórkostlegar úrbætur gerði þetta skip á þessum stað og sú dýpkun, sem þarna var gerð, kemur einnig að gagni í sambandi við skipulag hafnarinnar, því að hvert einasta sandkorn, sem tekið var úr Hornafjarðarós, er nú komið í uppfyllingu í Hornafirði. Það er því alls ekki rétt að segja sem svo, að þarna hafi verið að gerast eitthvert ævintýri sem ekki var rétt undirbúið.

Hins vegar þarf að. sjálfsögðu að endurbæta þarna og gera meira átak síðar. En alla vega hefur það, sem var gert, komið að fullum notum fyrir Hornfirðinga og það voru engin mistök þarna á ferðinni.

Ég taldi mér skylt að leiðrétta þetta, vegna þess að mér er málið kunnugt.