21.03.1979
Efri deild: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3445 í B-deild Alþingistíðinda. (2692)

200. mál, almannavarnir

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 4. þm. Reykn. fyrir innlegg hans í málið.

Ég vil láta það koma fram, að ég hef að sjálfsögðu ekkert við það að athuga að vandlega verði skoðað hvort fleiri eigi að hafa aðild að almannavarnaráði. Við þurfum að ganga frá þeim málum á sem bestan máta. Hins vegar vil ég að það komi fram, að almannavarnaráð hefur kappkostað að hafa mjög gott samband við mjög marga aðila og þar eru að sjálfsögðu framarlega t. d. heilbrigðisog heilsugæslan öll og slysavarnir. Ég vil gera það að till. minni til hv. n., að hún ræði slík mál við almannavarnaráð sjálft, formann þess og þann fulltrúa sem gegnir þar störfum, og leiti sér þar upplýsinga um slíkt. Hins er svo að gæta, sem allir þekkja, að þegar slíkt ráð verður mjög fjölmennt verður það erfiðara í meðferð og menn þurfa að rata meðalveginn.

Ég vil einnig taka mjög ákveðið undir það sem hv. þm. sagði um fjárskort almannavarna. Ég átti síðast í morgun fund með almannavarnaráði um ýmis almannavarnamál. Ég held að það sé ákaflega aðkallandi að taka saman nokkuð ítarlega skýrslu um starfsemi almannavarna og það sem þar sárast skortir til að almannavarnaráð geti sinnt verkefnum sínum. Staðreyndin er sú, svo að ég geti þess hér, að t. d. kom í ljós á fundi í morgun, að Póstur og sími á engar stöðvar sem hann getur í skyndi sett upp hingað og þangað um landið með nægilega mörgum rásum til þess að halda uppi fjarskiptum við svæðin. Þetta er auðvitað mjög alvarlegt ástand. Einnig var mér sagt í morgun, að það væri til umræðu að reisa nýja útvarpsstöð á Suðurlandi, jafnvel á miðju sprungusvæðinu. Ég held að þá hljóti að verða athugað hvort möstur, sem til þess eru nauðsynleg, þola jarðskjálfta.

Verkefnin eru þarna ákaflega mörg og brýn og ég hef einmitt óskað eftir því að saman yrðu teknar upplýsingar um þau og mun að sjálfsögðu með ánægju láta Alþ. slíkt í té.